Karlar bæla tilfinningar sínar, fela þær fyrir öðrum og upplifa skömm vegna þeirra. Þá leita karlar sér síður hjálpar og telja sumir berksjaldaðar tilfinningar karla vera merki um veikleika eða aumingjaskap. Hafsteinn Vilhelmsson tókst á við erfiðar tilfinningar með því að leika „hressa gaurinn“ en grét í einrúmi í bíltúrum og Daníel Valtýsson barðist 16 ára gamall við að gráta ekki í jarðarför móður sinnar því allir vinir hans voru þar. Skömmin er skammt undan berskjölduðum tilfinningum karla sem meðal annars frásagnir undir myllumerkinu #karlmennskan vörpuðu ljósi á. Sálfræðingarnir Hulda Jónsdóttir Tölgyes og Guðbrandur Árni Ísberg telja það hvorki gagnlegt né gerlegt að flýja eða bæla eigin tilfinningar heldur þurfi hugrekki til að lifa með þeim. Og líka skömminni.
Skömm
„Skömmin hefur mörg heiti, meðal annars menningartilfinningin, af því að það er meðal annars vegna skammar sem að við högum okkur á ákveðinn máta í kringum aðra því við viljum ekki minnnka í áliti“, segir Guðbrandur Árni Ísberg sem hefur sökkt sér í rannsóknir á skömm og skrifaði meðal annars bókina Skömmin, úr vanmætti í sjálfsöryggi. „Rannsóknir sína það, síðastliðna áratugi, að ef það er einhver ein tilfinning sem á að tengja við ofbeldi, þá er það skömm. En hún kemur fram semsagt, af því að hún gerir okkur lítil, við verðum lítil í okkur, og það er náttúrulega það sem er það versta fyrir sérstaklega karlmann, að upplifa sig vanmáttugan og lítinn í sér. Og þá getum við gripið til reiðinnar, og farið í árás af því að þá upplifum við okkur sterka“. Guðbrandur telur mikilvægt að læra að lifa með skömminni og láta hana ekki stjórna sér, enda sé hún í raun menningartilfinning og merki um siðferðiskennd. Andstæðan við skömmina, segir Guðbrandur, sé mun verri: „hún er miklu miklu miklu verri heldur en nokkurtíman að upplifa skömm því það er skammarleysið. Og þegar maður upplifir ekki skömm, eins og Trump, sem er bara besta dæmi í heiminum í dag eða þekktasta, þá get ég sagt hvað sem er, get gert hvað sem er af því mér er andskotans sama [...] við getum til dæmis ekki þróað með okkur sektarkennd eða samviskubit nema að skömmin sé á sæmilegum stað“.
Tilfinningar eins og veðrið
„Mér finnst oft gott að tala um tilfinningar, bara eins og veðrið, til dæmis á Íslandi, sem er síbreytilegt. Tilfinningar þær eru bara þannig að þær koma og fara, þær líða hjá“ segir Hulda Tölgyes sálfræðingur en segir að okkur hætti til að vilja reyna að komast undan tilfinningum okkar. „Það eru ekki endilega tilfinningar okkar sem eru vandamálið, heldur viðbrögðin okkar við þeim. Það er oft það, sem kemur okkur í vanda“. Hulda segir að bæla tilfinningar eða deyfa þær geti skapað stærri vanda, gagnlegra sé að gefa tilfinningunum gaum en ekki láta þær stýra sér. Þá segir Hulda að með því að loka á erfiðar tilfinningar komum á sama tíma í veg fyrir þægilegri tilfinningar. „Ef við reynum að loka á þessar tilfinningar sem okkur finnst erfiðar, þá lokum við á sama tíma á tilfinningar sem okkur finnst ljúfar og góðar.“ Þess vegna telur Hulda mikilvægt að leyfa sér að upplifa og tjá tilfinningar, en ekki reyna að loka á þær. „Það dugar kannski til skamms tíma, en við getum upplifað ennþá meiri óþægindi til lengra tíma litið“.
Karlar leita sér síður aðstoðar
Hulda segir að strákar og karlar leiti sér síður aðstoðar, t.d. hjá sálfræðingum, heldur en konur og stúlkur. Þá segir hún „það getur verið rosalega mikilvægt fyrir t.d. strákana að vera fyrirmyndir fyrir aðra félaga sína og sýna þessa hegðun, að tala um tilfinningar sínar, segja þegar þeir eru litlir í sér eða þegar það er eitthvað erfitt í gangi.“ Með telur Hulda að strákar og karlar upplifi að þeir megi tala um tilfinningarnar sínar og upplifa það sem þeir eru í raun og veru að upplifa, en það geti krafist hugrekkis. „Það krefst mikils hugrekkis fyrir suma að tala um tilfinningar sínar og hvernig þeim líður.“
Guðbrandur tekur undir að það geti krafist hugrekkis, sérstaklega fyrir karla, að gangast við tilfinningum sínum. Hann segist oft eiga í samræðum við karla sem leita til hans um hvort þeir vilji rækta með sér hugleysi eða hugrekki. „Hvort heldurðu að krefjist meira hugrekkis, að standa með sjálfum sér og gangast við því að stundum, af því að maður er manneskja, að þá verður maður lítill í sér og stundum finnst manni maður verða svoldið vitlaust og hafa gert eitthvað sem maður skammast sín fyrir, hvort krefst það meira hugrekkis að standa bara með því og geta unnið í því eða að flýja það?“ Þar sem hugrekki hefur verið tengd við karlmennsku, segir Guðbrandur, að flestir gangist þá við því að vilja rækta með sér hugrekki en ekki hugleysi. „Og það er náttúrulega sjálfgefið, okei, hugrekki er náttúrulega ein af þessum, eiginleikum sem við gjarnan teljum, til karlmennsku. Þannig að, okei, there you have it…“
Feluleikur, skömm og bæling
Af 365 frásögnum karla af karlmennskuhugmyndum, undir myllumerkinu #karlmennskan á Twitter, lýstu 157 þeirra því hvernig karlar höfðu falið, bælt eða skammast sín fyrir tilfinningar sínar. Þar komu við sögu sjálfsvígshugsanir, glíma við andlega erfiðleika og bæld sorg vegna barns- og móðurmissis. Hafsteinn Vilhelmsson og Daníel Valtýsson hafa báðir upplifað sorg og missi, og það að telja sig þurfa að bæla eða fela tilfinningar sínar fyrir öðrum. Daníel missti móður sína þegar hann var 16 ára gamall og lýsti, í frásögn sinni á Twitter, að hann hefði ekki getað grátið fyrir framan vini sína. Líf Hafsteins, og Gyðu kærustu hans, tók krappa beygju árið 2012 þegar nýfædd dóttir þeirra, Elísa Margrét, greindist með heilagalla, sem orsakaði það að hún gat hvorki talað né hreyft sig. Hafsteinn segir að þau Gyða hafi verið farþegar í baráttu Elísu en viðurkennir þó að hann hafa ekki tekist á við tilfinningaflóðið sem baráttunni fylgdu á gagnlegan hátt.
„AFHVERJU HELDURÐU AÐ SÉ EITTHVAÐ AÐ?!“
„Ég dílaði bara ömurlega við þetta [...] Ég féll rosalega mikið í þá gryfju að setja kassann út og ég var rosa mikið að hlæja, notaði hlátur rosa mikið og brandara og svona... Ég reyndi að vera svona töffari sko“. Hafsteinn lýsir því að hann hafi upplifað að ef hann myndi sína raunverulega líðan sína, væri hann að bregðast fjölskyldunni sinni. „Konan mín hún mátti ekki sjá mig gráta, en ég... ég grét sko [...] Kannski sagði konan mín „hvað er að?“, AFHVERJU HELDURÐ AÐ SÉ EITTHVAÐ AÐ, ER ÞAÐ AF ÞVÍ ÉG ER EKKI HLÆJANDI!? Svo bara fór ég út í bíl og fjúff, brotnaði niður“. Elísa Margrét lést á fjórða aldursári og hefur Hafsteinn verið að vinna markvisst í því að gangast við tilfinningum sínum og taka ábyrgð á þeim. „Ég viðurkenni að ég er ekkert góður í því [...] en ég er að læra það“. Hefur hann fengið góða hjálp frá sínum nánustu auk þess að hafa hitt sálfræðing. Hann finni þó hvernig það er stutt í að hann múri fyrir tilfinningar sínar „að setjast niður og ræða um mín tilfinningaleg vandamál, það er sjúklega erfitt. Og þá bara þú veist, þá er ég bara kominn með steypu og múrkubb og byrjaður bara að byggja upp veggginn sko.. ég sé hann bara fara upp“. Hafsteinn segir að það sé „töff að vera tilfinningalega tengdur sjálfum sér“ og að þetta snúist bara um einlægni, sem hann hefði viljað læra mun fyrr.
„Þegar ég kom heim grét ég í marga klukkutíma“
Daníel Valtýsson lýsti aðstæðum í jarðarför móður sinnar í tísti á Twitter: „Þegar ég var í jarðarförinni hjá mömmu minni þá barðist ég við að gráta ekki, því allir vinir mínir voru þar, en þegar ég kom heim grét ég í marga klukkutíma“. Daníel, sem var 16 ára þegar móðir hans lést, segist hafa upplifað sig einan og bældi tilfinningar sínar með neyslu í tæp 2 ár þangað til hann fann gagnlegri leið. Aðspurður segir Daníel að hann hafi verið í hörðum vinahópi og það hefði ekki komið til greina að sýna berskjaldaðar tilfinningar. „Það síðasta sem maður vill, er að maður haldi að maður sé að ganga í gegnum þetta einn sko“. Hann upplifði sig samt einan og segir að það hefði breytt öllu ef hann hefði fengið stuðning frá vinum sínum: „Leyft mér að vera [og] líða illa.. kannski grátið með mér“. Hann segist hafa lært á síðustu árum að „það munu allir skilja það ef þú grætur og líður illa. Það er enginn að fara að dæma þig fyrir það, þó maður haldi annað“.
Karlar þurfa að sýna hugrekki
Karlar geta skapað sér enn frekari vanda með því að múra fyrir tilfinningar sínar og fela þær eða bæla niður. Vanda sem mun að öllum líkindum bitna á fólkinu sem stendur þeim næst. Það er því mikið í húfi, ekki bara fyrir karla og drengi, heldur samfélagið í heild sinni, að karlar sýni hugrekki á tilfinningasviðinu og skori skömmina á hólm með því að horfast í augu við hana.
Efni þessa pistils var einnig umfjöllunarefni öðrum þætti í annarri seríu Karlmennskunnar og Stundarinnar, sem bar heitið „Karlar og tilfinningar“. Ítarlegri umfjöllun og viðtöl má einnig finna á helstu hljóðvarpsveitum með leitinni „Karlmennskan: Karlar og tilfinningar - 2. þáttur“
Horfa á 2. þátt - Karlar og tilfinningar
Hlusta á ítarlegri umfjöllun af þættinum Karlar og tilfinningar
Athugasemdir