Ungir umhverfissinnar, Landssamtök íslenskra stúdenta og Stúdentaráð Háskóla Íslands telja að aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum varpi byrðum á næstu kynslóð þar sem hún gangi of skammt. Þetta kemur fram í sameiginlegri umsögn um áætlunina sem birt var á Samráðsgátt stjórnvalda í dag.
Aðgerðaáætlun stjórnvalda var kynnt í júní og í henni kemur fram að stjórnvöld stefni að 40 prósent samdrætti í þeirri losun sem stjórnvöld bera ábyrgð á, vel umfram þau 29 prósent sem alþjóðlegar skuldbindingar segja til um á tímabilinu 2005 til 2030. Þá er stefnt að kolefnishlutleysi Íslands árið 2040.
Þessi samtök ungs fólks, sem meðal annars hafa tekið þátt í loftslagsverkföllum, vilja hins vegar setja hærra markmið um samdrátt, 50 prósenta samdrátt í heildarlosun ásamt landnotkun fyrir árið 2030. „Með því að stefna einungis að 35 prósent samdrætti í ESR losun á áratugnum 2020-2030 þá er verið að skilja eftir hin 65 prósentin fyrir áratuginn þar á eftir, 2030-2040. Það er óábyrgt að varpa þannig meirihluta byrðarinnar yfir á næstu kynslóð. Þó að núverandi áætlun hljóði upp á 35% samdrátt í ESR losun þá er hún einungis 9% samdráttur í heildarlosun ásamt landnotkun og ETS,“ segir í umsögninni.
„Loftslaginu er sama hvaðan losunin kemur“
Svokölluð heildarlosun frá Íslandi, það er losun sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda og sú sem fellur undir viðskiptakerfi ESB sem Ísland á aðild á, hefur aukist töluvert undanfarna áratugi. Benda samtökin á að sú losun á Íslandi, auk losunar frá landnotkun, setji Ísland í flokk þeirra ríkja sem losa hvað mest á heimsvísu. „Við viljum að horft sé á heildarlosun!“ segir í umsögninni. „Enda búum við öll á þessari plánetu með allri þeirri losun sem á sér stað sama hvernig pólitíkusar flokka hana niður. Loftslaginu er sama hvaðan losunin kemur.“
Vilja að 4 prósent landsframleiðslu fari til málaflokksins
Þá telja samtökin að of litlu fjármagni sé úthlutað í málaflokkinn samkvæmt nýrri áætlun stjórnvalda og þeirri fyrri frá árinu 2018. „Gangi þetta eftir er fjármagn eyrnamerkt loftslagsmálum 1850 milljónir á ári en heildartekjur ríkissjóðs 2020 eru 908.689 milljónir samkvæmt fjárlögum. Eyrnamerktur peningur fyrir loftslagsaðgerðir eru þá u.þ.b. 0,2% af heildartekjum á ári ef miðað er við heildartekjur 2020.“
Benda samtökin á að samkvæmt sviðsmynd OECD fyrir hnattræna hlýnun upp á 2 gráður sé áætlað að árlegar fjárfestingar þurfi að nema því sem samsvarar 6 prósent af landsframleiðslu heimsins, annars vegar 4 prósent vegna samgönguinnviða og annarra innviða og hins vegar 2 prósent vegna orkuvinnslu og orkunýtni.
„Á Íslandi hefur þegar verið tekin upp endurnýjanlega orkuvinnsla og því standa eftir fjárfestingar vegna samgönguinnviða og annara innviða,“ segir í umsögninni. „Við viljum að þessi tala, 4%, verði höfð að leiðarljósi þegar gerð er aðgerðaráætlun í loftslagsmálum. Við viljum að sett séu fram margfalt öflugri aðgerðir þannig áætlunin skili fjórfalt meiri árangri, eða árlegum samdrætti í nettó losun um 700 kt CO2 ígilda svo 50% samdráttur í heildarlosun ásamt landnotkun náist fyrir árið 2030.“
Athugasemdir