Það var áhugavert að verða vitni af því hversu nákvæma peningastefnu Seðlabankinn hefur tileinkað sér á síðasta fundi Efnahags- og viðskiptanefndar. Seðlabankastjóri var gestur nefndarinnar þar sem fulltrúar Alþingis fá tækifæri til að eiga samtal um peningamál, væntingar og aðgerðir Seðlabankans. Smári McCarthy lagði fram spurningu um fjárfestingar ríkisins almennt. Í svari seðlabankastjóra vísaði hann til Sundabrautar; framkvæmdar sem honum þótti ámælisvert að væri ekki komin lengra.
Fyrir okkar smáa hagkerfi hafa vegaframkvæmdir, olíuviðskipti og bílgreinar verið stór hluti af innflutningi, þjóðarframleiðslu, störfum og neyslu — allt stærðir sem Seðlabankinn fylgist vel með til að sinna sínum skyldum í hagstjórn og upplýsingamiðlun um ástand hagkerfisins. Því má halda því fram að seðlabankastjóri hafi einfaldlega verið að benda á gott dæmi um þá tregðu sem getur myndast í stjórnsýslunni sem heldur aftur af nauðsynlegum fjárfestingum ríkisins sem skilar sér til almennings og örvar hagkerfið á þessari ögurstundu sem COVID er að reynast okkur.
Sundabraut er risavaxin framkvæmd sem mun kosta tugi milljarða og stuðla að því sem seðlabankastjóri sækist eftir, sem er örvun hagkerfisins. Samkvæmt Sigurði Inga samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kallar framkvæmdin á 2.000 störf yfir nokkurra ára tímabíl. Árið 2019 var innflutningur fólksbíla 5% af öllum innflutningi og bílavarahlutir tæplega 1%. Þá er innflutningur fljótandi orkugjafa að jafnaði enn stærri hluti.
Hvernig hagvöxtur?
Sundabraut er því ekki endilega slæmt dæmi um innviðafjárfestingu sem hefur skjót, vel þekkt og umfangsmikil áhrif á hagkerfið. Umfang framkvæmdarinnar er líka slíkt að það þarf ekki að undra að valdhafar peningastefnu þjóðarinnar láti sig hana varða; þó það kunni að vera pólitískt jarðsprengjusvæði fyrir Seðlabanka að skipta sér af máli sem er umdeilt.
„Uppbygging á vegakerfi einkabíla blæs lífi í samgöngukerfi sem er óskilvirkt, plássfrekt og dýrt í rekstri.“
Stóra spurning dagsins í dag er hins vegar hvers konar hagvöxt er réttast að sækjast eftir þegar stjórnvöld fara í innviðafjárfestingar. Staðreyndin er sú að uppbygging á vegakerfi einkabíla blæs lífi í samgöngukerfi sem er óskilvirkt, plássfrekt og dýrt í rekstri. Í ljósi loftslagsvárinnar vakna spurningar hvort vegaframkvæmdir af þessu tagi geti hreinlega talist brot á alþjóðlegu samstarfi um að draga úr útblæstri. Til eru dæmi um málsóknir á hendur ríkisstjórna sem hafa skuldbundið sig til að draga úr útblæstri en grafa svo undan málstaðnum með framkvæmdum sem eru einmitt af þessum toga.
Vistspor dreifðrar byggðar
Endurmótun á samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins er hafin og er mikilvægur liður í að fólk geti átt lífsstíl sem er bæði hagkvæmur, grænn og fjölskylduvænn. Meðfram framkvæmdum sem tengjast bættum almenningssamgöngum og bættu stíganeti koma rafbílar til með að hjálpa okkur í átt að orkusjálfstæði, hagkvæmari bílaflota – ásamt því að draga úr staðbundnum útblæstri í samgöngum. Þeir taka þó sama pláss og aðrir bílar og viðhalda þannig hinu stóra vistspori dreifðrar byggðar. Þeir munu ekki allir komast fyrir í þeirri þéttu byggð sem blessunarlega er stefnt að.
Bakslag var í nýskráningu rafbíla á sumarmánuðum þessa árs. Ferðasumarið blés lífi í markað jeppa og stærri bíla, en í þeim flokki er enn lítið um umhverfisvæna valkosti. Nýir bílar verða á götunni í 10 til 20 ár áður en þeir fara á haugana. Vænta má að stórt hlutfall u.þ.b. 5.000 bifreiða í bílaleiguflota sem sinnti ferðamannageira rati á bílasölur á næstunni. Þeir bílar eru knúnir jarðefnaeldsneyti.
Grænar fjárfestingar?
Hver nýskráning á bifreið telur í loftslagsbókhaldinu og allar vegaframkvæmdir sem greiða götur bílaflotans auka á heildareftirspurn bíla. Það kann að vera einmitt hugsun seðlabankastjóra – að sjá til þess að einn stærsti liður þjóðarframleiðslunnar dragist ekki saman og endurskipulagning á samgöngum verði ekki til þess að auka enn fremur á efnahagsvanda heimsfaraldursins með fækkun starfa í bílgreinum og öðrum hliðaráhrifum sem fylgja minni bílaeign heimila og færri kílómetrum í akstri fólksbifreiða á höfuðborgarsvæðinu.
Flestir seðlabankastjórar stærstu iðnríkja eru farnir að glíma við loftslagsvána og tala fyrir grænum fjárfestingum. Þann málflutning mætti heimfæra á okkar peningastjórn sem allra fyrst.
Athugasemdir