Sjálfstæðisflokkurinn er vel tengdur inn í viðskiptalífið sem greiðir með glöðu geði há gjöld til flokksins. Þá hefur hann í áranna rás raðað fólki í valdastöður í stjórnsýslunni og á fjölmiðlum og þannig tryggt að sólin skíni oftar og betur á þá sem tala vel um flokkinn en aðrir séu helst úti í kuldanum eða standi að minnsta kosti í skugga. Skipun dómara í Landsrétt átti ekki að vera nein undantekning og flokkurinn stóð heilshugar á bak við sinn dómsmálaráðherra.
Óþægileg hreinskilni Sigríðar Á. Andersen þegar Mannréttindadómstóllinn fór að fetta fingur út í þetta varð hins vegar til þess að það þurfti að setja hana af. Dómsmálaráðherra sem er hafinn yfir lögin var of mikið af því góða þegar það var búið að færa það í orð.
Og þá komum við að hinni sjúku stjórnmálafjölskyldu.
Sjúka fjölskyldan, með sínum sjálfsdýrkandi einvaldskóngum, hetjum og svörtum sauðum, hirðfíflum, hjálparhellum og gleymdu börnum er fjölskylda þar sem átök og ofbeldi, stundum vanræksla, jafnvel misnotkun, getur þrifist í skjóli þess að allir meðlimir hennar fara ósjálfrátt í hlutverk sem viðhalda ástandinu og þagga það niður. Fólk sem elst upp í slíkum aðstæðum getur farið að líta á þær sem eðlilegt fjölskyldulíf og flutt sjúkleikann frá einni kynslóð til annarrar.
Sigríður Á. Andersen hefur á undanförnum árum gengist upp í því hlutverki að vera svarti sauður Sjálfstæðisfjölskyldunnar og létta á spennunni með því að segja það sem hatrömmustu flokksmönnunum brennur í brjósti án tillits til þess hvort það er staður eða stund. Það er sérstaklega óþægilegt fyrir forystuna sem vill frekar klæða sérhagsmuni og öfgar í viðeigandi búning.
Með því að setja hina sannleikselskandi Sigríði Á. Andersen í embætti dómsmálaráðherra gerði forystan því mistök og stóð fyrir vikið berrössuð frammi fyrir almenningsálitinu, þegar óþægileg mál komu upp, með röksemdir sem þola ekki dagsljósið nema á lokuðum sellufundum.
Hin meðvirka fjölskylda verður að velja sér ráðherra sem passa í hlutverk hetjunnar sem felur sjúkleikann undir sléttu og felldu yfirborðinu. Hetjan er ung og sæt, dugleg og slétt og felld. Hún myndi aldrei segja neitt sem afhjúpar forystuna, hún myndi alltaf verja fjölskylduna og hagsmuni hennar, sama hvaða önnur gildi væru að veði. Hún tekur jafnvel þátt í því að leggja hin systkinin í einelti þegar aðstæður krefjast þess og ímynd fjölskyldunnar er í hættu.
Sigríður er allt of sjálfstæð og þrjósk til að passa í hlutverkið.
Og víkur þá sögunni að hirðfífli Sjálfstæðisflokksins, sem hafði gert sér vonir um að hreppa sæti dómsmálaráðherra að Sigríði genginni. Hirðfíflið eða trúðurinn er annað vel þekkt hlutverk í hinni meðvirku stjórnmálafjölskyldu. Hirðfíflið léttir á spennunni með því að segja það sem því býr í brjósti en vera hálfhlæjandi á meðan, svona, fyrirgefið hvað ég er agalegur, krakkar, en þið hljótið að sjá þetta líka. Þetta gerir þeim sem „sjá þetta líka“ lífið léttbærara, en hinir geta hlegið með og sagt síðan afsakandi, „hann meinar ekkert með þessu. Hann er bara að grínast.“
Og hver skyldi nú vera hirðfífl Sjálfstæðisflokksins? Jú, eiginmaður eins dómarans sem ráðherrann skipaði, þvert á álit hæfnisnefndar sem hafði raðað öðrum framar.
Sjálfstæðisflokkurinn er ekki eina dæmið um hina meðvirku stjórnmálafjölskyldu. Það mætti heimfæra þetta allt að einhverju leyti upp á hina flokkana líka. Stjórnmálamenningin sjálf er sjúk og krefst þess að við leikum okkar hlutverk eða hverfum af sviðinu.
Í því ljósi ber að skoða viðbrögðin við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu og fjölmörgum málum öðrum sem koma upp. Dómurinn er ekki bara áfellisdómur yfir lögbroti dómsmálaráðherra heldur líka málsmeðferð og meðvirkni Alþingis. Þingmenn voru ekki að vinna vinnuna sína þegar þeir greiddu atkvæði átölulaust um dómaralistann í heilu lagi eftir að Sigríður hafði hrært í honum án þess að rökstyðja breytingarnar. Það gerðu þeir þrátt fyrir háværar raddir um að í uppsiglingu væri réttarfarshneyksli sem gæti orðið dýrkeypt.
Formenn hinna stjórnarflokkanna í núverandi ríkisstjórn lögðu líka blessun sína yfir að Sigríður yrði áfram dómsmálaráðherra í nýrri ríkisstjórn þrátt fyrir að genginn væri hæstaréttardómur um að hún hefði brotið stjórnsýslulög. Þar með gengust þeir í ábyrgð fyrir framferði ráðherrans sem lýsti sig einfaldlega ósammála dómstólum.
Línurnar í málinu hafa því ekki verið lagðar með virðingu fyrir dómstólum og lýðræði að leiðarljósi heldur hafa þær mótast af því hverjir eru í liði með Sjálfstæðisflokknum hverju sinni.
Niðurstaðan liggur nú fyrir: Skýr og skorinorð falleinkunn fyrir lögbrot og pólitísk afskipti af dómstólum.
Þegar fyrri dómur Mannréttindadómstólsins lá fyrir varð Landsréttur óstarfhæfur og Sigríður var pínd til að segja af sér sem ráðherra. Látið var líta svo út í byrjun að það yrði jafnvel einungis tímabundið og málinu áfrýjað til að fá endanlega niðurstöðu dómstólsins í von um bænheyrslu.
Niðurstaðan liggur nú fyrir: Skýr og skorinorð falleinkunn fyrir lögbrot og pólitísk afskipti af dómstólum.
Dómsmálaráðherrann fyrrverandi segir dóminn „pólitískt at og óvirðingu við Alþingi“ en hún hafi vitað fyrirfram hvernig færi. Forsætisráðherra segist núna ætla að læra af dómi Mannréttindadómstólsins en lætur ósagt í hverju lærdómurinn sé fólginn. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins segja dóminn hins vegar engu máli skipta.
Spurningin er hvort þau hefðu átt að upplýsa almenning um að niðurstaðan skipti engu máli, nema hún félli að málatilbúnaði Sjálfstæðisflokksins, áður en lagt var upp í þessa vegferð.
Og hvað ætli niðurstaðan sem skiptir engu máli hafi kostað skattgreiðendur?
Athugasemdir