Skammt er síðan hin magnaða fyrirmynd og skarpgreinda hugsjónakona Ruth Bader Ginsburg (RBG) lést. Það var mikill missir, á svo marga vegu. Mest misstu auðvitað konur, minnihlutahópar og félagslega illa statt fólk í Bandaríkjunum. En áhrif RBG náðu langt út fyrir landsteina USA og því er missirinn okkar allra.
Síðan þessi eldheiti femínisti féll frá hefur mér verið hugleikið hvað við getum lært af henni, hvernig við getum sem best heiðrað hana og það sem hún stóð fyrir, í verkum okkar. Og ekki síst, hvernig við getum nýtt hennar nálgun í femínískri baráttu fyrir kvenfelsi og öðrum mannréttindum.
Kvennasamstaða
RBG var fædd árið 1933, á tímum þar sem kvenfrelsi var á talsvert öðrum stað en það er nú. Það var mikið þrekvirki að hún skyldi ná svona langt. Móðir hennar, Celia Bader, hafði ekki fengið að menntast og var mikið í mun að dóttir hennar hlyti ekki sömu örlög og lagði því mikið á sig til að Ruth fengi góða menntun. Strax þar er einn vegvísir. Án stuðnings munu fáar okkar ná miklum árangri. Styðjum konur hvar sem við getum, ungar og gamlar. Í stóru og smáu.
Seigla
Þegar RBG var við laganám í Harvard var hún ein af níu konum í 500 manna námshópi. Leiðin fyrir konur í slíkt nám var ekki auðveld. Viðhorfið var þannig að yfirmaður lögfræðideildarinnar kallaði þær allar til sín og spurði þær hvað þær væru að gera í þessu námi, takandi pláss frá karli. Annar lærdómur. Þótt kona brjóti einn múrinn er sjaldan skortur á fólki sem vill ýta henni til baka. Það krefst seiglu að láta ekki undan því. Höfum augun á markmiði okkar, konur, og víkjum ekki af leið.
Lymska í kynjakerfinu
RBG flutti sig frá Harvard til Columbia, af fjölskylduástæðum, og útskrifaðist þaðan með hæstu einkunn í sínum árgangi. Þrátt fyrir það gekk henni afar illa að fá starf, enda ekki bara kona heldur jafnframt gyðingur og móðir. Þegar hún loksins fékk stöðu var henni hreinskilnislega tilkynnt að hún fengi lægri laun en karlarnir. Mér varð hugsað til þessa um daginn, þegar ég las grein um að núna væru stjórnendur hættir að leggja eins mikla áherslu á menntun fólks í ráðningum. Það helst einhven veginn lóðrétt í hendur við að núna eru konur orðnar fjölmennari í flestum deildum háskóla og mennta sig í auknum mæli betur en karlarnir. Þá allt í einu er menntun ekki stóra málið. Við skulum aldrei vanmeta tilhneigingu kynjakerfisins til að viðhalda ríkjandi valdastrúktúr.
Horfum fram á veginn
Allan sinn lögmannsferil vann RBG af eldmóði að réttindum kvenna og mannréttindum í víðum skilningi. Hún vann enda stóra sigra á því sviði og ruddi ómetanlegar brautir. Fyrir hennar tilstilli fengu konur til að mynda að taka lán og eiga kreditkort. Hún var afar snjöll við að velja sér mál sem færi var á að vinna, en sem höfðu víðtæk áhrif í átt til aukinna mannréttinda. Hún hafði augun lengra fram á veginn en margur. Það ættum við líka að hafa í huga, hugsum um heildina og hvernig við getum breytt kerfinu þannig að það stuðli að jafnrétti fyrir okkur öll en festa okkur ekki í einstaka málum þótt þau séu mikilvæg.
Töpuð lota er ekki tapað stríð
RBG sótti sex mál fyrir Hæstarétti Bandaríkjanna, og vann fimm þeirra. Stórmerkilegur árangur, því fæstir lögmenn ná nokkurn tímann að flytja mál þar. Hún þótti afar skelegg sem málflytjandi og snögg til svars. Þegar hún var spurð í réttinum af hverju karlar ættu að vera að gera konum einhverja greiða, svaraði hún um hæl að konur væru ekki að biðja um neina greiða, aðeins að karlar tækju fótinn af hálsinum á þeim.
RBG var önnur konan til að verða útnefnd í Hæstarétt Bandaríkjanna. Þar veitti hún brautargengi mörgum af mikilvægustu réttindamálum kvenna og minnihlutahópa. Til að mynda réttindum samkynhneigðra til hjónabands. Hún var líka fyrsti dómarinn til að gefa samkynhneigt par saman. En RBG er jafnvel enn þekktari fyrir meistaralega beitt minnihlutaálit sín. Hún tók upp þá reglu að lesa þau upp við dómskvaðningu. Með það í huga að þó hún hefði tapað þessari lotu, myndu orð hennar hafa áhrif á framtíðina og styrkja þau viðhorf sem hún vildi sjá verða ofan á. Þar líka hafði RBG visku til að sjá að tap í einni orrustu er ekki tapað stríð. Að breyta samtíðinni er þolinmæðisvinna. Við þurfum að nota rödd okkar þar sem færi gefst og hika ekki við að tala fyrir því sem við trúum á, jafnvel þótt meirihlutinn sé ekki okkur sammála. RBG fór ekki fram með hávaða og látum, en rödd hennar hafði alltaf vigt þrátt fyrir það því hún hafði sannfæringu fyrir því sem hún var að segja. Við getum haft áhrif þótt við stöndum ekki fremst með þokulúðurinn.
Femínísk samstaða á öllum vígstöðvum
RBG hvatti sjálf til þess að við berðumst ávallt fyrir því sem okkur væri mikilvægt, en gerðum það þannig að aðrir vildu taka þátt í baráttunni. Föðmum eldmóðinn og fylkjum fólki saman.
RBG var manneskja af þeirri gerðinni sem fæðist ekki á hverjum degi. Fáar eru hennar jafnokar en þó hún hafi verið einstök var hún sannarlega ekki ein á báti. Hún var studd af fjölmörgum baráttukonum sem fylktu sér að baki henni. Jafnréttisbarátta er ekki háð í einni vídd. Við þurfum að vera alls konar, frumkvöðlar, aktívistar, valkyrjur, hugmyndafræðingar, skapandi konur, hugsjónakonur og einhverjar okkar þurfa að ráðast á kerfið að innan, breyta normum og brjóta múra, eins og RBG gerði. Samstaða femínískra kvenna er okkar mikilvægasta afl. Engin ein lyftir grettistaki, en saman gerum við kraftaverk. Stöndum saman, styðjum hver aðra.
RBG vildi að konur væru viðstaddar og með í ráðum þar sem ákvarðanir eru teknar. Látum ekki víkja okkur til hliðar eða þagga niður rödd okkar. Leyfum aldrei jafnréttisbaráttunni að lenda í aftursætinu.
Takk fyrir ómetanlegt framlag, Ruth Bader Ginsburg.
Athugasemdir