Síðan 2. október 2019 hafa félagasamtökin Líf án ofbeldis starfað markvisst að því að vekja athygli ráðafólks og almennings á alvarlegum brotalömum í mati á hagsmunum barna við ákvörðun um umgengni og forsjá barna. Nú stendur yfir undirskriftasöfnun þar sem gerð er krafa um að yfirvöld tryggi vernd barns gegn kynferðisofbeldi. Framganga stjórnvalda gagnvart móður, sem verndar barn sitt frá ofbeldi, er fordæmd og því mótmælt að hún sé svipt forsjá yfir barni sínu, fyrir það eitt að uppfylla einmitt þessa frumskyldu sína. Því er einnig mótmælt að farið verði í aðför og barn fært með valdi frá verndandi móður og þvingað inn í ofbeldishættu.
Upplýst um málið er fólki verulega brugðið en þegar þetta er skrifað hafa sjö þúsund manns undirritað þá kröfu til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra og Ásmundar Daða Einarssonar barnamálaráðherra að þau axli ábyrgð í málinu og að ríkisstjórnin viðurkenni, eins og dæmin sýna, að kerfið hefur brugðist börnum í ofbeldishættu.
Íslensk löggjöf um skipan forsjár og umgengni hvílir á þeirri skoðun að bestu hagsmuna barna sé gætt með því að deila ábyrgð jafnt á milli beggja foreldra. En þegar foreldri beitir ofbeldi vill þessi hugmyndafræði, um eindreginn rétt barnsins til umgengni (e. pro- contact ideology), verða ríkjandi í réttarákvörðun og hefur leitt til þess að dómarar og sýslumenn vísa frá eða afsaka ofbeldishegðun. Þar með setja þeir börn endurtekið í hættulegar aðstæður.
Í málinu sem um ræðir var forsjá færð óskipt frá móður til manns sem viðurkennir fyrir dóminum kynferðisbrot gegn ungu barni, en staðhæfir jafnframt að hann hafi engar hneigðir til barna. Báðir foreldrar voru metnir hæfir til að fara með forsjá en niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur var fengin með þeim rökum að móðirin, sem ávallt hefur borið þungann af umönnun barnsins, myndi koma í veg fyrir umgengni þess við föður. Rannsókn lögreglu á meintu kynferðisbroti mannsins gegn barni sínu var felld niður án þess að læknisrannsókn eða viðtal færi fram í Barnahúsi. Vitnisburður tveggja kvenna um kynferðisbrot mannsins gegn þeim barnungum hafði heldur ekki áhrif á niðurstöðuna.
Ákvörðun um að færa forsjá alfarið frá móður á þeim grunni einum að hún samþykki ekki eftirlitslausan aðgang föður að barni eða brjóti á rétti þess með því að segja frá ofbeldishættu er að mati flestra fordæmalaust á Íslandi. Í umfjöllun Vísis og Stöðvar 2 um málið segist Hrefna Friðriksdóttir, prófessor í barnarétti, ekki muna eftir máli þar sem umgengni ein og sér er látin ráða úrslitum, vanalega sé horft til annarra þátta eins og vilja barns eða hæfis foreldra. Bandarískar rannsóknir sýna að þegar mæður greina frá líkamlegu ofbeldi og kynferðisbrotum föður gegn börnum, en þeim er mætt með ásökun um tálmun á umgengni á móti, aukast líkurnar á því að móðirin missi forsjá og börnin verði þess í stað sett í umsjá föðurins sem beitir ofbeldi. Þetta kann að hljóma fjarstæðukennt en er engu að síður sú átakanlega dómsniðurstaða sem við erum að horfa upp á núna. Þorbjörg Inga Jónsdóttir, lögmaður móður, segir rauða þráðinn í dómi og matsgerð í forsjármálinu vera að móðurinni sé einfaldlega ekki trúað.
Ákvörðun sem gengur þvert á allan lögbundinn rétt barns til verndar frá ofbeldi má ekki verða að fordæmi í dómaframkvæmd hér á landi. Raunar standa væntingar til þess að annar dómur hafi þegar rutt braut með fordæmi sínu í máli sem talið er hafa verulegt almennt gildi í barnarétti og barnaverndarrétti. Þann 10. mars síðastliðinn var staðfestur í Hæstarétti Íslands dómur héraðsdóms yfir foreldrum sem sviptir voru forsjá tveggja barna sinna og var dómi Landsréttar þar með snúið. Markvert þykir við dóm Hæstaréttar að þar er vilji barnanna látinn ráða miklu, þó sem slíkur sé hann ekki talinn upp í því ákvæði barnaverndarlaga sem er skilyrði til sviptingar á forsjá. Ekki síður veigamikið er að lagt er til grundvallar í Hæstarétti að ekki ráði úrslitum í málinu þó faðir barnanna hafi verið sýknaður fyrir kynferðisbrot sem ætlað var að hann hefði framið gegn þeim. Þannig er staðfest, samkvæmt dóminum, að sú staðreynd að viðkomandi hafi ekki verið dæmdur fyrir brot gegn barni komi ekki í veg fyrir að vilji barnanna eða ótti við manninn sé látinn ráða niðurstöðunni. Í dómi Hæstaréttar segir:
„Samkvæmt þessu og að virtu því sem að framan er rakið um þær meginreglur, sem líta ber til við úrlausn barnaverndarmála og að teknu tilliti til þess sem ráðið verður um vilja barnanna, getur ekki ráðið úrslitum að faðir þeirra var sýknaður í sakamáli samkvæmt þeim ströngu kröfum um sönnun sem í slíkum málum gilda. Þvert á móti verður að virða atvik málsins með hliðsjón af því hvað börnunum er fyrir bestu eftir þeim reglum sem áður eru raktar. Fer þetta ekki í bága við 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar um að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus uns sekt hans hefur verið sönnuð.“
Í umræddum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, í maí síðastliðnum, var flutningur óskiptrar forsjár til föður rökstuddur á grunni ákvæða barnalaga og sjónarmiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um rétt barns til umgengni við báða foreldra. Farið var með viðurkenningu mannsins á kynferðisbrotum, vitnisburði tveggja um þau og merki um hegðunarbreytingar barnsins sem „einhliða staðhæfingar annars aðila [móður] í forsjárdeilu um refsiverða háttsemi hins gagnvart barni“. Ekki var talað um að kanna þurfi líðan barnsins frekar í samræmi við ætluð brot og því ekki hægt að tala um að vilji barnsins hafi fengið vægi. Með dómi Hæstaréttar mætti ætla að þessum dómi héraðsdóms um óskipta forsjá föður væri kollvarpað. Að sönnunarbyrði refsiréttar yrði ekki látin gilda varðandi meint kynferðisbrot föður gegn barninu og vilji og líðan þess hefðu forgang við úrlausn málsins.
Réttarkerfið er ekki að fara að leiðrétta kúrsinn í þessu máli sjálft. Flest bendir reyndar til þess að kerfið á Íslandi ráði almennt ekki við að meta áhrif ofbeldis á hagsmuni barna í forsjár- og umgengnismálum og sé þar af leiðandi ekki fært um að veita börnum þá vernd frá ofbeldi sem þau eiga rétt á samkvæmt gildandi lögum. Í júní síðastliðnum birti breska dómsmálaráðuneytið óvenjulega skýrslu, en í henni er því staðfastlega lýst yfir að fjölskylduréttur þar í landi sé ófær um að vernda börn. Sams konar skýrslur væri hægt að skrifa í næstum hverri einustu höfuðborg Vesturlanda og einungis er tímaspursmál hvenær íslensk stjórnvöld viðurkenna að kerfið nær ekki utan um þetta hlutverk sitt. Uppkvaðning dóma í Landsrétti á komandi misserum mun leiða í ljós áhrif Hæstaréttardómsins á dómaframkvæmd almennt í málum er varða rétt og vernd barna.
Spurningin sem við ættum kannski frekar að spyrja er hversu mörg líf barna eru ásættanlegur fórnarkostnaður í huga ráðamanna áður en gripið er til aðgerða til að tryggja vernd barna gegn ofbeldi í íslenskri réttarframkvæmd?
Athugasemdir