Það bar til um þessar mundir að drepsótt hafði herjað á landsbyggðina lungað úr árinu. Landsmönnum öllum var sagt að fórna samverustundum með fjölskyldu sinni til þess að saman gætum við öll lágmarkað skaðann af pestinni, verndað okkar veikustu og varist því að heilbrigðiskerfið færi á kaf.
En í mörg hundruð fermetra einbýlishúsi í Garðabænum bjuggu hjón sem vöknuðu á hverjum morgni og sögðu: „Við ætlum bara að gera það sem er ljótt,“ eins og moldríku jarðálfarnir sem þau eru.
Á Þorláksmessu höfðu hjónin farið niður í bæ, eins og Íslendinga er venja og siður. Á leiðinni heim úr bænum fengju hjónin svo símhringingu. Önnur múruð jarðálfahjón voru á sölusýningu í Ásmundarsal og vildu endilega fá Bjarna og frú í smá innlit. Smáinnlit. Sminnlit. Smilit. Smit.
Stoppum nú í smástund. Öll önnur ár væri þetta fullkomlega eðlilegur viðburður. Bara spilltasti stjórnmálamaður í sögu landsins að fara á listaverkasýningu á Þorlák, þar sem enginn á erindi nema allra ríkustu Íslendingarnir.
Bara fullkomlega eðlilegur Bjarni og frú að kíkja á smá listaverkasölu í mundasal með öðrum silfurskeiðungum, með skýrslurnar sem hann „gleymdi“ í vasanum, aura á leynieyjum, með múruðu frændurna alveg hyglda í döðlur, með kátar Flórída-klappstýrur á samviskunni (djók, haha, engin samviska hér á bæ;) og uppærureista barnariðla röltandi um eða kannski fljúgandi frjálsa eins og fugla því æran hefur verið reist svo mikið upp að þeir geta ekki nálgast hana nema kannski helst í flugvél á leiðinni til Tælands þar sem þeir geta riðlast á fleiri börnum án þess að íslenskur almenningur sé að fetta út í það horaðan fingurinn. Kannski þeir skrifi Bjarna og pabba hans póstkort, með mynd af hvítum ströndum og pálmatrjám, frelsi einstaklingsins fegnir, þakkandi fyrir tækifærið til þess að fá annan séns, því þeir voru jú allir svo geggjaðslega duglegir að sýna iðrun fyrir allt barnaníðið sem þeir gerðu óvart.
En við vorum að tala um listasýningu, og það enga venjulega sýningu, onei og ekki. Sölusýningu í Ásmundarsal - ég skal sko lofa þér því að þangað koma fáir frá Vestfjörðum og Suðurnesjum. Við erum að tala um dökk leðursófasett og grá hár og landslag og portrett í stórum og háglansandi römmum og sérsniðin jakkaföt og stór úr og oddmjóir skór og háfætt vínglös og hávær hvellur hlátur skellandi í vandlega skúlptúruðum tönnum sem frussast út með snittum og kannski örfáum kornum af hvítu. Hvítt og kjólar. Böbblí og millur. Jarðálfar á lúxusjeppum. Enginn á þessari sölusýningu þurfti að standa í röð hjá Mæðrastyrksnefnd eða Fjölskylduhjálp fyrir jólin. Enginn þarna þurfti bara rétt aðeins að kíkja á heimabankann í röðinni í Bónus áður en borgað er bara til þess að vera viss um að fá ekki Hafnað. Þetta er hitt fólkið. Þau sem svífa hér um fyrir ofan okkur hin.
„Þá var salurinn nánast tómur, en á næstu fimmtán mínútum gjörsamlega mokuðust inn í hann broddborgarar“
Allavegana. Inn rölta hjónin úr Garðabæ og hvað blasir við þeim? Ef við tökum orðum Bjarna trúanlegum, þá var salurinn nánast tómur, en á næstu fimmtán mínútum gjörsamlega mokuðust inn í hann broddborgarar svo hratt að fjármálaráðherrann bæði blindaðist og hætti að kunna að telja upp á tíu. Greyið Bjaddni. So erfitt a telja. Allar skýrslurnar, öll hlutabréfin, allar klappstýrurnar, allir barnaníðingarnir, allir frændurnir, allt of mikið af fínu fólki á sölusýningu í Ásmundarsal, hvað eru margar afsagnir í því?
En hvað sagði aðilinn sem hringdi inn og tilkynnti um þessa ólöglegu fjöldasamkomu? Hann sagði Bjarna hafa mætt um tíu mínútum áður en hringt var í lögguna, og að hann var enn í salnum þrátíu mínútum seinna, þegar löggan mætti. Tíu plús þrjátíu er augljóslega fimmtán, það veit hver einasti fjármálaráðherra!
Ha? Ætlar einhver að halda því fram að hæstvirtur Bjeddni Bjen hafi kannski ekki sagt hundraðprósent satt og rétt frá öllum málsatvikum? Hvað næst? Að Kristján Þór sé fullhæfur sjávarútvegsráðherra og að aðstoðarmaður Hönnu Birnu hafi einn og óstuddur staðið að lekamálinu? Plís, takið ofan álpappírshattana, ég nenni ekki að hlusta á svona vitleysu. Nei, nei, ekki um jólin.
Þannig að þjóðin er í tæpt ár búin að einangra sig frá ástvinum, leikskólar, skólar, sjúkrahús, íbúakjarnar, allir hólfaskiptir að gera sitt besta samkvæmt krefjandi tilmælum sóttvarnaryfirvalda. Ferðaþjónustan er rotnandi lík. Allir með sprittaðar hendur og kæfandi andlitsgrímur gnístandi tönnum af kvíða og depurð en Bjarni ákveður að bæta í ammoníaksstemninguna á Þorláksmessu með því að sveifla út sólbrúnum skaufanum og míga framan í þjóðina. Og á meðan gulir taumarnir leka niður bringuna á okkur hvíslar hann í eyra okkar „Ég lít ekki svo á að þessi atburður kalli á afsögn. Gleðileg jól.“
Að sjálfsögðu lítur þú ekki svo á, Bjarni. Þó hann væri gripinn á Austurvelli í Grýlubúning með nokkra hvítvoðunga sjóðandi í stórum pott yfir prímus með hrúgu af mergsognum ungbarnabeinum í poka á bakinu myndi hann líka segja, bara í þetta skiptið með skrækri Grýlurödd: „ég lít ekki svo á að þessi atburður kalli á afsögn, híhíhí.“
„Hann þekkir varla ömmur sínar og afa.“
Og áður en grátkórinn í stuttbuxunum jarmar að nú séu jól, tími fyrirgefninga og kærleika og að maðurinn eigi fjölskyldu, eins og hún sé eitthvað Amma-ruglast spil sem geri hann ónæman fyrir gagnrýni, þá vil ég bjóða ykkur náðasamlegast að fjarlægja tunguna aðeins af oddmjóu skónum hans og hlusta. Við eigum öll fjölskyldur, sum okkar fjölskyldur sem við höfum meinað okkur um að hitta mánuðum saman. Ég á rétt rúmlega árs gamlan strák sem hefur ekki hitt ömmu mína og afa síðan í sumar, og þar áður ekki í margar vikur. Hann þekkir varla ömmur sínar og afa. Eldri borgarar eru að veslast upp á hjúkrunarheimilum. Framhaldsskólanemar eru að glíma við þunglyndi, kvíða og brottfall úr skóla í sögulegu magni. Fólk er að deyja, meðal annars úr covid, án þess að ættingjar þeirra geti hvatt þau. Við eigum öll fjölskyldur og við höfum öll þurft að færa fórnir. Það minnsta sem við getum farið fram á er að fólkið sem biður okkur að færa fórnirnar drullist til þess að gera það þá líka sjálft og sé ekki á snobbfylleríi með öðrum auðmönnum og reyni svo að ljúga sig út úr því þegar það er gripið glóðvolgt.
En bjuggumst við einhvern tímann við því að þetta væri einhver annar ráðherra en Bjarni? Hver hefur ítrekað sýnt að hann telji sig yfir reglurnar hafinn? Hver hefur alltaf logið sig í gegnum spillingar - og hneykslismál til þess að halda völdum? Hver telur sig svo ómissandi að hann geti alveg ómögulega sagt af sér, þó afrekaskráin sé nánast í raun ekkert nema langur, notaður skeinipappír. Ég skal gefa þér vísbendingu: Hann byrjar á B og endar á jarniben@N1.is.
Ekkert sem kemst upp um hann kemur mér á óvart lengur. Sólin rís og sólin sest. Það kemur flóð og fjara og einhverstaðar þar á milli mun koma upp nýtt hneykslismál sem Bjarni Ben er viðriðinn, viðrinið.
Það sem er líka ósagt er fordæmið sem Bjarni setur með þessari hegðun. Á næstu dögum munu þúsundir einstaklinga taka ákvarðanir um hvort þeir ætli að hitta nákomna utan sinnar jólakúlu. Framkoma Bjarna mun gera það líklegra að þessi einstaklingar ákveði að hittast. Sumir þeirra munu vera með covid. Þeir munu smita. Við sjáum uppskeruna hans Bjarna svo í tölunum eftir um hálfan mánuð. Í stað þess að kalla hana fjórðu bylgjuna, legg ég til að kúrvan sem birtist upp úr áramótum verði nefnd Bjarna bylgjan.
Hann hefur nefnilega lyft algjöru grettistaki í því að færa til línu þess sem getur talist eðlileg hegðun stjórnmálamanns, án þess að þurfa að segja af sér. Þessi áskita hans, eins sögulega heimskuleg og kærulaus hún er, er aðeins dropi í haf spillingar og hneykslismála sem tengjast honum. Þetta er einfaldlega það sem gerist, og mun halda áfram að gerast, þegar greindarskertur og siðblindur maður þarf aldrei að takast á við afleiðingar gjörða sinna. Áfram gakk á teflonpönnunni.
Athugasemdir