Eftir áratug sem frístundaleiðbeinandi fór Sædís Sif Harðardóttir að finna fyrir kulnun og ákvað að bregðast við því með því að skrá sig í langþráð tónlistarnám í haust. Þegar jólatónleikum hennar var aflýst tók Sædís til þess ráðs að gera lágstemmda ábreiðu á „Hugurinn fer hærra“ eftir Íslensku dívurnar. Lagið er komið út á Spotify og myndbandið á Youtube.
Menntastefna Reykjavíkurborgar til ársins 2030 er kölluð „Látum draumana rætast“, en Sædís segir við Stundina að hún hafi hreyft við sér. „Ég fór að hugsa að við þurfum að vera fyrirmyndir í að láta drauma okkar rætast; ef við gerum það ekki, af hverju ættu krakkarnir okkar að reyna það? Þannig að ég dreif mig í söngnám, sem mig hefur lengi langað að gera.“
Sædís segir að börnin og samstarfsfólk hennar hafi hvatt hana til þess að halda fyrirætluðu jólatónleikana. Þegar þeim var aflýst segir hún að það hafi verið vonbrigði, en að hún hafi ekki viljað láta allan undirbúninginn verða að engu og því ákvað hún að taka upp áðurnefnda ábreiðu og tónlistarmyndband.
„Þetta var draumalagið mitt og það átti að vera aðal dívulagið,“ segir Sædís. „Ég hlakkaði til að gera árið upp á tónleikunum. Ég varð að gefa eitthvað af mér, í staðinn fyrir að gefast bara upp eftir þetta erfiða ár. Það ferli, að taka lagið upp og gefa út, breyttist í aðra drauma.“
Athugasemdir