Stjórn umhverfissamtakanna Landvernd hefur sent frá sér harðorða yfirlýsingu þess efnis að úrgangsmál á Íslandi séu enn í miklum ólestri. Stundin birti nýverið ítarlega greiningu fyrir stuttu á því hvernig staðan er á úrgangsmálum á Íslandi. Þar kom meðal annars fram að tölfræði um endurvinnsluhlutfall Íslands á plasti á sér enga stoð í raunveruleikanum, ásamt því að íslensk endurvinnslufyrirtæki hafa sent í mörg ár plast til Svíþjóðar, plast sem endar í litlu magni í endurvinnslu. Fyrirtækið Swerec, sem meðal annars Sorpa sendir plastið sitt til, hefur verið undir lögreglurannsóknum í þremur ríkjum og átt þátt í einu stærsta umhverfisslysi í sögu Lettlands. Í því slysi brunnu um 23 þúsund tonn af plasti, þar af var um rétt helmingur frá Swerec.
Raunveruleg þróun sé mögulega verri en opinberar tölur gefa til kynna.
Í yfirlýsingunni, sem send var meðal annars á framkvæmdastjóra Sorpu og framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, segir að úrgangsmál Íslendinga séu enn í miklum ólestri og að raunveruleg þróun úrgangsmála hér á landi geti því verið mun verri en opinberar tölur gefa til kynna.
„Þá niðurstöðu má draga af greiningu Stundarinnar að úrgangsmál Íslendinga séu enn í miklum ólestri, tölulegar upplýsingar ekki sannleikanum samkvæmt, fyrirtæki stunda blekkingarleik og atvinnulífið sem sveitarfélögin hamla framförum. Raunveruleg þróun úrgangsmála kann því að vera verulega verri en opinberar tölulegar upplýsingar gefa til kynna, og langt frá því að Ísland uppfylli þær skuldbindingar sem felast í EES samningum. “
„Niðurstaðan er að þessi mál eru í miklum ólestri“
Blekkingar fegra myndina
Landvernd segir að úrgangsmál á Íslandi séu enn í miklum ólestri og ekki í samræmi við lög. Þá segja samtökin að blekkingar séu stundaðar til að fegra stöðuna um endurvinnslu hér á landi og þörf sé á róttækum breytingum í málaflokknum.
„Blekkingar eru stundaðar til að fegra stöðuna“
„Niðurstaðan er að þessi mál eru í miklum ólestri, ekki í samræmi við lög og blekkingar eru stundaðar til að fegra stöðuna. Málið var tekið fyrir á nýlegum fundi stjórnar Landverndar. Stjórnin telur að framlagðar upplýsingar um stöðu mála sýni að ástandið er algjörlega óviðunandi og að það er þörf fyrir róttækar breytingar til að færa málin í betra horf. Landvernd telur að eftirfarandi aðgerðir geti verið leið til að koma málum í ásættanlegt ástand á næstu árum.“
Leggja fram tillögur til að laga kerfið.
Í yfirlýsingunni setur Landvernd fram níu tillögur um aðgerðir sem þau telji geti lagað ástandið þegar kemur að úrgangsmálum. Meðal tillagna er að koma á urðunarskatti, en Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra ákvað að hætta við að leggja fram frumvarps þess efnis á Alþingi í október síðastliðnum. Þá leggur Landvernd einnig til að lagt verði skilagjöld á veiðarfæri frá sjávarútveginum. Í dag bera veiðarfæri, sem eru að mestu úr plasti, engin gjöld og er því lítill sem enginn hvati í kerfinu að endurvinna þau. Samkvæmt tölum Umhverfisstofnunar endar meira en helmingur allra veiðarfæra á ruslahaugum landsins þar sem þau eru urðuð.
Hvetja alla aðila að bæta sín ráð
Að lokum segir Landvernd að allir þeir aðilar sem standi að úrgangsmálum á Íslandi taki höndum saman og bæti ráð sitt. Þá munu samtökin bjóða öllum aðilum sem koma að málaflokknum til sín á fund til að ræða úrbætur.
„Landvernd hvetur atvinnulífið og sveitarfélögin til að bæta ráð sitt og taka nú höndum saman um úrbætur sem duga, og að styðja þær tillögur um aðgerðir sem hér koma framan. Ef ekki, þá að benda á aðrar leiðir sem eru líklegar til að koma samfélaginu á rétta braut í þessum málaflokki. Að sjálfsögðu eru samtökin reiðubúin til umræðu um aðrar leiðir til marktækrar umbóta í úrgangsmálum og munu á næstunni bjóða til fundar í þeim tilgangi.“
Hér að neðan má sjá yfirlýsingu Landverndar í heild.
Í Stundinni 23.10.2020 birtist úttekt Bjartmars Alexanderssonar undir fyrirsögninni „Plastleyndarmál Íslands“. Greinin er greinilega unnin af mikilli þekkingu á málefninu og víða leitað fanga. Þá niðurstöðu má draga af greiningu Bjartmars að úrgangsmál Íslendinga séu enn í miklum ólestri, tölulegar upplýsingar ekki sannleikanum samkvæmt, fyrirtæki stunda blekkingarleik og atvinnulífið sem sveitarfélögin hamla framförum. Raunveruleg þróun úrgangsmál kann því að vera verulega verri en opinberar tölulegar upplýsingar gefa til kynna, og langt frá því að Ísland uppfylli þær skuldbindingar sem felast í EES samningum. Viðtal við umhverfis- og auðlindaráðherra í sama blaði tveimur vikum síðar breytir litlu um þær ályktanir sem draga má af greininni frá 23. október.
Í greininn segir frá því að fyrirtæki eins og SORPA og Terra hafa verið í beinum eða óbeinum viðskiptum við vafasöm erlend endurvinnslufyrirtæki og sýna ekki viðleitni til að tryggja að staðið sé við fyrirheit um raunverulega endurvinnslu. Þá sé óreiða á hugtökunum „endurvinnsla“ og „endurnýting“.
Um Úrvinnslusjóð, sem er að meirihluta í höndum atvinnuveganna, segir að á stórum hluta þess plast sem fluttur er til landsins sé ekki lagt á úrvinnslugjald. Gler er líka undanþegið gjaldi og það kann að hafa hindrað að gleri sé safnað skipulega og endurvinnsla sé hafin á því hér á landi. Þá hefur sjóðurinn veitt fyrirtækjum í sjávarútvegi ótímabundnar undanþágur frá almennum reglum.
Í greininni er fullyrt að Ísland brjóti EES samning vegna endurvinnslu á gleri og að 30 ára gömul áform um endurvinnslu glers hafi enn ekki komið til framkvæmda þar sem þráast hafi verið við að seta úrvinnslugjald á gler. Þá er reynt fegra ástandið með því að skilgreina notkun á gleri til að hindra rottugang á urðunarstöðum sem endurvinnslu. Greinin lýsir því einnig tregðu við að uppfæra skilagjöld og gjöld í Úrvinnslusjóð í samræmi við breytingar á verðlagi og kostnaði við úrvinnslu, eins og lög þó kveða á um. Greint er frá því að samkvæmt reglum eiga fiskiskip að tilkynna ef þau tapa veiðifærum í sjó. Engin tilkynning hefur borist frá útgerðarfélögum frá því að lögin voru samþykkt árið 2016. Þá er afskrifuð veiðarfæri svo að segja öll urðuð þar sem það er ódýrara en að senda þau til endurvinnslu eða endurnýtingar sem orkugjafa. Í sama blaði er greint frá vinnu við uppgræðslu með moltu frá Terra við Krýsuvík í samstarfi við Landgræðsluna. Með moltunni fór einnig mikið magn af plasti og jafnvel menguðu timbri. Vinnsla á moltu virðist því vera í miklum ólestir, bæði hjá þeim sem safna og senda lífrænan úrgang frá sér og fyrirtækisins sem tekur við honum. Niðurstaðan er að þessi mál eru í miklum ólestri, ekki í samræmi við lög og blekkingar eru stundaðar til að fegra stöðuna.
Málið var tekið fyrir á nýlegum fundi stjórnar Landverndar. Stjórnin telur að framlagðar upplýsingar um stöðu mála sýni að ástandið er algjörlega óviðunandi og að það er þörf fyrir róttækar breytingar til að færa málin í betra horf. Landvernd telur að eftirfarandi aðgerðir geti verið leið til að koma málum í ásættanlegt ástand á næstu árum:
• Efla aðgerðir til að þróa hringrásarhagkerfið og breyta neyslu til að draga úr úrgangi.
• Kom á urðunargjaldi sem gerir urðun óhagkvæma og styrkir stöðu endurvinnslu.
• Gera skilagjöld víðtækri og hækka í samræmi við verðlagsþróun.
• Úrvinnslusjóður starfi á forsendum almennrar umhverfisverndar og þróast í tak við kröfur nútímans og verði óháður atvinnulífinu.
• Sett verði skilagjöld á veiðarfæri.
• Sveitarfélög beiti mengunarbótareglunni við álagningu sorphirðugjalda.
• Fræðslu um flokkun á úrgangi, og sérstaklega lífrænum úrgangi, verði efld.
• Reglur um um skil og skráningu úrgangs frá byggingaframkvæmdum verði skerptar.
• Eftirliti og mælingum á ástandi grunnvatns og loftgæða á urðunarstöðum verði bætt.
Landvernd hvetur atvinnulífið og sveitarfélögin til að bæta ráð sitt og taka nú höndum saman um úrbætur sem duga, og að styðja þær tillögur um aðgerðir sem hér koma framan. Ef ekki, þá að benda á aðrar leiðir sem eru líklegar til að koma samfélaginu á rétta braut í þessum málaflokki. Að sjálfsögðu eru samtökin reiðubúin til umræðu um aðrar leiðir til marktækrar umbóta í úrgangsmálum og munu á næstunni bjóða til fundar í þeim tilgangi.
Athugasemdir