Ókei, fyrst er það hlekkur á þrautina frá í gær. Hér er hann.
***
Fyrri aukaspurning:
Hvaða ár var sú ljósmynd tekin, sem skjáskot birtist af hér að ofan?
***
Aðalspurningar:
1. Hver teiknaði Þjóðleikhúsið?
2. Elstu merki um bjórbruggun, sem fundist hafa, benda til þess að Natúfíumenn í hinu núverandi Ísrael, hafi orðið fyrstir til að kneifa ölið. Hversu gamlar eru elstu leifarnar sem fundist hafa? Hér má muna þúsund árum til eða frá.
3. Nokkurn veginn hversu mörg fet eru í einum metra?
4. Á hvaða fjalli strandaði örkin hans Nóa þegar sjatna tók í Nóaflóðinu?
5. Hvað heitir byggingin sem hýsir bandaríska varnarmálaráðuneytið?
6. Úr hvaða plöntuhluta er kanill unninn?
7. Eftir hvern er ljóðabókin Ljóð vega menn?
8. Hvað kallast þeir hitakvarðar þar sem 0 er jafngilt -273 á Celcíus, sem oft er sagt er að sé hinn „algjöri kuldi“?
9. Hvað heitir höfuðborg Hollands?
10. Hvað var langvinsælasta lagið á plötunni Nákvæmlega með Skítamóral frá árinu 1998?
***
Seinni aukaspurning:
Hvaða hvalir eru þetta?

***
Svör við aðalspurningum:
1. Guðjón Samúelsson.
2. Fyrir 13.000 árum, svo rétt má vera allt frá 12.000 árum til 14.000.
3. Þrjú.
4. Ararat.
5. Pentagon.
6. Trjáberki.
7. Sigurð Pálsson.
8. Kelvin og Rankine. Rétt er að taka fram að þegar spurningin var búin til hafði ég eki hugmynd um Rankine-kvarða og spurði því aðeins um einn hitakvarða, en þeir eru sem sé tveir.
9. Amsterdam. Ýmsar stjórnarstofnanir eru að sönnu í Haag en það stendur í sjálfri stjórnarskrá Hollendinga að Amsterdam sé höfuðborgin.
10. Farin.
***
Svör við aukaspurningum:

Fyrri myndin sýnir Diego Maradona fagna heimsmeistaratitli sínum (og Argentínu) árið 1986.
Á neðri myndinni eru náhvalir.
***
Athugasemdir