Norska fjárfestingarfélagið Pactum AS seldi hlutabréf í íslenska laxeldisfyrirtækinu Arnarlaxi á Bíldudal fyrir tæplega 1.800 milljónir króna. Félagið seldi hlutabréfin á genginu 115 norskar krónur en keypti bréf í félaginu á genginu 10 árið 2016.
Þetta var sama ár og Arnarlax keypti rekstur laxeldisfyrirtækisins Fjarðalax og margfaldaði umsvif sín í laxeldi á Vestfjörðum. Arnarlax hefur nú yfir að ráða 25.200 tonn laxeldiskvóta á Vestfjörðum og hefur sótt um 15 þúsund tonna framleiðslukvóta til viðbótar.
Fjárfesting félagsins í Arnarlaxi hefur því tífaldast á einungis fjórum árum þrátt fyrir að Arnarlax sé ennþá í uppbyggingarfasa sem fyrirtæki, hafi nær alltaf skilað tapi og aldrei greitt út arð til hluthafa sinna.
Ástæðan fyrir þessari miklu hækkun á verðmati markaðarins á hlutabréfum í Arnarlaxi eru þau framleiðsluleyfi í laxeldi upp á rúmlega 25 þúsund tonn sem Arnarlax hefur tryggt sér á Íslandi á liðnum árum. Einnig möguleiki félagsins á enn frekari stækkun um 15.000 tonn á næstunni auk þeirrar uppbyggingar sem hluthafar félagsins, meðal annars Pactum, hafa staðið að með fjárfestingu í félaginu.
Þessar upplýsingar um verð hlutabréfanna í Arnarlaxi koma fram í ársreikningum norska móðurfélags Arnarlax árið 2016, árið sem Pactum AS kom inn í hluthafahóp Arnarlax, sem og í tilkynningu til norsku kauphallarinnar í morgun frá stærsta hluthafa félagsins, Salmar As. Móðurfélag Arnarlax heitir Icelandic Salmon AS en hét áður Arnarlax AS.
Áttu hlut upp á 3,3 milljarða
Pactum AS hefur síðastliðin ár verið næst stærsti hluthafi Arnarlax með 6,8 prósenta hlut, einungis Salmar AS er stærri með 59,4 prósent. Pactum AS selur nú hins vegar milljón hluti í félaginu og heldur eftir tæplega 826 þúsund hlutum, minna en helmingi af því sem félagið átti fyrir.
Fyrir söluna nú átti Pactum AS hlutabréf í Arnarlaxi fyrirt tæplega 210 milljónir norskra króna eða tæplega 3,3 milljarða króna miðað við að gengið á bréfunum sé 115 norskar krónur.
Keyptu rúm 9 prósent
Í ársreikningi Arnarlax AS, sem í dag heitir Icelandic Salmon AS, árið 2016 kemur fram að Pactum AS hafi átt 9,2 prósenta hlut í félaginu það ár. Salmar átti þá 68,5 prósent hlut í félaginu. Þessi hlutur Pactum AS var metinn á rúmlega 15 milljónir norskra króna, tæplega 202 milljónir króna á gengi þessu tíma.
Síðan þá hafa vitanlega átt sér stað hlutafjáraukningar í Arnarlaxi, meðal annars 2,6 milljarða hlutafjárinnspýtingu árið 2018, sem hafa ýtt undir verðmæti hlutabréfanna og verðhækkun þeirra. Þessi mikla hækkun á hlutabréfaverðinu skýrist hins vegar fyrst og fremst af væntingum til Arnarlax og framtíðar þess, sem meðal annars má sjá á því að hlutabréfaverðið í fyrirtækinu hefur ríflega tvöfaldast á einu og hálfu ári.
Ástæðan fyrir þessu er að veruleg eftirspurn er eftir hlutabréfum í laxeldisfyrirtækjum sem ekki eru of dýr. Þetta er vegna þess að hlutabréfaverð laxeldisfyrirtækja í Noregi eru hátt verðlögð vegna þess að þar í landi átta menn sig á þeim verðmætum sem felast í þessum fyrirtækjum þar sem laxeldisleyfin ganga kaupum og sölum á háu verði og þau eru orðin að takmarkaðri auðlind.
Norska ríkið skildi ekki að eldisleyfin væru markaðsvara
Þetta vita Norðmenn í dag en það tók þá tíma að átta sig á þeim gríðarlegu verðmætum sem felast í eldisleyfunum.
Þessi saga er rakin í bók norsku blaðakonunnar Kjersti Sandvik, Undir yfirborðinu, sem út kom í íslenskri þýðingu fyrr á árinu.
„Stjórnvöld höfðu um margra ára skeið haldið því fram laxeldisleyfin hefðu ekkert markaðsvirði í sjálfum sér“
Um þetta segir meðal annars í bókinni, þegar því er lýst að yfirvöld skildu þetta ekki til að byrja með þegar laxeldi í sjókvíum hófst af fullum krafti í Noregi á áttunda áratugnum: „Stjórnsýslan, sem átti að hafa eftirlit með fiskeldinu, var sammála þeim sem réðu för í ríkisstjórn. Norska Fiskistofan hélt því blákalt fram að viðskipti með eldisleyfi væri fyrirbæri sem þekktist ekki. Og á meðan stjórnvöld sátu þarna í afneitun með leppa fyrir augum þróaðist raunverulegur markaður fyrir fiskeldisleyfin. Um leið var grafið undan möguleikunum á að stýra atvinnuveginum með úthlutun eldisleyfa. Seinna meir, þegar stjórnvöld urðu hvort eð er að viðurkenna að menn væru farnir að braska með eldisleyfin fyrir geysiháar fjárhæðir, fóru þau að innheimta gjald fyrir útgefin leyfi sem rynni til ríkisins. Þegar ljóst varð að eldisleyfin voru gulls ígildi varð mjög brýnt að lögfesta skýrar reglur um það hverjir skyldu fá þann einstaka og eftirsótta rétt sem fólst í því að fá leyfi til að framleiða lax í norskum fjörðum. Það átti eftir að koma á daginn að mjög erfitt varð fyrir norsk stjórnvöld að höndla þessi mál með viðunandi hætti.“
Norðmenn áttuðu sig á því á endanum að laxeldisleyfin sem ríkið hafði að stóru leyti gefið lengi vel voru helstu eignir laxeldisfyrirtækjanna. Í kjölfarið, eftir því sem færri og færri ný leyfi voru gefin út, hóf norska ríkið að selja þessi takmörkuðu gæði til hæstbjóðenda á uppboðum og er þetta hátturinn sem hafður er á í dag þegar ríkuð gefur út ný leyfi.
Ísland er hins vegar að feta í sömu fótspor og Norðmenn á sínum tíma þar sem ríkið gefur fyrirtækjum laxeldisleyfin og hluthafar þeirra geta svo selt þessi réttindi fyrir háar fjárhæðir og innleyst mikinn hagnað eins og Pactum AS gerir nú til dæmis þegar Arnarlax sækir sér nýa hluthafa og nýtt hlutafé.
Athugasemdir