„Sjaldan hefur fjárfestingakostur sjóðsins verið rýndur með jafn ítarlegum hætti og hlutafjárútboð Icelandair,“ segir Stefán Sveinbjörnsson, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, í yfirlýsingu sem barst rétt í þessu vegna ákvörðunar fjármálaeftirlits Seðlabankans um að hefja formlega könnun á útboði Icelandair.
Fjárfestar skráðu sig fyrir 37,3 milljörðum króna í útboði Icelandair sem lauk í síðustu viku, en samkvæmt niðurstöðu greiningar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna var ekki áhættunnar virði að fjárfesta í félaginu.
Sniðgengu útboð Icelandair
Lífeyrissjóður verzlunarmanna, stærsti eigandi Icelandair, tók ekki þátt í hlutafjárútboði flugfélagsins, en fyrr á árinu höfðu stjórnarmenn í VR, sem tilnefnir 4 af 8 stjórnarmanna lífeyrissjóðsins, lýst yfir sniðgöngu í hugsanlegu hlutafjárútboði Icelandair vegna aðgerða fyrirtækisins gegn starfsfólki í kjarabaráttu, en Icelandair sagði upp öllum flugfreyjum og flugþjónum í miðri kjarabaráttu. Tilkynnt var á vef sjóðsins að stjórn sjóðsins hefði ákveðið að taka ekki þátt í hlutafjárútboðinu.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri telur hins vegar ákvörðun um einstaka fjárfestingar ekki eiga vera tekna af stjórn sjóðs sem skipuð er af hagsmunasamtökum og stéttarfélagi. Ásgeir tilkynnti um ákvörðun fjármálaeftirlitsnefndar, sem hann er formaður fyrir, í morgun og gagnrýndi þar starfshætti lífeyrissjóði, nánar tiltekið út frá því að sjálfstæði stjórnarmanna væri ótryggt. „Við erum með stjórnir lífeyrissjóðunum sem skipaðar eru hagsmunaaðilum sem eru að taka ákvarðanir um fjárfestingar, sem að mínu viti ættu að vera teknar annars staðar, heldur en af þessum aðilum,“ sagði hann. „Fjármálaeftirlit Seðlabankans telur að útboðið sem slíkt og framkvæmd þess gefi tilefni til umhugsunar um fyrirkomulag við ákvarðanatöku þegar kemur að einstökum fjárfesingum lífeyrissjóðanna.“
Icelandair féll í faglegri greiningu
Stefán Sveinbjörnsson, formaður sjóðsins sem átti stærstan hlut í Icelandair og ákvað engu að síður að sniðganga hlutafjárútboð fyrirtækisins, lýsir því hins vegar að ákvörðunin hafi verið tekin á faglegum forsendum. Eitt af því sem horft var til var stjórnhættir félagsins.
„Lífeyrissjóður verzlunarmanna fór í mjög ítarlega greiningu á þessum fjárfestingakosti. Sú greining fól meðal annars í sér að fenginn var utanaðkomandi ráðgjafi til að rýna fjárfestingakostinn, haldnir voru fundir með stjórnendum Icelandair, sendar voru skriflegar spurningar til félagsins, farið var í rýnivinnu með sérfræðingum (e. airline specialists) hjá Bloomberg, rýnt var í greiningarefni úr fluggeiranum, rýnt var í ársreikninga erlendra flugfélaga og fenginn var erlendur ráðgjafi til að rýna í umhverfisþætti, félagslegaþætti og stjórnhætti félagsins. Til viðbótar þessu stillti lífeyrissjóðurinn í samstarfi við ráðgjafa sinn upp verðmatslíkani til að meta vænta ávöxtun af fjárfestingunni,“ segir Stefán í yfirlýsingu sinni.
„Niðurstaðan var að áhættan í fjárfestingunni væri mikil“
Þá segir hann að niðurstaðan hefði verið að of mikil áhætta en of lítil vænt ávöxtun væri af því að fjárfesta í Icelandair.
„Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hélt fjóra stjórnarfundi þar sem þessi fjárfesting var skoðuð og rædd ítarlega. Niðurstaðan var að áhættan í fjárfestingunni væri mikil og vænt ávöxtun vægi ekki upp þá áhættu. Á þeim forsendum var tekin ákvörðun um að taka ekki þátt í útboðinu. Eins og fram hefur komið voru fleiri lífeyrissjóðir á sömu skoðun og Lífeyrissjóður verzlunarmanna að taka ekki þátt.“
Yfirlýsing frá formanni stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna
Lífeyrissjóður verzlunarmanna tók ekki þátt í nýafstöðnu hlutafjárútboði Icelandair, eins og fram hefur komið. Vegna umfjöllunar um hlutafjárútboðið í fjölmiðlum vil ég koma á framfæri eftirfarandi.
Á vormánuðum kom fram að Icelandair ætlaði að fara í hlutafjárútboð. Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur verið einn stærsti hluthafi í Icelandair undanfarin ár og var strax ljóst að sjóðurinn þyrfti að taka afstöðu til þess hvort hann ætlaði að taka þátt í útboðinu eða ekki. Ljóst var að um óvenjulegt útboð væri að ræða þar sem hlutafjáraukningunni var ætlað að mæta taprekstri komandi mánaða.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna fór í mjög ítarlega greiningu á þessum fjárfestingakosti. Sú greining fól m.a. í sér að fenginn var utanaðkomandi ráðgjafi til að rýna fjárfestingakostinn, haldnir voru fundir með stjórnendum Icelandair, sendar voru skriflegar spurningar til félagsins, farið var í rýnivinnu með sérfræðingum (e. airline specialists) hjá Bloomberg, rýnt var í greiningarefni úr fluggeiranum, rýnt var í ársreikninga erlendra flugfélaga og fenginn var erlendur ráðgjafi til að rýna í umhverfisþætti, félagslegaþætti og stjórnhætti félagsins. Til viðbótar þessu stillti lífeyrissjóðurinn í samstarfi við ráðgjafa sinn upp verðmatslíkani til að meta vænta ávöxtun af fjárfestingunni. Sjaldan hefur fjárfestingakostur sjóðsins verið rýndur með jafn ítarlegum hætti og hlutafjárútboð Icelandair.
Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hélt fjóra stjórnarfundi þar sem þessi fjárfesting var skoðuð og rædd ítarlega. Niðurstaðan var að áhættan í fjárfestingunni væri mikil og vænt ávöxtun vægi ekki upp þá áhættu. Á þeim forsendum var tekin ákvörðun um að taka ekki þátt í útboðinu. Eins og fram hefur komið voru fleiri lífeyrissjóðir á sömu skoðun og Lífeyrissjóður verzlunarmanna að taka ekki þátt.
Hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna er fagmennskan í fyrirrúmi og teknar eru ákvarðanir þar sem gætt er jafnræðis sjóðsfélaga. Í þessu máli sem öðrum réð fagmennska og hagsmunir sjóðfélaga því hvort sjóðurinn bætti við þá hlutafjáreign sem fyrir var í þessu tiltekna félagi.
Stefán Sveinbjörnsson, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna
Athugasemdir