Gríðarstór jarðskjálfti reið yfir landið klukkan 13:43 í dag. Fannst skjálftinn vítt og breitt um landið, en tilkynnt hefur verið um að fólk hafi fundið fyrir skjálftanum á höfuðborgarsvæðinu, í Vestmannaeyjum, á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi. Samkvæmt Almannavörnum var skjálftinn 5,6 að stærð og átti upptök sín í Núpahlíðarhálsi, um 7 kílómetra vestur af Kleifarvatni.
Ljóst er að skjálftinn tengist ekki eldvirkni heldur er tilkominn vegna flekahreyfinga. Yfir 50 eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfar stóra skjálftans. Skjálftinn er sá stærsti á Reykjanesi frá árinu 2013, en þá varð skjálfti að stærðinni 5,2 í októbermánuði og átti hann upptök sín skammt utan Reykjaness. Þá er þetta stærsti skjálfti sem orðið hefur á Suðurlandi frá árinu 2008 en þá varð skjálfti upp á 5,3 sem átti upptök sín skammt frá Hveragerði.
Alþingi: Sitjið rólegir
Ekki hafa fengist upplýsingar um tjón af völdum skjálftans en ljóst er að fólk er mjög skekið. Þannig brá þingmanni Pírata, Helga Hrafni Gunnarssyni, augljóslega talsvert þegar skjálftinn reið yfir meðan hann stóð í ræðustól Alþingis. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, var hins vegar hinn rólegasti. „Sitjiði rólegir, sitjiði rólegir,“ sagði Steingrímur á meðan að Helgi Hrafn tók til fótanna.
Helgi Hrafn sér spaugilegu hliðina
Samkvæmt leiðbeiningum Almannavarna við jarðskjálftum brást Helgi Hrafn ekki rétt við í þessu tilviki. Almannavarnir leggja áherslu á að halda eigi kyrru fyrir, sé fólk innandyra, fara undir borð eða rúm og verja höfuð og háls. Halda ætti sig frá gluggum.
Helgi Hrafn virðist þó hafa jafnað sig fljótt á skjálftanum en á Twitter situr hann undir skensi fyrir viðbrögð sín. Hann svarar þó vel fyrir sig og segir kersknislega að hann biðjist afsökunar á að hafa ekki komið Steingrími J. til bjargar.
Forsætisráðherra í beinni útsendingu
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var í beinu viðtali við Washington Post á þegar skjálftinn reið yfir. Var forsætisráðherra greinilega mjög brugðið þegar allt lék skyndilegaá reiðiskjálfi. „Oh my good, there‘s an earthquake,“ sagði Katrín við blaðamann blaðsins og bætti svo við: „Well, this is Iceland, sorry about that.“
Búast við eftirskjálftum
Athugasemd jarðvísindamanns á Veðurstofu Íslands: Klukkan 13:43 varð stór skjálfti á Reykjanesi Fyrsta stærðarmat er að skjálftinn hafi verið af stærð M5.5 um 7 km vestur af Kleifarvatni. Fjölmargir eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið.
Almannavarnir hafa gefið út eftirfarandi tilkynningu vegna skjálftans:Vegna jarðskjálfta sem fannst á suðvesturhorni landsins. Fyrstu upplýsingar frá Veðurstofu Íslands segja að hann hafi verið af stærðinni 5,5 og á upptök sín 6 km. vestan við Kleifarvatn. Búast má við eftirskjálftum.
Almannavarnir hvetja fólk til þess að kynna sér viðbrögð eftir jarðskjálfta. Þau má sjá hér.
Bráðabrigðamælingin hefur nú verið uppfærð og nú er talið að skjálftinn hafi verið um 5,7 að stærð samkvæmt vefsíðu Veðurstofunnar.
Leið eins og það væri að líða yfir hana
Á Flateyri fundu Ingibjörg Guðmundsdóttir, skólastjóri Lýðskólans og Helena Jónsdóttir, verkefnastjóri Flateyrar fyrir skjálftanum. „Þetta var mjög fyndið,“ segir Helena og heldur áfram. „Ég er með lítinn tölvuskjá fyrir framan mig hérna á skrifstofunni. Ég hallaði mér fram á borðið og setti hendurnar undir höku og allt í einu fannst mér eins og það væri að líða yfir mig. Svo aftur þremur eða fjórum sekúndum síðar fannst mér aftur vera að líða yfir mig en hélt áfram að vinna. Svo heyrði ég þá hérna frammi vera að tala um að það hefði orðið jarðskjálfti.“ Ingibjörg segir hinsvegar að hún hafi ekki fundið mikið fyrir skjálftanum. „Þetta var nú bara eins og bíll að keyra fram hjá,“ segir hún.
Borgarfulltrúar hlupu út „í panikki“
Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík, hljóp út af borgarstjórnarfundi ásamt fjórum öðrum borgarfulltrúum. „Stór hluti af salnum er gluggi en allt glerið titraði og skalf. Svo hangir járntjald úr loftinu svo við vildum forða okkur út úr salnum,“ segir hún í samtali við Stundina. Aldrei áður hefur Kristín orðið hrædd við jarðskjálfa en nú hafi hún orðið hrædd. Á Twitter ritar hún að borgarfulltrúarnir hafi verið skelkaðir og að þeir hafi hlaupið um í „panikki.
Kötturinn með áfallastreituröskun
Elísabet Brynjarsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Frú Ragnheiði, hljóp undir borð þegar hún fann fyrir skjálftanum. Hún var að vinna að heiman við að svara tölvupóstum þegar hún fann fyrst fyrir litlum skjálfta. „Ég er alin upp hérna í Reykjavík svo maður er ekki að kippa sér upp við litla skjálfta,“ segir hún.
Þegar Elísabet fann stærri skjálftann varð hún hrædd og ákvað að koma sér undir borð. „Það sem verra er að kötturinn minn sem ég fékk ættleiddann frá Villiköttum er með áfallastreituröskun og hún varð mjög hrædd.“
Kisi liggur nú í sófanum umvafinn teppum og Elísabet er orðin öllu rólegri. Það fyrsta sem Elísabet gerði þegar skjálftanum lauk var að hringja í sína nánustu og athuga með þeirra líðan. „Ætli það sé ekki hjúkrunarfræðinga hjartað, að athuga fyrst með alla aðra og taka svo stöðuna á sjálfri sér?“
Varaði við stórum skjálftum
Fyrir tæpum mánuði síðan varaði Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, við því í samtali við Spegilinn á RÚV að íbúar á höfðuborgarsvæðinu og Reykjanesskaga þyrftu að búa sig undir stóran skjálfta af stærðinni 6 til 6,5. Grannt væri fylgst með fimm eldstöðvum, Bárðabungu, Grímsvötnum, Heklu, Kötlu og Reykjanesskaga. Á Reykjanesskaga hefði síðasta ár einkennst af samspili kvikuhreyfinga og jarðskjálftavirkni. Háspenna væri á flekaskilum.
Jarðskjálftinn í dag var ekki svo stór, en hann var engu að síður svo öflugur að margir lýstu áhrifum hans á samfélagsmiðlum, jafnvel ótta. Eftirfarandi myndir voru teknar í Krónunni úti á Granda í kjölfar skjálftans.
Mikil umræða á samfélagsmiðlum
Fjölmargir hafa tjáð sig um skjálftann á samfélagsmiðlum. Þannig rifjar Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, upp á Facebook sögu af því þegar að samflokksmaður hans, Guðmundur Árni Stefánsson, fyrrverandi félagsmálaráðherra, stóð í ræðustóli Alþingis þegar harður skjálfti reið yfir. Mun Guðmundur Árni hafa sagt að lokinni ræðu: „Helvítis hörkuræða var þetta hjá mér! - Húsið bókstaflega skalf!“
Sumir eru þó rólegri en aðrir og gera bara grín að skjálftanum, eins og Kristján Freyr Halldórsson, sem vísar í þekkt minni af fyrri tíð og jafnframt í nútímapólitík.
Þá er augljóst að það skiptir máli í hvaða aðstæðum fólk er þegar það upplifir skjálfta sem þennan, eins og Karítas M. Bjarkadóttir lýsir.
Heiðrún Helga Bjarnadóttir sat við píanóið þegar skjálftinn reið yfir.
Athugasemdir