Nú er þetta að ganga aftur niður. Alveg eins og í byrjun sumars. Smitum utan sóttkvíar fækkar. Axlirnar síga lengra frá eyrunum með hverjum deginum. Nálgumst núllpunktinn. Gætum fengið að halda sæmilega eðlileg jól með fólkinu okkar.
Ísland er eyja. Nýja-Sjáland er líka eyja. Þar búa tæplega fimm milljónir á landsvæði sem er um þrefalt stærra en Ísland að flatarmáli. Árangur Nýsjálendinga í baráttunni við veiruna er líklega sá besti af þjóðum heims. Síðan fyrsta bylgjan skall á þeim og náði toppi í byrjun apríl, með 89 smitum, hefur þeim tekist að halda útbreiðslu í skefjum. Vissulega hafa komið skot, til dæmis 25 smit einn dag nú í október, en þar fyrir utan hafa smitin verið milli 0 og 6 á dag. Suma daga engin smit. Fimm milljónir lifa sínu lífi að mestu eins og fyrir vágestinn. Sækja fjölmenna íþróttaleiki, menningarviðburði, veislur með sínum nánustu. Skólar, vinnustaðir og verslanir fúnkera. Að sjálfsögðu eru allir að passa sig, en það er hægt að vera til.
„Á Íslandi gerðum við tilraun til að eiga bæði eðlilegt líf og lífvænlega ferðaþjónustu. Fyrir vikið misstum við hvort tveggja.“
Nýja-Sjáland hefur undanfarin ár reitt sig mikið á túrisma eins og við. Þar var hins vegar tekin sú ákvörðun að fórna ferðamannaiðnaðinum fyrir eðlilega framgöngu daglegs lífs borgaranna. Á Íslandi gerðum við tilraun til að eiga bæði eðlilegt líf og lífvænlega ferðaþjónustu. Fyrir vikið misstum við hvort tveggja.
Ég veit ekki hvað tekur við handan veirunnar. Handan bóluefna. En ég sé glitta í eðlilegt líf. Núllpunktinn. Það er tími til hógværs, hreinláts fagnaðar. Þakklætis til handa þríeykinu og okkur öllum. Við höfum staðið okkur vel.
Núna er hins vegar ekki tíminn til að tala niður sóttvarnaraðgerðir. Ef við náum að kæfa óvættinn fá flestir það sem þeir vilja, almenningur og markaðurinn. Ef hins vegar pestin blossar upp aftur fær enginn neitt. Bara meiri innivera, einvera, veikindi. Nei takk. Höldum frekar dampi. Höldum kjafti. Og höldum jól.
Athugasemdir