Mál mótmælanda úr samtökunum No Borders er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Kári Orrason, 22 ára gamall baráttumaður fyrir réttindum flóttafólks, er ákærður fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu í anddyri dómsmálaráðuneytisins í apríl fyrir ári. Hann segist hafa verið að nýta rétt sinn til mótmæla og styðja fólk í viðkvæmri stöðu.
Fyrir dómi rétt í þessu lýsti Kári atvikunum. „Lögreglan kemur inn, læsir hurðinni og stuttu síðar erum við handtekin.“ Hann sagðist ekki hafa gert sér í hugarlund að hann væri brotlegur. „Það hvarflaði ekki að mér að ég væri að brjóta lög.“
Kári, ásamt öðrum aðgerðarsinnum úr röðum No Borders, mætti 5. apríl 2019 í anddyri dómsmálaráðuneytisins til að krefjast fundar með þáverandi dómsmálaráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, til að ræða bágar aðstæður fólks sem sækir um alþjóðlega vernd á Íslandi. Mótmælin fóru fram eftir margra mánaða tilraunir mótmælendanna til að bóka fund með ráðherra og vekja athygli á málefninu. Meðal annars voru samtökin búin að skila inn erindi með Rauða Krossinum og afhenda ráðuneytinu undirskriftalista.
Fimm ákærðir fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu
Hópurinn neitaði að færa sig úr anddyrinu og því voru fimm handteknir og færðir í burtu í járnum. Ráðuneytið var opið á þessum tíma og hópurinn hindraði ekki aðgengi eða störf starfsfólksins. Hópurinn var fyrst ásakaður um húsbrot, en ári síðar birtist Kára og hinum mótmælendunum ákæra fyrir að óhlýðnast fyrirmælum lögreglu.
Stundin ræddi við einn þeirra sem var handtekinn sem segir lögregluna aðeins hafa tjáð sig á íslensku. Þegar lögreglan var beðin um að tala ensku svo allir viðstaddir gætu skilið það sem hún sagði á varðstjóri að hafa svarað að hér á landi væri bara töluð íslenska. Sami einstaklingur fullyrðir að á leiðinni á lögreglustöðina, með þremur mótmælendum í bifreiðinni, hafi lögreglumaður sagt að ef hann fengi skipun um að skjóta meðlimi hópsins í hausinn myndi hann gera það án umhugsunar.
„Ég var að reyna að breyta samfélaginu til hins betra“
Í opnu bréfi til Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, sem Kári birti hjá Fréttablaðinu 23. júlí síðastliðinn segist hann hafa verið að berjast fyrir bættum kjörum fólks í viðkvæmri stöðu. „Ég var að nýta rétt minn til mótmæla og stuðla að því að fólk í erfiðri og viðkvæmri stöðu gæti komið sínu fram“, skrifar hann. „Ég var að reyna að breyta samfélaginu til hins betra. Er það ekki borgaraleg skylda okkar allra?“
Tekist á um réttinn til mótmæla
Réttur til að koma saman og mótmæla er varinn í stjórnarskrá Íslands. Þannig segir í stjórnarskrá að menn hafi rétt á að koma saman vopnlausir. Samkvæmt dómafordæmum, stjórnarskrá og anda laganna er ekki heimilt að stöðva mótmæli nema þau teljist ganga of langt.
Skylda almennings til að hlýða fyrirmælum lögreglu nær aðeins til þess ef óhlýðni myndi stefna almannahagsmunum í hættu eða leiða til lögbrots. Lögreglumenn hafa, samkvæmt lögreglulögum, heimild til að „beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna“. Sú heimild er þó takmörkuð í sömu lögum: „Aldrei mega þeir þó ganga lengra í beitingu valds en þörf er á hverju sinni.“
Í lögreglulögum kemur fram að lögreglunni er „heimilt að hafa afskipti af borgurunum til að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu eða koma í veg fyrir yfirvofandi röskun til að gæta öryggis einstaklinga eða almennings eða til að afstýra afbrotum eða stöðva þau“. Hins vegar er lögreglunni, eins og öðru opinberu stjórnvaldi, gert að gæta meðalhófs.
Þá er lögreglumönnum óheimilt að beita harðræði. „Ekki mega þeir beita sakaðan mann harðræði fram yfir það sem lög heimila og nauðsynlegt er til þess að vinna bug á mótþróa hans gegn lögmætum aðgerðum né á annan hátt beita hann ólögmætri þvingun í orði eða verki, svo sem með hótunum.“
Aðalmeðferð málsins fer fram fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur við Lækjartorg frá klukkan 13.15 í dag.
Athugasemdir