Hér er hlekkur á þrautina frá í gær.
***
Fyrri aukaspurning:
Hver er maðurinn á myndinni hér að ofan?
***
Aðalspurningarnar tíu:
1. Árið 1938 blandaði svissneski efnafræðingurinn Albert Hofmann lyf sem átti fyrst og fremst að vera blóðrásaraukandi. Það kom ekki að gagni en fimm árum seinna innbyrti Hofmann af slysni svolítið af efninu og komst þá að því sér til undrunar að það hafði allt önnur og mjög óvænt áhrif. Þá var farið að framleiða það sem lyf við geðsjúkdómum en það reyndist afar hættulegt, þótt talið sé nýtilegt undir ströngu eftirliti. Hvað heitir þetta efni?
2. Hvað heitir höfuðborgin í Rússlandi?
3. Unnur Birna Vilhjálmsdóttir vann titilinn Miss Universe árið 2005. Hún fékkst síðan við fyrirsætustörf og skylda iðju um hríð, en lauk síðan háskólaprófi í tiltekinni grein, sem hún hefur starfað við síðan. Hvaða grein er það?
4. Í hvaða úthafi eru Maldíva-eyjar?
5. Hversu mörg ríki Bandaríkjanna eru nefnd eftir tilteknum einstaklingum? Hér má skeika einu ríki til eða frá.
6. Hver var um daginn kosin varaformaður Samfylkingarinnar?
7. Hvað hét eiginkona Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns? Fornafn hennar dugar að þessu sinni?
8. Ýmsir Íslendingar hafa heitið Helgi Tómasson. Einn þeirra er brautryðjandi í ákveðinni listgrein hér á landi en hélt svo af landi brott og hefur starfað erlendis síðan. Hver er hans listgrein?
9. Hljómsveitin Baggalútur var að senda frá sér nýja plötu sem geymir lög við kvæði og vísur ákveðins skálds. Hvaða skáld er það?
10. Fimm ára dóttir Vilhjálms hertoga af Cambridge er sú kona sem stendur næst bresku krúnunni, á eftir afa sínum, föður og eldri bróður. Hvað heitir sú stutta prinsessa?
***
Seinni aukaspurning:
Anya Taylor-Joy heitir leikkonan á myndinni hér að neðan. Hún leikur í vinsælli sjónvarpsseríu sem nýbúið er að frumsýna. Hvað heitir serían?

***
Svör við aðalspurningum:
1. LSD.
2. Moskva.
3. Lögfræði.
4. Indlandshafi.
5. Ríkin eru 11, svo rétt telst vera allt frá 10-12. Ríkin eru Virginía og Vestur-Virginía eftir Elísabetu drottningu („the virgin queen“), Norður og Suður Karólína (eftir Karl I. Bretakóngi), Pennsylvania (eftir William Penn), Delaware (eftir De la Warr baróni), Maryland (eftir Henríettu Maríu, drottningu Karls I.), Georgia (eftir Georg II. konungi), Louisiana (eftir Loðvíkk XIV. Frakkakóngi), New York (eftir hertoganum af Jórvík, síðar Jakobi II. konungi) og Washington (eftir George Washington forseta).
6. Heiða Björg Hilmisdóttir.
7. Hallveig. Hún var Fróðadóttir.
8. Ballett.
9. K.N., eða Káinn.
10. Karlotta. Fullu nafni heitir hún Charlotte Elizabeth Diana Windsor.
Svör við aukaspurningum:
Á efri myndinni er Anthony Fauci sóttvarnarsérfræðingur í Bandaríkjunum.
Sjónvarpsserían með Önyu Taylor-Joy heitir á ensku Queen's Gambit, á íslensku Drottningarbragð.
***
Og – aftur – hlekkurinn frá í gær.
Athugasemdir