Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherrra mun stíga tímabundið til hliðar úr stóli heilbrigðisráðherra eftir fund ríkisstjórnarinnar í dag. Ástæðurnar eru veikindi í fjölskyldu Svandísar.
Mikið hefur mætt á Svandísi undanfarna mánuði í stóli heilbrigðisráðherra sem er í forsvari fyrir aðgerðir til að mæta kórónaveirufaraldrinum. Í júlí síðastliðnum greindist svo dóttir hennar, Una Torfadóttir, með heilaæxli sem reyndist vera krabbamein. Svandís greindi sjálf frá því á Facebook-síðu sinni og að framundan væri löng og ströng krabbameinsmeðferð hjá Unu. „Mitt verkefni verður að styðja hana í því ferli ásamt fjölskyldu og vinum. Þetta er stærsta verkefni lífs míns,“ skrifaði Svandís þá.
Svandís vék ekki til hliðar í sumar heldur sinnti áfram verkefnum sínum sem heilbrigðisráðherra.
Stundin hefur ekki upplýsingar um líðan Unu en samkvæmt heimildum Stundarinnar hafa frekari veikindi komið upp í fjölskyldu Svandísar og að það hvoru tveggja valdi því að hún stígur nú tímabundið til hliðar, til 15. október. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, mun gegna störfum heilbrigðisráðherra í fjarveru Svandísar.
Athugasemdir