Rúmlega þriðjungur þingheims stendur að þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar sem lögð hefur verið fram á Alþingi.
Tillagan hljóðar svo: „Alþingi ályktar að efnt skuli til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort flugvöllur og miðstöð innanlands- og sjúkraflugs skuli vera áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík. Eftirfarandi spurning verði borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni: „Vilt þú að flugvöllur og miðstöð innanlands-, kennslu- og sjúkraflugs verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík uns annar jafngóður eða betri kostur er tilbúinn til notkunar? ▢ Já. ▢ Nei.““
Í íbúakosningu í Reykjavík árið 2001 studdi meirihluti kjósenda að flugvöllurinn verði fluttur annað úr Vatnsmýrinni. Aðalskipulag Reykjavíkurborgar gerir nú ráð fyrir að flugvöllurinn víki í áföngum fyrir blandaðri byggð. Einni flugbraut hefur einnig verið lokað.
Sambærilegar tillögur hafa verið fluttar á Alþingi fimm sinnum áður, að því segir í tillögunni. „Flutningsmenn telja ljóst að mikil þörf sé á að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta brýna samgöngu- og öryggismál þjóðarinnar,“ segir í tillögunni.
Flutningsmenn tillögunnar eru 24 þingmenn úr Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki, Miðflokki, Flokki fólksins og Vinstri grænum. Fjórir þeirra eru úr Reykjavíkurkjördæmunum. Flutningsmennirnir eru Njáll Trausti Friðbertsson, Ásmundur Friðriksson, Brynjar Níelsson, Haraldur Benediktsson, Jón Gunnarsson, Páll Magnússon, Óli Björn Kárason, Vilhjálmur Árnason, Halla Signý Kristjánsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Willum Þór Þórsson, Þórunn Egilsdóttir, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland og Lilja Rafney Magnúsdóttir.
Athugasemdir