Nú þegar Katrín Jakobsdóttir er að hefja sinn fjórða vetur sem forsætisráðherra er ekki úr vegi að hugleiða stöðu hennar. Ný könnun sem birtist í Fréttablaðinu í vikunni sýnir að hún nýtur mun meira trausts en aðrir ráðherrar í ríkisstjórn hennar. Fólk var spurt til hvaða ráðherra það bæri mest traust og 18,5 prósent nefndu Katrínu, nærri helmingi fleiri en nefndu næsta ráðherra, sem var Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins (10,8 prósent).
Sérlega athyglisvert er að Katrín nýtur nú áberandi meira trausts en Lilja Alfreðsdóttir, sem er nú í þriðja sætinu (10,7 prósent) en skaut Katrínu rækilega ref fyrir rass í sams konar könnun fyrir ári.
Miðað við hvernig samskiptum þeirra Katrínar og Lilju er háttað má ætla að Katrín sé hreint ekkert leið yfir því.
En þótt Katrín megi vel við una – miðað við hina ráðherrana í ríkisstjórn hennar – þá er myndin nú samt ekkert svo rósrauð þegar að er gáð.
Ekki mikið mannval
Í fyrsta lagi hefur Katrín ekkert hækkað í trausti síðan í fyrra, heldur staðið alveg í stað, sem kemur á óvart miðað við að maður hefur gengið undir manns hönd við að staðhæfa að hún og stjórn hennar hafi staðið sig með ágætum í COVID-faraldrinum. Enda hefur ríkisstjórnin í heild reyndar glatað stuðningi í kófinu, þótt ekki sé sosum um neitt hrun að ræða.
Þá verður að efast um að það sé í sjálfu sér mikið afrek að njóta meiri trausts en obbinn af ráðherrunum í núverandi ríkisstjórn. Með fáeinum heiðarlegum undantekningum er þar satt að segja ekki um stórfenglegt mannval að ræða.
Og ekki ber að gleyma því að árið 2016 voru vinsældir Katrínar slíkar að hún hefði án nokkurrar fyrirhafnar getað valsað út á Bessastaði og orðið forseti Íslands, ef hún hefði svo kosið. Miðað við það eru 18 prósent þeirra sem afstöðu taka satt að segja engin ósköp.
Kannski munu aðdáendur hennar alla tíð sjá eftir því að hún hafi ekki haldið að Bessastöðum, því kannski hefði forsetaembættið hentað henni betur en forsætisráðherrastóllinn. Grunsemdir um það vakna þegar maður les orð hennar í ágætu viðtali sem Andrés Magnússon á Morgunblaðinu átti við hana í sumar.
Ríkisstjórnarmyndunin var verulega umdeild innan VG, eins og menn muna, og dugar að rifja upp margnefnd orð Drífu Snædal um að í þessari ríkisstjórn yrði það hlutskipti VG að éta upp á hvern dag „skít“ frá Sjálfstæðisflokknum.
Vísvitandi með rangt mál?
En Katrín ákvað að taka sénsinn og skýrir Andrési frá ástæðu þess:
„Í fyrsta lagi var verulegt ákall almennings eftir stöðugleika í stjórnarfari, sem við stjórnmálamenn urðum að svara.“ Og síðar segir hún: „Núna erum við að sigla inn í síðasta vetur kjörtímabilsins og ég tel að okkur hafi auðnast að ná fram meginmarkmiði okkar um stöðugleika í stjórnarfari.“
„Þá var – það staðhæfi ég – þjóðinni alveg sama þótt slíkur „óstöðugleiki“ væri erfiður fyrir pólitíkusa“
Þetta hljómar kannski eðlilega, en við skulum til að byrja með ekki gleyma því að þetta er rangt. Annaðhvort fer Katrín vísvitandi með rangt mál – sem þýðir að hana setur mjög ofan sem heiðarlegan stjórnmálamann – eða hún hefur árið 2020 verið glámskyggnari en leyfilegt ætti að vera.
Það er nefnilega alrangt – bara himinhrópandi rangt – að árið 2017 hafi meginkrafa almennings snúist um „stöðugleika í stjórnarfari“. Tvær ríkisstjórnir höfðu hrökklast frá, fyrst og fremst vegna stórra og smárra spillingarmála innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, en krafa almennings var ekki um „stöðugleika“.
Hver hafði þörf fyrir stöðugleika?
Krafa almennings var um skárra samfélag.
Opnara, heiðarlegra samfélag.
Ekki að öllu yrði sópað undir teppi Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins og að Katrín Jakobsdóttir kæmi sér brosmild fyrir á teppinu með kústinn, kastaði mæðinni alls hugar fegin og segði:
„Nú er allt í lagi.“
Kannski var það regluþörf Katrínar sjálfrar sem olli því að hún hélt að „stöðugleiki“ væri málið. En þótt það hafi kannski verið óþægilegt fyrir lítt áhættusækna stjórnmálamenn að vita ekki að morgni nema kannski færi þjóðin öskuvond á Austurvöll þann daginn, þá var – það staðhæfi ég – þjóðinni alveg sama þótt slíkur „óstöðugleiki“ væri erfiður fyrir pólitíkusa.
Þjóðin sá í kosningaúrslitunum 2017 tækifæri til að gefa Sjálfstæðisflokknum langþráð frí frá landstjórninni, eða réttara sagt tækifæri til að gefa þjóðinni frí frá Sjálfstæðisflokknum, en Katrín sá því miður aðeins tækifæri til að koma aftur á „stöðugleika“.
Geggjuð orð
Áttuðuð þið ykkur á því hve geggjuð þau orð voru sem Katrín sagði í viðtalinu við Andrés? Að formaður í (meintum) vinstri flokknum hafi talið það meginverkefni sitt að koma á „stöðugleika í stjórnarfari“ þegar flokkurinn var í slíku dauðafæri að koma hægrivaldstjórnarspillingarflokknum frá?
Þannig séð er þetta raunar ekki mjög skrýtið. VG er ekki lengur vinstri flokkur, heldur íhaldssamur miðjuflokkur. Ekkert sem flokkurinn hefur gert í ríkisstjórn gætu snotrir Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn ekki verið fullsæmdir af.
Ekkert.
Þannig fór nú um dauðafærið það. Það verður lengi harmað.
Athugasemdir