Stjórnvöld hafa vítt svigrúm til að takmarka mannréttindi sem varin eru af stjórnarskrá og mannréttindasátttmála Evrópu, sem lið í að bregðast við til verndar lífi og heilsu manna í baráttu við hættulega smitsjúkdóma eins og COVID-19. Hið sama á við um réttindi einstaklinga og fyrirtækja samkvæmt ákvæðum EES-samningsins.
Þetta kemur fram í álitsgerð Dr. Páls Hreinssonar, forseta EFTA-dómsdólsins, sem unnin er að beiðni íslenskra stjórnvalda, um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaraðgerða.
Í þágu brýnna almannahagsmuna
Í álitsgerðinni kemur fram að margar sóttvarnarráðstafanir takmarki óhjákvæmilega mannréttindi. Um þessi réttindi gildi að jafnaði að víkja megi frá þeim í þágu brýnna almannahagsmuna, til að mynda verjast farsóttum til verndar lífi manna og heilsu þeirra. Stjórnvöldum sé ekki aðeins heimilt að grípa til ráðstafna við slíkar aðstæður heldur hvíli á þeim frumkvæðisskylda til að bregðast við farsóttum með virkum úrræðum til verndar lífi og heilsu manna.
Því verði að telja að stjórnvöld hafi töluvert svigrúm til þess að meta hvernig best sé að mæta slíkum faraldri, án þess að lögð sé sú skylda á stjórnvöld að byrja fyrst á vægari úrræðum. „Væri það gert afbrigðalaust væru mannslíf og heilsa almennings sett í hættu,“ segir í álitsgerðinni.
Hafa verði í huga að COVID-19 sé nýr smitsjúkdómur og þekking af mjög skornum skammti. Eftir því sem lengra líði verði hins vegar að ætla að kröfur aukist um að stjórnvöld rannsaki betur og afli upplýsinga um virkni þeirra ráðstafana sem gripið hefur verið til. Þá þurfi jafnframt að afla upplýsinga um það tjón sem slíkar aðgerðir hafa valdið. Með því ættu ráðstafanir að geta orðið markvissari.
Athugasemdir