Skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar gagnrýnir harðlega tillögu mennta- og menningarmálaráðuneytisins að breytingu á viðmiðunarstundaskrá í grunnskólum landsins. Í tillöguna vanti að mati ráðsins skýrar áætlanir um boðaðar áherslubreytingar, ekki liggi fyrir fjárhagsleg greining á kostnaði og leiða megi líkum að því að tillagan brjóti gegn lögum um grunnskóla. Sömu afstöðu lýsir umboðsmaður barna, Landssamtökin Þroskahjálp og Samband íslenskra sveitarfélaga, auk annarra.
Tillaga að breytingum á viðmiðunarstundarskrá grunnskóla var birt í samráðsgátt stjórnvalda 26. ágúst síðastliðinn. Þar kemur fram að viðmiðunarstundarskráin hafi verið óbreytt allt frá gildistöku aðalnámskrár grunnskóla árið 2011. Tilefni breytinga nú sé að unnið sé að mótun menntastefnu til ársins 2030, þar sem meðal annars eigi að auka vægi íslenskukennslu og náttúrufræði. Er í tillögunni bent á „viðvarandi slakan árangur í íslensku og náttúrufræði sem hefur birst í niðurstöðum PISA“.
Skera valfög niður við trog
Í tillögunni er gert ráð fyrir að auka talsvert tíma til íslenskukennslu í 1.-7. bekk grunnskóla. Til þess að svo megi verða á að skera niður allan tíma í þeim bekkjum sem hingað til hefur verið eyrnamerktur valfögum. Alls er verið að skera valtíma í 1.-4. bekk niður úr fimm klukkustundum á viku og niður í ekki neitt. Í 5.-7. bekk hefur valtími verið tvær klukkustundir og fjörutíu mínútur en verður enginn ef tillagan verður samþykkt.
Þá er gert ráð fyrir að tvöfalda þann tíma sem fer til náttúrufræðikennslu í 8.-10. bekk. Til að svo megi verða þarf að skerða þann tíma sem hingað til hefur farið í valgreinar um sex klukkustundir á viku og yrði hann þá 8,5 klukkustundir í stað 14,5 klukkustunda.
Gengur gegn lögum um grunnskóla
Í lögum um grunnskóla segir í 26. grein, sem fjallar um val í námi, að frá upphafi grunnskóla skulu nemendur eiga val í námi sínu. Markmiðið sé að gera nemendur ábyrga fyrir eigin námi og skapa sveigjanleika í skólastarfi.
Þá segir í sömu grein að í 8.-10. bekk skulu nemendur velja námsgreinar og námssvið í allt að fimmtung námstímans. Verði tillaga mennta- og menningarmálaráðuneytisins samþykkt færi sá tími sem gæfist í val á unglingastigi hins vegar niður í 11 prósent námstímans.
„Gerir umboðsmaður barna athugasemdir við að lagðar séu til breytingar sem séu til þess fallnar að auka frekar á vanlíðan“
Á þetta er bent í umsögn skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar. Þar er einnig bent á að rík krafa sé í samfélaginu öllu um sveigjanleika og að rannsóknir bendi eindregið til að áhugahvöt sé stór þáttur í námsánægju og árangri í námi, sérstaklega hjá eldri nemendum. „Það skýtur því skökku við að leggja til að helminga möguleika skóla og nemenda til vals á unglingastigi og fjarlægja allan sveigjanleika varðandi val á yngsta- og miðstigi grunnskóla. Í tillögunni er það langt gengið í skerðingu á vali að spyrja má hvort í reynd sé verið að taka úr sambandi 26. grein grunnskólalaganna því framkvæmdin endurómar trauðla lagatextann.“
Segja tillöguna ganga þvert á fyrirliggjandi samkomulag
Í umsögn umboðsmanns barna um tillöguna, hvað varðar skerðingu á vali, segir að tillögur ráðuneytisins gangi þvert gegn markmiðum aðalnámskrár um valgreinar. Rannsóknir hafi þá á síðustu árum sýnt fram á vaxandi kvíða og andlega vanlíðan íslenskra ungmenna. „Með hliðsjón af þeirri stöðu gerir umboðsmaður barna athugasemdir við að lagðar séu til breytingar sem séu til þess fallnar að auka frekar á vanlíðan enda ljóst að valgreinar skipta ungmenni oft miklu máli og eru mikilvæg tækifæri fyrir þau til þess að sinna eigin hugðarefnum innan skólans sem hluta af eigin námi.“
„Það er algjört grundvallaratriði í umbótum að gera ekki meira af því sem ekki er nægjanlega vel gert“
Samband íslenskra sveitarfélaga bendir á í umsögn um tillöguna að fækkun kennslustunda í valgreinum kunni að leiða til fækkunar kennslustunda í list- og verkgreinum, sem gangi þvert á samkomulag mennta- og menningamálaráðherra, Samtaka iðnaðarins og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem undirritað var 25. febrúar síðastliðinn.
Þá lýsa Landssamtökin Þroskahjálp áhyggjum af því að skerða eigi valfrelsi nemenda og fjölbreytni í námi. Telja landssamtökin „að ekki hafi verið færð rök fyrir því í greinargerð að aukinn tími í íslensku og náttúrugreinum muni leiða til betri frammistöðu í þessum greinum í PISA könnunum.“
Engin greining gerð á vandanum
Í umsögn skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar eru enn fremur tíunduð fleiri atriði sem ráðið gagnrýnir í tillögunni. Þannig er tiltekið að fjölgun kennslustunda í náttúrufræði myndi hafa í för með sér að enn færri kennslustundum yrði stýrt af fagmenntuðum kennurum, aðeins fimmtungi kennslustunda. Viðvarandi skortur sé á kennurum með fagmenntun í náttúrufræðigreinum og engar leiðir séu kynntar í tillögunni til að bregðast við þeirri stöðu.
Þá sé ekki lagt mat á það hvort núverandi kennsluefni sé sé nægjanlegt eða fullnægjandi og ekki heldur hvort til staðar sé fullnægjandi aðstaða í skólum til aukinnar náttúrufræðikennslu, né fjárhagsleg greining á kostnaði sveitarfélaganna vegna mögulegra úrbóta þar á.
Þá sé almennt ekki gerð greining á því hvar skóinn kreppi í kennslu í náttúrufræðigreinum eða íslensku, svo bæta megi árangur íslenskra unglinga í PISA prófunum. „Það er algjört grundvallaratriði í umbótum að gera ekki meira af því sem ekki er nægjanlega vel gert.“
„Um viðvarandi slakan árangur menntakerfisins er að ræða, ekki nemenda“
Í sama streng taka Landssamtökin Þroskahjálp, sem gera athugasemd við að gengið sé út frá því að vandamálið sé „viðvarandi slakur árangur nemenda“. Fremur eigi að rýna og endurskoða kennsluaðferðir og umgjörð náms heldur en að svipta nemendur kosti á einstaklingsmiðuðu námi, þar sem þeir hafi tækifæri til að velja námsgreinar eftir áhugasviði og hæfileikum.
Umboðsmaður barna gerir athugasemdir við sama orðalag og „áréttar að um viðvarandi slakan árangur menntakerfisins er að ræða, ekki nemenda“. Ekki séu færð fram tök fyrir því að fjölgun kennslustunda ein og sér komi til með að bæta árangur nemend á kostnað valfrelsis og fjölbreytni og ekki komi fram að til standi að taka upp nýstárlegar eða fjölbreyttari kennsluaðferðir, heldur eigi eingöngu að fjölga kennslustundum. „Ekki eru færð fram nein rök fyrir því að betri árangur náist með þessu móti.“
Athugasemdir