Hópur mótmælenda safnaðist saman fyrir utan dómsmálaráðuneytið í dag og gekk þaðan fylktu liði á Austurvöll og tók sér stöðu fyrir utan Alþingishúsið. Vildu mótmælendur lýsa yfir stuðningi með Kehdr-fjölskyldunni, sem hefur verið í felum eftir að ákvörðun var tekin um að vísa henni úr landi.
„Áslaug Arna, martröð barna!,“ hrópuðu mótmælendurnir og héldu á fána sem á stóð „Break the isolation“ með skammstöfunina ÚTL, fyrir Útlendingastofnun, yfirstrikaða. Lögregla fylgdist með mótmælunum, sem fóru eftir því sem best var séð friðsamlega fram.
Stoðdeild ríkislögreglustjóra hefur leitað að Kehdr fjölskyldunni undanfarna viku. Fjölskyldan, sem samanstendur af foreldrum og fjórum börnum á aldrinum tveggja til tólf ára, hefur dvalið hér á landi í yfir tvö ár, eftir að hafa sótt um alþjóðlega vernd í ágúst 2018. Faðirinn Ibrahim á á hættu að verða fyrir ofsóknum vegna pólitískrar þátttöku sinnar, verði hann sendur til Egyptlands. Hann þjáist af háþrýstingi og móðirin Dooa er með vanvirkan skjaldkirtil og þjáist af alvarlegu þunglyndi og kvíða. Elstu börnin þrjú hafa gengið í skóla hér á landi og tala orðið íslensku en yngsti drengurinn, Mustafa, hefur gengið í leikskóla.
Athugasemdir