Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór ekki að lögum þegar Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri afhenti Jóni Baldvini Hannibalssyni, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, vottorð um afskipti lögreglunnar af dóttur hans, Aldísi Schram. Þetta er niðurstaða Persónuverndar sem var kveðin upp í úrskurði 27. ágúst.
Í vottorðinu sagði að lögreglan hefði nokkrum sinnum á undanförnum árum haft afskipti af Aldísi eða sinnt verkefnum vegna hennar. Foreldrar hennar, Jón Baldvin og Bryndís Schram, hafi hins vegar aldrei kallað til lögreglu vegna hennar. Jón Baldvin birti úrdrátt úr vottorðinu opinberlega, bæði í Silfrinu á RÚV og í Morgunblaðinu.
Í úrskurði Persónuverndar kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi verið ábyrgðaraðili vinnslu þessara persónuupplýsinga. Mat Persónuverndar er að vinnslan hafi farið fram án lagaheimildar. Einstaklingar megi treysta því að upplýsingu sem lögreglan skráir um verkefni sem hún sinnir vegna þeirra verði ekki miðlað til óviðkomandi aðila.
„Í bréfinu kemur einnig fram að ætla verði að viðtakendur skjalsins hafi verið foreldrar kvartanda“
Þá koma fram sjónarmið lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í úrskurðinum. „Í svarbréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur meðal annars fram að umrætt bréf og þau gögn sem útgáfa þess byggði á hafi ekki verið varðveitt í skjalavörslukerfi embættisins og að embættið hafi ekki upplýsingar um forsendur afgreiðslunnar. Því gæti embættið ekki tekið afstöðu til beiðni Persónuverndar um upplýsingar um umrædda vinnslu. Í bréfinu kemur einnig fram að ætla verði að viðtakendur skjalsins hafi verið foreldrar kvartanda.“
Var ítrekað nauðungarvistuð á geðdeild
Aldísi hefur sex sinnum verið nauðungarvistuð á geðdeild Landspítalans. Hefur hún borið föður sinn þeim sökum að hafa farið fram á vistunina í kjölfar ásakana um kynferðislega áreitni og ofbeldi. Hann hefur hafnað því. Fjórar beiðnir um nauðungarvistun bárust frá honum á meðan hann var erlendis að störfum sem sendiherra.
Sjö konur stigu fram undir nafni í Stundinni í fyrra og sökuðu Jón Baldvin um kynferðislega áreitni. Alls hafa 23 konur birt sögur sínar á vefsíðu og bárust frásagnir í sérstökum MeToo hópi kvennanna á Facebook. Jón Baldvin hefur ítrekað sagt að sögurnar eigi allar rætur að rekja til veikinda Aldísar dóttur sinnar, lýst því yfir að hún glími við geðhvarfasýki og sagt að ásakanir kvennanna allra séu „órar úr sjúku hugarfari“ Aldísar. Þessu hefur hann haldið fram í blaðagreinum og viðtölum allt síðan árið 2012 þegar Guðrún Harðardóttir lýsti klúrum bréfaskrifum hans til sín þegar hún var á táningsaldri.
Athugasemdir