„Við erum með stjórnir lífeyrissjóðunum sem skipaðar eru hagsmunaaðilum sem eru að taka ákvarðanir um fjárfestingar, sem að mínu viti ættu að vera teknar annars staðar, heldur en af þessum aðilum,“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundi um fjármálastöðugleika í Seðlabankanum í morgun.
Ásgeir, sem samhliða því að vera seðlabankastjóri er formaður fjármálaeftirlitsnefndar bankans, í kjölfar sameiningar Fjármálaeftirlitsins við bankann í ársbyrjun, tilkynnti að fjármálaeftirlit Seðlabankans hefði hafið formlega könnun á útboði Icelandair Group.
„Fjármálaeftirlit Seðlabankans telur að útboðið sem slíkt og framkvæmd þess gefi tilefni til umhugsunar um fyrirkomulag við ákvarðanatöku þegar kemur að einstökum fjárfesingum lífeyrissjóðanna,“ sagði hann.
Fjármálaeftirlit Seðlabankans hefur „fylgst náið með“ útboði Icelandair Group og hefur nú hafið formlega könnun á framkvæmdinni. „Könnunin nær til beggja aðila,“ sagði Ásgeir og vísaði þar til fjárfesta sem og Icelandair. „Eftirlitið hefur kallað eftir gögnum, eftir atvikum og er nú að kanna framkvæmd þess. Að svo komnu máli er ekki hægt að segja neitt fleira um þessa könnun, annað en að hún er farin af stað. Og ég get heldur ekki tjáð mig um einstaka sjóði, eða eitthvað álíka, bara að þessi könnun er farin af stað. Þannig að ekki koma með einhverjar spurningar um það hér á eftir.“
Könnunin er á forræði fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands. Í byrjun árs sameinaðist Fjármálaeftirlitið Seðlabankanum og er nú hluti af honum. Ásgeir segir að Fjármálaeftirlitið hafi einnig í fyrra lýst áhyggjum af samþykktum lífeyrissjóðanna og ákvarðanatöku þeirra, með tilliti til sjálfstæðis stjórnarmanna.
„Sumarið 2019 hafði eftirlitið áhyggjur af því að samþykktir sjóðanna uppfylltu ekki nægilega ströng skilyrði til þess að tryggja sjálfstæði stjórnarmanna og sendi meðal annars bréf þess efnis. Þetta bréf hefur verið ítrekað núna. Að sjóðirnir endurskoði samþykktir sínar til þess að tryggja sjálfstæði stjórnarmanna. Mín skoðun er sú hins vegar að það þurfi að skoða allt ferlið upp á nýtt,“ sagði Ásgeir og vísar til þess að hagsmunaaðilar í stjórnum taki ákvarðanir um fjárfestingar.
„Það hefur byggt á ákveðnu heiðursmannasamkomulagi á milli þeirra sem má velta fyrir sér hvort haldi“
Ásgeir vill að lagaumhverfi lífeyrissjóðanna verði breytt. „Þetta kerfi var byggt upp í ákveðinni sátt á milli aðila vinnumarkaðarins. Það hefur byggt á ákveðnu heiðursmannasamkomulagi á milli þeirra sem má velta fyrir sér hvort haldi. Og í ljósi þess hvað þetta eru gríðarlega miklir peningar, hvað þetta eru miklir hagsmunir fyrir þjóðina, má aðeins velta fyrir sér hvort það þurfi ekki að endurskoða þetta fyrirkomulag. Auðvitað geta verkalýðsfélög og atvinnurekendur einstaka fyrirtækja haft ákveðnar skoðanir á þessum hlutum, en það verður þá að koma fram með almennum hætti, ekki í ákvörðunum um einstaka fjárfestingakosti.“
Athygli vakti að Lífeyrissjóður verzlunarmanna, stærsti hluthafi Icelandair, kaus að taka ekki þátt í útboði Icelandair í síðustu viku, á þeim forsendum að það væri ekki áhættunnar virði. Tekin var ákvörðun á stjórnarfundi Lífeyrissjóði verzlunarmanna um að fjárfesta ekki í Icelandair.
Áður hafði stjórn VR tilkynnt að hlutafjárútboð Icelandair ætti að vera sniðgengið af sjóðnum, eftir að Icelandair sagði upp öllum flugfreyjum og flugfreyjum í tilraun til að styrkja samningsstöðu sína gegn starfsmönnum.
„Stjórn VR, sem jafnframt á sæti í fulltrúaráði Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, beinir þeim tilmælum til þeirra stjórnarmanna sem VR skipar í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna að sniðganga eða greiða atkvæði gegn þátttöku í væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair.“ Þá sagði í tilkynningunni að VR geti ekki sætt sig við að „eftirlaunasjóðir launafólks séu notaðir til fjárfestinga í fyrirtækjum sem hvetja til félagslegra undirboða. Það stríðir gegn öllum þeim gildum sem verkalýðshreyfingin stendur fyrir“.
Stjórn lífeyrissjóðsins er skipuð átta stjórnarmönnum og eru fjórir þeirra tilnefndir af stjórn VR, en fjórir af samtökum atvinnurekendum sem standa einnig að sjóðnum. Stjórnarmönnum VR í stjórn sjóðsins var skipt út í fyrra í kjölfar „trúnaðarbrests“ eftir að Lífeyrissjóður verzlunarmanna ákvað að hækka vexti á húsnæðislánum þvert á fyrri viðmiðunarreglu. Fjármálaeftirlitið sagði ákvörðun VR vega að sjálfstæði stjórnarmanna sjóðsins.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur lagt til að félagsmenn kjósi stjórnarmenn lífeyrissjóðanna beint.
Stefán Sveinbjörnsson, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann lýsir faglegu ferli innan sjóðsins við að greina Icelandair sem fjárfestingarkost. Hann segir greininguna hafa leitt í ljós að ekki væri áhættunnar og ávöxtunarinnar virði að fjárfesta í Icelandair.
Athugasemdir