Að kljást við verki í líkamanum er ömurlegt. Að kljást við óútskýrða verki er enn verra. Að kljást við verki sem ekki tekst að finna lausn við er óbærilegt.
Við slíkan fjanda hefur pistlaritari þurft að glíma um nokkurra mánaða skeið. Því sem næst allt í einu, snemma í sumar, vaknaði ég við gríðarmikla verki, í bókstaflegum skilningi, því ég gat ekki sofið heila nótt fyrir kvölum. Verkirnir voru vítt og breitt um bak, háls og herðar, leiddu út í hendur og niður í fót. Eftir að hafa reynt að harka af mér um nokkra hríð var ekki annað að gera en að leita til læknis.
Þá brá hins vegar við að minn góði heimilislæknir gat engar skýringar fundið á krankleika mínum. Síðan þá hef ég sótt sjúkraþjálfun og brutt sterk bólgueyðandi lyf, farið í rannsóknir og beðið niðurstaðna til að fá bót á meinum mínum. Þó heldur hafi þetta allt hjálpað erum ég og læknirinn minn enn grunlausir um hvað það er sem veldur angri mínu. Ég er þó bjartsýnn á að lausn finnist.
Það sést ekki utan á öllu fólki að það gangi um kvalið í dagsins önn. Þannig eru ýmsir sjúkdómar sem fólk glímir við, einkum konur, því sem næst ósýnilegir, svo sem vefjagigt eða legslímuflakk. Eftir reynslu síðustu mánaða verð ég að segja að þolgæði fólks sem við slíka sjúkdóma glímir er með fullkomnum ólíkindum. Við hlið fólks sem glímt hefur við slíkt árum eða jafnvel áratugum saman blikna mín vandamál.
Við höfum oft haft það orð á okkur, Íslendingar, að vera harðgerð og með hrjúft skapferli. Þannig var, og er kannski enn, ekki óalgengt að fólk sem er óvinnufært sökum ósýnilegra veikinda væri sagt latt eða sérhlífið. Sé það enn álit fólks að svo sé er ég tilbúinn til að leiða viðkomandi í allan sannleik um að þau sem glíma við slíka sjúkdóma eru grjótharðar hetjur, hvorki meira né minna.
Athugasemdir