Maður sem lögreglu bárust upplýsingar um að hefði haft í hótunum við Katrínu Jakobsóttur forsætisráðherra fyrr í dag reyndist ekki staddur á Seyðisfirði. Lögregla ræddi við manninn og eftir það samtal er ekki talin ástæða til frekari aðgerða gagnavart manninum, né annarra viðbragða yfirleitt.
Katrín var stödd á Seyðisfirði í dag ásamt þremur ráðherrum öðrum til að ræða við heimamenn og sjá með eigin augum skemmdirnar sem urðu vegna skriðufallanna síðastliðinn föstudag. Um hádegisbil barst lögreglu ávæningur af því að maður hefði haft uppi hótanir í garð Katrínar sem væru þess eðlis á ástæða væri til að taka þær alvarlega. Var Katrínu komið tímabundið í skjól en skömmu síðar hélt dagskrá ferðar hennar og ráðherranna þriggja áfram eins og til hafði staðið.
Lögregla jók gæslu um tíma vegna málsins á meðan það var að skýrast en sem fyrr segir er ekki lengur talin ástæða til að hafa áhyggjur að velferð forsætisráðherra.
Athugasemdir