Borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær samning við Samtökin ´78 um þjónustu og fræðslu. Samningurinn er til þriggja ára og greiðir Reykjavíkurborg samtökunum 8,7 milljónir árlega. Framkvæmdastjóri samtakanna segir að samningurinn geri kleift að halda úti óbreyttri starfsemi, í það minnsta í byrjun næsta árs.
Samtökin ´78 sögðu upp öllum fjórum starfsmönnum sínum í lok september og einnig verktökum sem starfa fyrir samtökin. Daníel E. Arnarsson framkvæmdastjóri sagði þá að um neyðarráðstöfun væri að ræða þar eð samningar samtakanna við bæði borg og ríki væru að renna út og án þjónustusamninga væri rekstrargrundvöllur samtakanna brostinn.
Öllu léttara var yfir Daníel í gær þegar ljóst var að samningurinn við borgina væri í höfn. „Þetta þýðir að við getum allavega opnað í janúar en við erum enn þá að bíða eftir fleiri aðilum, forsætisráðuneytinu fyrst og fremst.“ Daníel segir þó að enn sem komið er treysti hann sér ekki til að draga til baka uppsagnir starfsfólks, meira þurfi að koma til. Hann segist bjartsýnn á að samningar við ríkið nái fram að ganga, úr forsætisráðuneytinu hafi komið skilaboð þess efnis að mikill vilji sé til að semja við samtökin. „Ég vona að ég verði kominn með svör fyrir miðjan desember.“
Athugasemdir