Þrátt fyrir að grímuskylda hafi verið innleidd í verslunum frá og með síðastliðnum laugardegi er enn fólk sem þráast við að hlýða þeim reglum. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn var þungorður þegar hann lýsti á upplýsingafundi almannavarna í gær furðu sinni og reiði yfir þeirri staðreynd að starfsfólk verslana hefði þurft að sitja undir ókurteisi, dónaskap, hótunum og allt að því ofbeldi af hálfu viðskiptavina sem andæfðu grímuskyldunni.
Síðar sama dag birti Trausti Eysteinsson, markþjálfi og múrari, upptöku af verslunarferð sinni í Bónus í Hafnarfirði. Trausti hafði eitt og annað að athuga við það að grímuskylda væri í versluninni. Neitaði hann að setja upp grímu en brá þó klút eða buffi fyrir vit sér. Þegar starfsmaður Bónus tilkynnti Trausta að það væri skylt að bera grímu sem uppfylli þau skilyrði sem í gildi eru um sóttvarnir brást Trausti illa við og reifst við starfsmanninn en ákvað þó að lokum að hafa sig á brott. „Verið þið sælar og þið ættuð að skammast ykkar öll sem takið þátt í þessu leikriti,“ sagði Trausti að skilnaði og fékk þá kveðjuna „sömuleiðis“ frá öðrum gesti búðarinnar.
Grímur veita vörn
Trausti lýsti því enn fremur ítrekað yfir í umræddu myndbandi sínu að verið væri að plata fólk með grímuskyldunni og um leikrit væri að ræða. Taldi hann augsjáanlega að um einhvers konar samsæri væri að ræða, fullyrti ranglega að grímuskylda gerði fólk veikara og ýjaði að því að annað væri þar að baki. „Það er verið að taka athyglina frá öðru sem er að gerast með þessu Kínaflensubulli.“
Þeir sem notað hafa orðfæri eins og Kínaflensa eða Kína vírus hafa verið gagnrýndir harðlega enda það talið sýna kynþáttahyggju. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur þannig verið gagnrýndur fyrir slíkt orðfæri og Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, fékk einnig hörð viðbrögð við því þegar hann skrifaði á Twitter: „Við erum sameinuð í að sigra Ósýnilega Kína Vírusinn!“
Á Vísindvefnum hefur Ólafur S. Andrésson, prófessor í erfðafræði við Háskóla Íslands, greint frá því að að grímur komi að gagni til að verjast því að úðadropar berist á milli manna en Covidd-19 veiran er ekki síst talin berast á milli manna með þeim hætti, eða óbeint um fleti sem fólk snertir. Grímur geti því dregið töluvert úr hættu á að smitaðir einstakingar smiti aðra. Þá geta þær einnig veitt vörn fyrir þá sem ósmitaðir eru, gegn hósta eða hnerrasmiti frá þeim sem smitaður er.
Í greiningu spænska dagblaðsins El País, sem Stundin fékk heimild til að endurbirta, er sýnt hversu mikil hætta getur verið á því að smit berist milli fólks í lokuðu rými. Þar er einkum fjallað um skólastofur, veitingahús og heimahús en engu að síður gefur umfjöllunin glögga mynd af því hversu óhemju mikið gagn grímunotkun getur gert til að draga úr hættu á smiti.
Grímunotkun er skylda en ekki val
Í minnisblaði sóttvarnarlæknis, sem er grunnurinn að reglugerð heilbrigðisráðherra um hertar sóttvarnir sem tóku gildi frá og með 31. október kemur fram að aðgerðirnar sem ráðast á í eigi að snúa að því að minnka sem mest samneyti fólks, virða tveggja metra regluna sem mest, og auka notkun á grímum. Þar sem ekki sé hægt að virða tveggja metra nálægðarmörk verði sett á grímuskylda. Skylt sé að bera andlitsgrímur í verslunum og við aðra þjónustu. Í reglugerð heilbrigðisráðherra er þetta staðfest og grímuskylda án allra undantekninga.
Samkvæmt sektarfyrirmælum ríkissaksóknara, frá 14. ágúst síðastliðnum, ákvarðast sekt einstaklings sem ekki notar andlitsgrímu eftir alvarleika brotsins. Getur hún hlaupið á bilinu tíu þúsund krónur og allt upp í eitthundrað þúsund krónur.
Hegðun sem þessi undantekning
Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, segir að hegðun sem sú sem Trausti sýndi af sér sé sem betur fer fátíð. „Heilt yfir er fólk mjög skilningsríkt og þetta hefur almennt gengið mjög vel, miðað við þann mikla fjölda viðskiptavina sem við fáum til okkar. Þetta eru þessi fáu einsdæmi sem að fá mikinn fókus. Starfsmaður okkar brást hárrétt við og gerði allt rétt og sem betur fer er svona hegðun undantekning. Því miður koma svona tilfelli upp þó.“
„Við ætlum ekki að standa í einhverju þrasi við fólk, ef almenn rök duga ekki þá verður að kalla til lögreglu“
Guðmundur segir að það sé þó auðvitað óþolandi fyrir starfsfólk fyrirtækisins að þurfa að standa í svona stappi. „Algjörlega. Við höfum gefið það út til okkar starfsfólks og öryggisverði að ef að koma upp mál sem virðast vera að fara í einhvern farveg sem við ekki sættum okkur við þá á bara að hringja á lögregluna, sem fylgir þessum reglum eftir. Við ætlum ekki að standa í einhverju þrasi við fólk, ef almenn rök duga ekki þá verður að kalla til lögreglu.“
„Þessi regla er ekki sett að ástæðulausu“
Stundin falaðist eftir viðtali við Víði Reynisson vegna málsins en sökum mikilla anna gafst ekki kostur á því. Jóhann K. Jóhannsson upplýsingafulltrúi Almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra svaraði í hans stað og sagði að þar á bæ hefðu borist all nokkur skilaboð um samsvarandi framferði og Trausti sýndi af sér. „Þetta myndband er í anda þess sem Víðir nefndi á fundinum í gær. Við erum að reyna að beina því til fólks að sýna hvert öðru umhyggju í þessari stöðu sem við erum í. Engu að síður, ef fólk hefur grun um brot á reglum eða lögum um sóttvarnir á að tilkynna það til lögreglu.
Jóhann segir að leiðbeina þurfi fólki enn frekar um það hvers konar grímur sé ætlast til að það beri. „Maðurinn í þessu myndbandi ber buff um hálsinn og dregur það upp, það er ekki viðurkenndur hlífðarbúnaður við þessar aðstæður. Gríma kemur í veg fyrir dropasmit sem er ein af þeim leiðum sem veiran hefur til að berast milli manna. Grímuskylda er þar sem tveggja metra reglu verður ekki komið við. Þessi regla er ekki sett að ástæðulausu. Það var ekki grímuskylda í fyrstu bylgjunni en á þeim mánuðum sem liðnir eru höfum við lært meira á veiruna og hvernig hún vinnur, það er ástæðan fyrir því að þessar reglur hafa verið settar núna. Þetta hefur áhrif.
„Það er áhyggjuefni að fólk skuli koma svona fram við annað fólk“
Svo virðist sem maðurinn í umræddu myndbandi, Trausti, hafi ákveðið fyrirfram að vera með uppsteyt vegna grímuskyldunnar. Spurður hvort það sé áhyggjuefni að fólk sé beinlínis að snapa deilur og æsing við verslunarfólk vegna þessa segir Jóhann að svo sé vissulega. „Það er áhyggjuefni að fólk skuli koma svona fram við annað fólk. Þetta gæti verið hluti af þeirri farsóttarþreytu sem við höfum verið að tala um. Þessi faraldur er orðinn langvinnur, hann er erfiður og þessar ströngu takmarkanir sem eru í gildi hafa áhrif á fólk. En náum ekki árangri nema að gera þetta saman og fólk þarf að koma fram við hvert annað af virðingu. Starfsfólk verslana er sett í þá stöðu að fylgjast með því að farið sé að sóttvarnarreglum og það er ekki við það að sakast, það eru stjórnvöld sem setja reglurnar.“
Fyrir skemmstu var blásið til fámennra mótmæla á Austurvelli þar sem hópur, sem nefnir sig Covidviðspyrnan kom saman til að mótmæla sóttvarnaraðgerðum gegn Covid-19 faraldrinum. Meðal þess sem mótmælt var þar var grímuskylda, auk annars.
Alls hafa 17 látist af völdum Covid-19 faraldursins á Íslandi, þar af lést einn í gær. 27 innanlandssmit greindust í gær og eru nú 872 í einangrun, smitaðir af sjúkdómnum. 74 liggja á sjúkrahúsi og þar af fjórir á gjörgæslu.
Athugasemdir