Í fyrri grein okkar um falskar minningar röktum við hvernig kenningar Elizbeth Loftus hafa verið notaðar í þeim tilgangi að draga úr trúverðugleika frásagna um kynferðisbrot gegn börnum og að verja þá sem fremja brotin. Við sögðum frá því að Loftus hafi verið sérfræðivitni verjenda í málum gegn einstaklingum sem sakaðir eru um kynferðisbrot, eins og til dæmis O. J. Simpson, Ted Bundy og Harvey Weinstein. Hingað til virðist ekki hafa verið skrifað um kenningar Loftus á þann gagnrýna hátt sem þeim ber hér á landi. Spurningin er hvort kenningar hennar séu kenndar í háskólum landsins án fyrirvara og hvort þær séu ríkjandi kennivald í íslenskum stofnunum. Í hinu fræga „biskupsmáli“ voru þær með markvissum og skipulegum hætti notaðar til varnar biskupnum.
„Biskupsmálið“ hið síðara
Í ágúst síðastliðnum var áratugur síðan DV birti fyrst allra fjölmiðla fréttir af því að dóttir Ólafs Skúlasonar hefði óskað eftir áheyrn kirkjuráðs til að greina frá kynferðisofbeldi hans gegn sér. Það var Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir sem vann fréttina og fyrirsögnin var Kirkjan leynir bréfi biskupsdóttur. Umrætt bréf sendi biskupsdóttirin, Guðrún Ebba, annar höfundur þessarar greinar, á vormánuðum árið 2009. Hún hafði stutt Sigrúnu Pálínu Ingvarsdóttur til að fá áheyrn kirkjuráðs vegna ásakana sinna um að Ólafur Skúlason hefði beitt hana kynferðisofbeldi. Sá hluti „biskupsmálsins“ var áberandi í fjölmiðlum undir lok síðustu aldar en fyrsta fréttin af því birtist í DV í febrúar árið 1996. Í frétt Ingibjargar Daggar um bréfið kemur fram að því hafi verið stungið ofan í skúffu. Hún varð hins vegar til þess að í kjölfarið varð kirkjuráð við beiðni Guðrúnar Ebbu nánast þegar í stað.
Þögnin rofin
Hinn 9. október 2011 sýndi RÚV langt viðtal sem Þórhallur Gunnarsson tók við Guðrúnu Ebbu og daginn eftir kom út bókin Ekki líta undan, sem þær Elín Hirst skrifuðu saman. Í tilefni af útgáfu bókarinnar stóðu fagráð um meðferð kynferðisbrota innan þjóðkirkjunnar, guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ auk Guðrúnar Ebbu fyrir málþingi 18. október 2011 undir yfirskriftinni Kynferðisleg misnotkun á börnum í trúarlegu sambandi. Aðalfyrirlesarinn var Marie Fortune guðfræðingur, sem stofnaði Faith Trust Institute í Seattle árið 1977 sem hún veitir forstöðu. Í máli Fortune kom meðal annars fram að valdaníð og kynferðisofbeldi sé ekki nýtt innan kristinna kirkna. Það sem sé nýtt í þessum efnum sé andspyrna þeirra sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. „Þögnin hefur verið rofin,“ sagði Fortune.
Ofbeldismaðurinn tekinn fram fyrir fórnarlambið
Fortune heldur því fram að það sé auðveldara fyrir samfélagið, eða kirkjuna í þessu sambandi, að standa með ofbeldismanninum af því að hann fer ekki fram á að við grípum til neinna aðgerða, einungis að við gerum ekkert. Fórnarlambið biður okkur hins vegar um að vera hugrökk, deila með sér áfallinu, sorginni og erfiðleikunum og aðstoða sig. Kirkjan neyðist til að taka afstöðu og alltof oft velur hún auðveldu leiðina og tekur upp hanskann fyrir ofbeldismanninn. Með því reynir kirkjan að draga úr ofbeldinu og jafnframt að finna leið til að kenna fórnarlambinu um, sem auðvitað gengur þvert gegn gildum hennar. Þetta aðgerðaleysi kallast á við kenningar sem Jennifer Freyd, prófessor í áfallasálfræði, hefur sett fram um áföll sem verða vegna þess að nákomnir og stofnanir sem einstaklingar setja traust sitt á, og eiga að geta treyst, bregðast (e. betrayal trauma). Eins og kemur fram í fyrri grein eru foreldrar Freyd hjónin Pamela og Peter Freyd sem stofnuðu False Memory Syndrome Foundation eftir að tengdasonur þeirra ásakaði Peter um að hafa beitt Jennifer kynferðisofbeldi í barnæsku.
Beðið um fyrirgefningu – eða hvað?
„Ég bið þær konur og börn, sem brotið hefur verið á af hálfu starfsmanna og þjóna kirkjunnar fyrirgefningar á þeirri þjáningu og sársauka sem þau hafa liðið“, sagði Karl Sigurbjörnsson biskup í setningarræðu prestastefnu árið 2009. Sama ár hafði hann hlýtt á sögu Guðrúnar Ebbu og fjölda kvenna sem höfðu sakað Ólaf Skúlason um áreitni og ofbeldi.
Fyrir síðustu jól birtist frétt um að Karl hefði þýtt bók eftir Desmond Tutu og Mpho Tutu um það „hvernig við fetum veg fyrirgefningarinnar“. Af fréttinni má greina hvaða hugmyndir liggja að baki, fyrirgefningin er nauðsynleg leið til að ná bata, losna við gremju og hún er „leiðarljós til farsælla lífs“. En svo segir: „Að fyrirgefa er ekki á færi þeirra sem eru veikgeðja.“
Hvaða skilaboðum er Karl, fv. biskup, að koma hér á framfæri? Eru þetta skilaboð til þeirra kvenna sem hann hefur beðið fyrirgefningar fyrir hönd kirkjunnar? Ef þær fyrirgefa ekki, eru þær þá veikgeðja?
Fyrirgefningarhugtakið er flókið og margslungið hugtak, það þarf alltaf að nota með valdatengsl í huga og innan þess ramma þarf að hafa kynjaðan veruleika okkar til viðmiðunar. Sáttaferlið í Suður-Afríku, sem Tutu leiddi, hefur einmitt verið gagnrýnt fyrir að hafa ekki innibundið hinn kynjaða veruleika og hefur verið kallað kappsfull útbreiðsla á hinni kristnu fyrirgefningarhugmynd á kostnað þolenda.
Karl tók aldrei afdráttarlausa afstöðu með þolendum í biskupsmálinu, hann mætti ekki á áðurnefnt málþing, og gaf ekki skýringar á fjarveru sinni, og ögraði ekki valdinu í hag þolenda. Fyrir þá sem trúa á fyrirgefninguna sem leið til sátta og/eða bata hlýtur alltaf að vera grunnforsenda að sá sem á að fyrirgefa axli fulla ábyrgð á gjörðum sínum. Að saka þolendur um að vera veikgeðja ef þær feta ekki leið fyrirgefningarinnar, hvort sem þær vilja það ekki eða geta það ekki, er hægt að kalla gaslýsingu.
„Falskar minningar“
Í samræmi við framangreint tóku ekki allir afhjúpun Guðrúnar Ebbu fagnandi. Móðir hennar og systkini sendu frá sér yfirlýsingu þar sem þau gerðu alvarlegar athugasemdir við frásögn hennar og hvöttu til „heiðarlegrar og faglegrar umræðu um bældar minningar“ í því sambandi. Bróðir hennar, Skúli S. Ólafsson, kom fram í Kastljósviðtali 7. nóvember 2011 og sagði systur sína „fórnarlamb falskra minninga“. Eiginkona hans, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, tók undir orð hans í viðtali við Mannlíf nokkrum mánuðum síðar og greindi frá því að hún, sem verið hafði hluti fjölskyldunnar í 20 ár, ætti „bara góðar minningar um tengdaföður“ sinn, Ólaf Skúlason. Reynir Harðarson sálfræðingur og Kristinn Jens Sigurþórsson prestur studdu þessa túlkun fjölskyldunnar opinberlega. Þeir komu fram í krafti menntunar sinnar og stöðu og leyfðu sér að dæma í málinu án þess að hafa svo mikið fyrir því að ræða við Guðrúnu Ebbu. Þeir vöruðu við nornaveiðum og að um látinn mann væri að ræða sem gæti ekki borið hönd fyrir höfuð sér.
Gunnar í Krossinum
Gunnar Þorsteinsson, löngum kenndur við Krossinn, greip til svipaðra varna þegar nokkrar konur stigu fram og ásökuðu hann um kynferðisbrot. Þær höfðu leitað til Thelmu Ásdísardóttur í Drekaslóð og sakaði Gunnar hana um að starfa eftir hugmyndafræði sem byggi á því að búa til falskar minningar.
Mál Jóns Baldvins
Aldís Schram hefur sakað föður sinn, Jón Baldvin Hannibalsson, um kynferðisbrot og hann getur svo sannarlega borið hönd fyrir höfuð sér. Jón Baldvin kennir dóttur sinni um að aðrar konur hafi stigið fram og greint frá kynferðisbrotum hans og segir að frásagnir þeirra eigi allar rætur að rekja til Aldísar sjálfrar. Móðir Aldísar, Bryndís Schram, hefur stutt eiginmann sinn dyggilega, nú síðast með útgáfu þriðju ævisögu sinnar, Brosað í gegnum tárin.
Hvaða hagsmuni erum við að verja?
Því miður er svo að margir, líkt og þær Marie Fortune og Jennifer Freyd segja fyrir um, kjósa að standa með ofbeldismanninum af því að það eina sem hann fer fram á er þögnin og aðgerðarleysið. Það þarf hins vegar hugrekki til að standa með þolendum, sérstaklega þegar gerandinn er valdamikil persóna. Við þurfum alltaf að vera meðvituð um hvaða hagsmuni við erum að verja, ekki síst þeir sem hafa þegið vald frá stofnunum samfélagsins; kirkjunni, æðstu menntastofnunum, ríkisfjölmiðlum, sýslumannsembættum eða lögreglu, þegar við tjáum okkur, tökum afstöðu og ákvarðanir.
Á Íslandi virðist enn talsvert langt í land með að þolendur njóti vafans.
Athugasemdir