Efling stéttarfélag lýsir vonbrigðum með aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar sem kynntur var í dag. Þar sé eingöngu að finna aðgerðir sem styðji við atvinnurekendur og efnafólk. Ríkisstjórnin hafi látið undan hótunum Samtaka atvinnulífsins og með því fórnað sjálfsvirðingu sinni og hagsmunum almennings.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu Eflingar sem birt var á Facebook-síðu stéttarfélagsins. Þar er aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar, „Átta nýjar stöðugleikaaðgerðir“ gagnrýnd harkalega.
Til stóð að atkvæðagreiðsla færi fram hjá meðlimum Samtaka atvinnulífsins í dag um afstöðu til Lífskjarasamningsins og hvort hann eigi að falla úr gildi 1. október vegna Covid-kreppunnar. Hætt var við atkvæðagreiðsluna í kjölfar yfirlýsinga ríkisstjórnarinnar.
Aðgerðirnar ríkisstjórnarinnar eru sagðar hugsaðar til stuðnings Lífskjarasamningnum. Þær fela meðal annars í sér lækkun tryggingargjalds fyrirtækja vegna starfsfólks, fjárstuðningi við rekstraraðila, úrbætur í skipulags- og byggingamálum og skattaívilnanir til fjárfestinga. Meðal annars verða „skoðaðar leiðir til að hvetja til þátttöku almennings í atvinnulífinu með kaupum á hlutabréfum“.
„Þær aðgerðir sem hönd er á festandi í yfirlýsingunni styðja þó eingöngu atvinnurekendur og efnafólk, láta undan óeðlilegum þrýstingi þeirra og hlunnfara vinnandi fólk,“ segir í yfirlýsingu Eflingar.
Gagnrýnt er að ekki sé að finna neinar efndir á loforði stjórnavalda um févíti vegna launaþjófnaðar og þá veki loforð um skattaafslátt til stóreignafólks sem standi í hlutabréfakaupum algjöra furðu. „Sú aðgerð gengur þvert á markmið skattkerfisbreytinga sem lofað var í tengslum við lífskjarasamninganna.“
Þá sé ekki komið til móts við tillögur verkalýðshreyfingarinnar um aðgerðir hins opinbera í þágu almennings og vinnandi fólks á krepputímum. Ekki sé minnst á hækkun grunnatvinnuleysisbóta, til að mynda.
„Ríkisstjórnin hefur látið Samtök atvinnulífsins beita sig hótunum um uppsögn kjarasamninga, hótun sem aldrei var innistæða fyrir. Fjöldi fyrirtækja um allt land eru í ágætum rekstri og ekki á þeim buxum að hefja ófrið um allan vinnumarkaðinn. Í stað þess að halda sjálfsvirðingu sinni og verja hagsmuni almennings lætur ríkisstjórnin neyða sig til að ausa enn meira fé úr sjóðum hins opinbera til efnafólks og stöndugra fyrirtækja.“
Í tillögum stjórnvalda, sem Katrín Jakobsdóttir kynnti í dag, er einnig boðað að lögð verði fram þegar boðuð frumvörp í tengslum við Lífskjararasamninginn. Þar á meðal er frumvarp til starfskjaralaga, húsaleigulaga, laga um breytingar á gjaldþrotaskiptum, varðandi kennitöluflakk, og breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu.
Átta aðgerðir ríkisstjórnarinnar
Samkvæmt kynningu frá forsætisráðherra
- „Allir vinna“ framlengt
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að full endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu undir átakinu „Allir vinna“ verði framlengt út árið 2021. Áætlaður kostnaður við endurgreiðsluna nemur um átta milljörðum króna. - Tímabundin lækkun tryggingagjalds
Ríkisstjórnin hefur ákveðið, í því skyni að milda áhrif af þeim launahækkunum sem samið var um í Lífskjarasamningnum og koma til framkvæmda um næstu áramót, að lækka tryggingagjald tímabundið í eitt ár, eða til loka ársins 2021. Mun lækkun tryggingagjalds jafngilda því að gjaldið verði ekki tekið af kjarasamningsbundnum launahækkunum sem koma til framkvæmda um komandi áramót. Kostnaður við lækkun tryggingagjaldsins nemur um fjórum milljörðum króna. - Fjárstuðningur við rekstraraðila sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli vegna faraldursins
Þegar hafa verið lögfest margháttuð úrræði til stuðnings atvinnustarfsemi. Má þar nefna hlutastarfaleið, greiðslu launa í uppsagnarfresti, lokunarstyrki, viðbótar- og stuðningslán, greiðsluskjól og ríkisábyrgðir. Fjármálafyrirtæki hafa jafnframt fengið stóraukið svigrúm til að standa við bakið á rekstraraðilum. Mikilvægt er að þessi úrræði komist að fullu til framkvæmda. Stjórnvöld hafa að undanförnu og í kjölfar hertra sóttvarnaráðstafana hugað sérstaklega að stöðu þeirra rekstraraðila sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli vegna faraldursins með það fyrir augum að tryggja eins og nokkur er kostur að fyrir hendi sé sú geta sem nauðsynleg er til að stuðla að kröftugri viðspyrnu þegar úr rætist. Verður horft til þess að veita beina styrki til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir tekjuhruni vegna COVID-19 faraldursins. Með slíkum styrkjum er horft til þess að hægt sé að viðhalda nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir og með því eru viðskiptasambönd varðveitt og viðbúnaður tryggður. Gert er ráð fyrir að styrkir geti numið um 6 milljörðum króna. Miðað er við að áætlanir þar að lútandi verði undirbúnar á næstu vikum og lagðar fyrir Alþingi eigi síðar en við framlagningu frumvarps til fjáraukalaga. - Skattaívilnanir til fjárfestinga
Unnið er að útfærslu á skattalegum aðgerðum sem hafa það að markmiði að hvetja og styðja fyrirtæki til fjárfestinga sem ætlað er að efla nýsköpun og samkeppnishæfni atvinnulífsins. Er þar horft til þess að flýta afskriftum á nýfjárfestingu, með áherslu á græna umbreytingu og loftslagsmarkmið, sem gerir fyrirtækjum kleift að ráðast í slíkar fjárfestingar mun fyrr en ella. Jafnframt verða skoðaðar leiðir til að hvetja til þátttöku almennings í atvinnulífinu með kaupum á hlutabréfum. - Aukin áhersla á nýsköpun og matvælaframleiðslu
Í tengslum við gerð fjárlagafrumvarpsins hefur ríkisstjórnin ákveðið að framlög til nýsköpunarmála verði stóraukin milli ára eða sem nemur liðlega fimm milljörðum króna samanborið við yfirstandandi ár og tíu milljörðum króna í samanburði við árin þar á undan. Hér má nefna stofnun Kríu, fjárfestingarsjóðs sem er ætlað að stuðla að uppbyggingu, vexti og aukinni samkeppnishæfni atvinnulífsins. Auk þess hafa ívilnanir til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunarstarfs verið ríflega þrefaldaðar frá árinu 2017. Þá hafa framlög til nýsköpunar í matvælaframleiðslu aukist umtalsvert, m.a. með stofnun Matvælasjóðs. Ríkisstjórnin mun í því samhengi kanna sérstaklega hagkvæmni og skilvirkni í matvælaframleiðslu. - Úrbætur á skipulags- og byggingamálum
Ríkisstjórnin mun hrinda í framkvæmd úrbótum í skipulags- og byggingamálum, m.a. með hliðsjón af niðurstöðum átakshóps í húsnæðismálum og ráðgefandi vinnu OECD fyrir stjórnvöld um samkeppnishindranir á mörkuðum. - Umbætur á lífeyriskerfinu og á vinnumarkaði
Í framhaldi af því sem fram kemur í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var út í tengslum við Lífskjarasamninginn og samtölum við heildarsamtök á vinnumarkaði mun áður kynnt frumvarp um lögfestingu iðgjalds, jafnræði sjóðfélaga með tilliti til almannatrygginga og heimildir til ráðstöfunar tilgreindrar séreignar í tengslum við öflun húsnæðis verða lagt fram á haustþingi. Ríkisstjórnin mun í framhaldi af því hafa forystu um að stefnumörkun í lífeyrismálum í nánu samstarfi við heildarsamtök á vinnumarkaði og Landssamband lífeyrissjóða. Stefnt er að því að afrakstur þess samráðs verði grænbók um lífeyrismál sem kynnt verði vorið 2021. Jafnframt muni ríkisstjórnin hafa forystu um gerð grænbókar um framtíðarumhverfi kjarasamninga og vinnumarkaðsmála í nánu samstarfi við heildarsamtök á vinnumarkaði. Stefnt er að því að grænbókin um vinnumarkað verði sömuleiðis kynnt vorið 2021. - Frumvörp sem styðja Lífskjarasamninginn lögð fram
Í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var út í tengslum við Lífskjarasamninginn verða frumvarp til starfskjaralaga, frumvarp til húsaleigulaga, frumvarp til laga um breytingar á gjaldþrotaskiptum (kennitöluflakk) og frumvarp um breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu lögð fram á haustþingi.
Athugasemdir