Díönu dreymdi um að verða Disney-prinsessa og dansa kát í höllinni við prinsinn, sem dag einn yrði kóngur og hún drottning með demantaskrýdda kórónu á höfði. Hún skildi ekki að henni var ætlað það hlutverk eitt að hanga einsog útklippt dúkkulísa á snúru og ala erfingja í akkorði. Kynbótahryssa með kórónu tyllta á faxið. Í staðinn fyrir að dansa í glimmerkófi eyddi hún prinsessulífinu með fingur í kokinu að skola trufflunum og kampavíninu niður í holræsi hallarinnar. Helsta áhugamál Díönu eftir það var að hefna sín á hirðinni með beiskjuþrungnum frásögnum af kulda og ástleysi eiginmannsins og skilningsvana fjölskyldu hans. Hinn eilífi píslarvottur skipbrota hjónabands. Ástrík móðir og líknandi gyðja á daginn, hvítglóandi hefndarengill á kvöldin.
Sirka þannig birtist harmsaga Díönu prinsessu í fjórðu þáttaröð Krúnunnar, The Crown (má alls ekki rugla saman við The Icelandic Crown, píslarsögu hrakins og smáðs gjaldmiðils). Þættir sem gætu endanlega kæft möguleika Karls Bretaprins á að setjast í hásætið, því hatursbylgjurnar sem skella á honum frá áhorfendum þáttanna virðast skola út á hafsauga tuttugu ára streði hans við að endurheimta velþóknun þegnanna eftir dauða Díönu. Honum hlýtur að líða líkt og fyrrum eiginkona hans sé stigin upp úr gröf sinni í brúðkaupskjólnum eins og tryllt múmía syngjandi einhvern hrylling eftir Andrew Lloyd Webber. Í breskum fjölmiðlum segir einn höfundur margra bóka um konungsfjölskylduna (þvílík örlög!) að hann telji þættina jafnvel tefla framtíð konungsdæmisins í tvísýnu.
Ég horfði ekki á þessa bresku þætti um vesalings kóngafólkið fyrr en þriðja bylgja drepsóttarinnar skall á Íslandi. Hafði haft fordómaskotinn ímugust á þáttunum og taldi að um væri að ræða anga af blómlegum arfleifðariðnaði Breta. Einn eitt búningadramað hélt ég, sérhannað til að lappa upp á mölvaða sjálfsmynd fyrrum heimsveldis, glansmyndarleg upphafning á daufgerðri drottningu og hennar ófélega slekti sem vekur hverfandi áhuga minn.
Skætt tilræði við bresku krúnuna
En The Crown hefur til að bera klókari víddir og svipsterkari. Sérstaklega eru fyrstu tvær þáttaraðirnar skrifaðar af kænsku, enda getur skapari þeirra, Peter Morgan, sótt í ókjör af sögulegum efniviði þegar hann málar fjölþætta persónulega og pólitíska mósaíkmynd af fyrstu tveimur áratugunum í valdatíð Elísabetar annarrar. Síðan hriktir í hásætinu og í raun er fjórða þáttaröðin sú lakasta og virðist einkum skrifuð út frá slúðurblaðaúrklippum og mónatónískum umkvörtunum Díönu einsog þær birtust á sínum tíma í heimildarmyndinni Diana: In Her own Words. Að tvær manneskjur séu ólukkulegar í hjónabandi, þrátt fyrir öll hugsanleg veraldleg lífsgæði, skiptir í raun engan máli nema þær tvær manneskjur og þeirra nánustu. Að teygja þá óhamingju í tíu klukkutíma kjökur er ekki ýkja gjöfult áhorfs.
„Í veldissprota Bretadrottningar ætti að vera lifrarpylsukeppur í staðinn fyrir stærsta demant veraldar“
Í heild sinni er þáttaröðin þó eitt slungnasta og skæðasta tilræði við bresku krúnuna sem plottað hefur verið. Hún leiðir fram á sjónarsviðið hóp af afkáralegum meðaljónum með svo takmarkaða nærveru að þó að þau hoppuðu öll samtaka fyrir framan sjálfvirkar dyr í Costco og góluðu Rule, Britannia! í falsettu myndu þær ekki opnast. Þetta er fólk sem hefur ekki snefil af sköpunargáfu, frumlegri hugsun, hæfileikum eða persónutöfrum, en er þó samtímis átakanlega hrokafullt, snobbað, yfirlætislegt, fordómafullt og frekt til fjörsins þrátt fyrir fjörleysi sitt. Í veldissprota Bretadrottningar ætti að vera lifrarpylsukeppur í staðinn fyrir stærsta demant veraldar. Af óöryggi þeirra og vanlíðan skín óttinn við að vera afhjúpuð sem jafnokar hins skelfilega almúga. Eða það sem verra væri – slakir eftirbátar.
Drottningin hefur sjálf masterað eitthvert zenískt tilvistarstig neindar, æðsta stig þess sem viðrar engar afgerandi skoðanir og gerir ekkert sem gæti stjakað við þrúgandi hallarkyrrðinni. Hún á í fullkominni symbíósu við hrossin sín og hundana, þar er hún á jafnmiklum heimavelli og stolt bóndakona í Skagafirði, en skortir hins vegar algjöran skilning á kjörum eða hugsunarhætti þegna sinna.
Í fyrstu tveimur þáttaröðunum sjáum við skýrt hvernig þessi afneitun sjálfsins og kúgun sálarinnar fer fram koll af kolli. Þar vegur þungt framlag einkaritara drottningar, siðameistarans „Tommy" Lascelles (sem breski leikarinn Pip Torres gerir yndisleg skil), en hann tuktar og temur ungu drottninguna miskunnarlaust til að aðlaga hana kröfum krúnunnar. Aðferðirnar minna á hund í hlýðniþjálfun. Að lokum stendur eftir kauðslega klæddur róbóti með vingjarnlegan en frosinn svip, forritaður til að veifa hanskaklæddri hönd, opna blómasýningar og fara með almenn spakmæli á tyllidögum.
Hver þáttur er eins og lúmsk og hlakkandi skóflustunga í dýpkandi gröf bresku krúnunnar, því að almenningur sem á horfir hlýtur að spyrja sjálfan sig sífellt oftar: Hvers vegna borgum við fúlgur fjár á hverju ári til að halda uppi gjálífi púkalegrar og ofdekraðrar fjölskyldu sem einkennist af meðalmennsku og mislukkun?
Þar sem dyrabjallan er alltaf biluð
Ef breska þjóðin svarar þeirri spurningu einn dag með afnámi konungsveldisins getur hún loks, svo vitnað sé í Christopher heitinn Hitchens, tekið að hreinsa sig af andlegum ósiðum konungshyggju og þeim margháttaða stuðningi sem sú hyggja veitir vanhugsuðum og úreltum starfsháttum: „Og einkaraunir Windsor-fjölskyldunnar myndu – öfugt við það sem nú tíðkast – ekki hafa hryllilega ásýnd mannfórna sem fjármagnaðar eru úr opinberum sjóðum.“
Staðreyndin er sú að breskir skattborgarar greiða nú meira en nokkru sinni til að halda uppi konungsfjölskyldunni; um 12 millljarða króna fyrir árið 2018–2019, sem var 41% aukning frá fyrra ári. Á móti kemur að sumir reiknimeistarar kalkúlera að konungsfjölskyldan skapi langtum meiri tekjur, sérstaklega með því að draga krúnusjúka ferðamenn til Englands, en það mat hefur ótal huglægar breytur og óvissar. Persónulegar eignir Elísabetar II eru síðan metnar á um 340 milljónir punda, eða yfir 60 milljarða króna.
Fyrir tæpum þrjátíu árum skrifaði breski rithöfundurinn Sue Townsend skáldsöguna The Queen and I, sem segir frá því að breska konungsdæmið er lagt niður og konungsfjölskyldan neydd til að flytja í félagslega íbúð og lifa á atvinnuleysisbótum. Kannski og vonandi mun The Crown flýta fyrir för bresku konungsfjölskyldunnar í fábrotna blokk þar sem dyrabjallan er alltaf biluð. Aðrar konungsfjölskyldur Evrópu eiga að sjálfsögðu að dvelja varanlega í sama stigagangi. Þar geta þær sötrað væmna líkjöra, flett í ævagömlum ættartölum evrópska aðalsins og skeggrætt hætturnar samfara skyldleikaræktun. Pant ekki vera á þeim húsfundi.
Athugasemdir