Engin manneskja á sorgina, sársaukann, samúðina og samkenndina alein að því marki sem við eigum kost á að upplifa það sem manneskjur að finna til með öðrum. Að finna til með barnafjölskyldu sem hingað kemur frá öðru landi, flýr pólitíska ógn og harðneskju í leit að skjóli og vernd en stendur svo berskjölduð frammi fyrir ákvörðun stjórnvalda um synjun. Mál Khedr- fjölskyldunnar hefur vakið sterk viðbrögð meðal almennings ekki síst í ljósi þess að um börn er að ræða sem hér hafa fest rætur.
Magnús D. Norðdahl lögmaður egypsku fjölskyldunnar segir Útlendingastofnun hafa afhjúpað hversu hroðvirknislega er staðið að mati á hagsmunum barna á flótta. Hann ítrekar þá ofbeldishættu sem búin er 10 ára dóttur egypsku hjónanna vegna brottvísunar: „Fyrir liggur að stúlkan er frá landi þar sem kynfæralimlestingar eru hvað algengastar í veröldinni.“ Þetta hafi ekki verið nefnt einu orði í mati á hagsmunum barnsins þrátt fyrir að það sé staðfest vitneskja. Magnús segir að stofnuninni beri lagaleg skylda til að framkvæma sjálfstætt mat á hagsmunum stúlkunnar á grundvelli barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, barnalaga og rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra segir ekki við kerfið að sakast í máli egypsku fjölskyldunnar. Eins og fram hefur komið í samtali ráðherra við þjóðina er reglugerðum ekki breytt í samræmi við einstök mál. Það breytir því samt ekki að einstök mál eru einmitt það sem við höfum til marks um hvernig kerfið rækir hlutverk sitt eða bregst í því.
Ísland er á toppi svokallaðs Kids Rights Index 2020 og hefur það verið túlkað þannig að hér sé best í heiminum að vera barn. Þetta kann að vera rétt í þeim tilvikum þar sem börn búa við góð skilyrði almennt, eiga foreldra sem tryggja þeim öryggi og góðan aðbúnað. Í skýrslu um barnaréttarstaðalinn er bent á tilteknar brotalamir í öllum þeim löndum sem tekin eru með í útreikninginn. Meðal annars að innleiðingu og fylgni við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sé ábótavant í lagaframkvæmd og að hefðbundin viðhorf um börn hamli því að þeirra raddir hafi vægi í málum er varða þau sjálf. Sérstaklega eru nefnd viðhorf um að börn eigi ekki að njóta sjálfstæðs réttar til að tjá sínar skoðanir, viðhorf sem beinast oftar en ekki frekar að stúlkum. Þessi gagnrýni á þjóðríkin á sér augljósan samhljóm við inntakið í gagnrýni lögmanns Khedr-fjölskyldunnar, á hvernig staðið var að mati á hagsmunum barnanna.
Undir hatti rannsóknarreglu stjórnsýslulaga virðist málsmeðferð ónæm á lífsaðstæður barna sem eru í hættu á ofbeldi. Að þessu leyti eru mannréttindi barna veik gagnvart framkvæmd og löggjöf um stjórnsýslu.
Flest bendir raunar til þess að mat á áhrifum ofbeldis á hagsmuni barna sé eitthvað sem íslenska kerfið ræður alls ekki við. Sýslumaður lítur kerfisbundið framhjá vísbendingum um heimilisofbeldi og kynferðisbrot við ákvörðun um umgengni og dagsektir. Þessi framkvæmd stjórnsýslunnar, ásamt ákvörðun dómara um forsjá barna í ofbeldishættu, er tilefni þess að samtökin Líf án ofbeldis hafa krafist þess að sjónarmið Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna séu virt í réttarákvörðun sýslumanna, dómara og dómsmálaráðuneytis. Samtökin hafa einnig gert þá kröfu til dómsmálaráðherra að hún tryggi að réttur barna til að hafa skoðun á sínum lífsaðstæðum sé virtur og þau njóti sannarlega lögbundins réttar til verndar frá hvers kyns ofbeldi.
Ísland fullgilti árið 2012 Evrópuráðssamning um vernd barna gegn kynferðisofbeldi og sameiginleg markmið þar um, sama hver brotamaðurinn kann að vera. Félags- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason fullgilti svonefndan Istanbúl- samning, um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi árið 2018. Samkvæmt þeim samningi ber stjórnvöldum að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að tekið sé tillit til ofbeldisbrota við ákvörðun forsjár og umgengnisréttar við börn, en einnig að nýting þess réttar stefni ekki réttindum og öryggi þolenda ofbeldis eða barna í hættu. Lítil merki eru um að þessar skuldbindingar stjórnvalda hafi raungerst. Konum og börnum sem greina frá ofbeldi í forsjár- og umgengnismálum er mætt með tortryggni af lagakerfinu.
Árið 2019 vill dómsmálaráðuneytið að börn sem endurtekið hafa lýst kynferðislegri misnotkun af hálfu föður í Barnahúsi séu hvött til að umgangast hann.
Árið 2020 er manni sem sjálfur hefur viðurkennt að hafa brotið kynferðislega gegn fimm ára barni og sterkar vísbendingar eru um að hafi brotið gegn barni sínu, veitt full forsjá í héraðsdómi yfir sama barni.
Árið 2019 var karlmaður dæmdur til sjö ára fangelsisvistar fyrir að nauðga barni sínu og brjóta gegn því ítrekað kynferðislega með öðrum hætti þegar það var fimm til ellefu ára. Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa káfað á kynfærum barnsins og látið það káfa á kynfærum sínum, fyrir að hafa nauðgað því þar til hann hafði sáðlát og fyrir að sýna barninu klámfengið myndefni í tölvu, ýmist af fullorðnu fólki eða af fullorðnum karlmönnum að beita börn kynferðislegu ofbeldi. Þrátt fyrir sakfellingardóminn fer maðurinn einn með forsjá annars ólögráða barns en barnaverndarnefnd Reykjavíkur hefur metið það svo að því barni stafi engin hætta af því að búa með föður sínum.
Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndarstofu hefur lýst aðstæðum í kerfinu þannig að heimildir skorti til að greina hvort barnaverndaryfirvöld viti hvort einhver er hættulegur. Það hefur þó komið fram í fjölmiðlum að áhættumat fór fram í tengslum við forsjá í fyrrnefndu máli og var niðurstaðan sú að barninu stafi ekki hætta af því að búa með föður sínum, þó að hann hafi brotið gegn eldra systkini barnsins sem er af sama kyni, þegar það var á svipuðum aldri.
Í ákvæði við barnaverndarlög kemur fram að óheimilt er að ráða til starfa hjá barnaverndaryfirvöldum einstakling með refsidóm vegna kynferðisbrota. Af fyrrnefndu má ráða að barnaverndarnefndir skortir ekki lagaheimildir til að ákvarða að barn sé ekki í hættu, ef dæmdur kynferðisbrotamaður er faðir barnsins. Nú ættu flestir hugsa, ef sjö ára refsidómur föður fyrir kynferðisbrot er ekki nóg til að barn njóti verndar og vafans um hættu á ofbeldi, hvað þarf þá til? Réttur barns til verndar frá ofbeldi er greinilega hverfandi í núverandi framkvæmd barnaverndarlaga. Hvað sem líður túlkun einstaka fulltrúa kerfisins á lagaheimildum, er það engu að síður skilningur almennings að lögbundið hlutverk barnaverndaryfirvalda sé fyrst og fremst að vernda börn.
„Ef ríkisstjórnin ætlar að standa vörð um tilvist regluverks sem kann ekki að meta mannréttindi barna hver á þá að vernda börnin frá ríkisvaldinu?“
Ráðherra barnaverndar á Íslandi, Ásmundur Einar Daðason, segist samt ekki ætla beita sér í máli egypsku fjölskyldunnar og ætlar að treysta á dómsmálaráðherra til að greiða úr því. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra segir að ekki sé við kerfið að sakast um niðurstöðuna og það eigi ekki vera í höndum pólitíkusanna að meta einstök mál. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra setur fram villandi tölfræði um málefni flóttafólks síðustu árin, að því er virðist til að fegra frammistöðu VG í málefnum flóttafólks almennt. Þetta eru ekki bara ömurleg viðbrögð heldur eru þau ótrúleg. Kjörið forsvarsfólk kerfisins keppist við að verja stöðu sína, pólitíska stefnu og kerfið sjálft eins og til að búa til tilfinningalega fjarlægð frá raunveruleika barna sem eru í yfirvofandi hættu á að vera beitt grófu ofbeldi. En kerfið hefur ekki sjálfstæðan tilvistarrétt og óumflýjanlegan tilgang umfram það að gagnast lifandi fólki. Ef ríkisstjórnin ætlar að standa vörð um tilvist regluverks sem kann ekki að meta mannréttindi barna hver á þá að vernda börnin frá ríkisvaldinu?
Athugasemdir