Það er langt milli gasrisanna í ytri sólkerfisins okkar. Fjarlægðin milli þeirra stærstu, Júpíters og Satúrnusar, er að jafnaði meira en 644 milljónir kílómetra. Þann 21. desember mun hins vegar líta út fyrir, frá Jörðu séð, að risarnir tveir nánast renni saman á himninum.
Fjarlægðin milli þeirra á okkar næturhimni mun verða aðeins sem svarar um það bil einum fimmta af fullu tungli.
Þeir verða nánast eins og dauft tvístirni.
Margar aldir síðan síðast
Þótt það gerist á tæplega 20 ára fresti að Júpíter og Satúrnus fari býsna nærri hvor öðrum, frá okkur séð, þá er svo náið samspil – eins og mun blasa við 21. desember – mjög sjaldgæft.
Heimildum mínum ber ekki saman um hvort það gerðist síðast 4. mars 1226 eða 1623 en það eru altént margar aldir síðan.

Þetta gæti orðið sjón að sjá, enda eru báðar pláneturnar vel sjáanlegar frá Jörðinni, þótt Júpíter sé sýnu skýrari, enda bæði stærri og mun nær okkur en Satúrnus.
Á sínum tíma giskaði hinn merki stjörnufræðingur Johannes Kepler (1571-1630) á að saga Biblíunnar um Betlehem-stjörnuna, sem vísaði vitringunum þremur veginn til hins nýfædda frelsara mannkynsins, guðssoninn Jesúa, hefði verið sprottin af slíku samspili Júpíters og Satúrunusar árið 6 fyrir Krist.
Þá voru félagarnir tveir ekki aðeins mjög nærri hvor öðrum, eins og verða mun 21. desember, heldur voru þeir einnig í sérstakri afstöðu við sólina.
Svo skemmtilega vill til að aðrar heimildir virðast einnig benda til að Jesúa hafi verið fæddur á að giska sex árum „fyrir Krist“, ef svo má segja.
Næst eftir 60 ár
Fastlega má reikna með því að sögur um meinta eða jafnvel sjálfskipaða frelsara muni fara á kreik næstu daga og ná hámarki um vetrarsólstöður.

Því miður mun raunin vera sú að hér norðan til á heimskringlunni mun þetta samspil risanna vera sjáanlegt mun skemur en sunnan til. En menn ættu þó að líta til himins 21. desember og næstu daga.
Í góðum sjónauka ættu pláneturnar tvær og stærstu tungl þeirra að sjást saman eins og í hægum daufum dansi.
Og jafnvel bara í þokkalegum stjörnusjónauka, eins og víða eru til, ætti þetta að vera merkileg sjón.
Ef menn missa af þessu, þá gefst næst tækifæri til að líta svo náið samspil gasrisanna augum 15. mars 2080 eða eftir 60 ár.
Og svo þar næst einhvern tíma eftir árið 2400.
Athugasemdir