Jón Ívar Einarsson það yljar mér um hjartarætur að verða vitni að því hversu oft þessum íslenska kvensjúkdómalækni í Boston er hugsað til fósturjarðarinnar. Það er hins vegar dálítið sérstakt að lesa tvær greinar eftir sama manninn í Morgunblaðinu með nokkurra daga millibili sem eru efnislega næstum eins. Eini munurinn er að seinni greinin er útbíuð í tölulegum upplýsingum meðal annars úr grein sem Íslensk erfðagreining birti í New England Journal of Medicine á þriðjudaginn. Þessi tvíbirting sömu hugsunar bendir til þess að þú hafir fallið fyrir þeirri fásinnu sem ríkir í Nýja Englandi, að Boston sé nafli alheimsins, og þess vegna sé allt sem þaðan kemur merkilegt og skuli birta oft, jafnvel rökleysuna við lok greinar þinnar. En Jón Ívar, ég hef komið til Boston, skoðað svæðið og talað við fólkið. Mín ályktun er sú að Boston sé bara sjávarborg í hnignandi stórveldi þar sem menntastofnanir eins og sú sem þú vinnur við markast af upphafinni meðalmennsku.
Nú skulum við skoða annars vegar forsendur sem þú gefur þér um faraldurinn og ástandið á Íslandi og ályktanir sem þú dregur af þeim: Þú gefur í skyn að ástandið á Íslandi sé gott og þess vegna eigi að slaka á kröfum við landamæri en herða aðgerðir innan lands. Þarna ertu að snúa dæminu á hvolf. Ástandið á Íslandi er gott og fer batnandi þannig að við getum farið að slaka á sóttvarnarkröfum innan lands svo lífið færist í nokkuð eðlilegt horf. Ef við hins vegar myndum slaka á kröfum við landamæri er ljóst að smitum myndi fjölga, gögnin sýna það og við yrðum að herða tökin innan lands þannig að skólar gætu ekki starfað eðlilega, menningarlíf legðist að mestu af og atvinnuvegir aðrir en ferðaþjónusta myndu gjalda. Vegna þess að lítið er um smit á Íslandi viljum við koma í veg fyrir að þau berist inn frá öðrum löndum. Ef mikið væri um smit í landinu væri engin ástæða til þess að verja landamærin með skimunum og sóttkví. Þú leggur meira að segja til að fimm daga sóttkví verði skipt út fyrir heimasmitgát sem væri stórhættulegt vegna þess að hún er skilgreind þannig að það er enginn möguleiki að ákvarða hvort fólk er að framfylgja henni. Jón Ívar það er þannig mál með vexti að þótt þú hefðir rétt fyrir þér og Boston væri nafli alheimsins veitir það þér ekki réttinn til þess að halda því fram að ö sé á undan a í stafrófinu. Það er nefnilega fyrir löngu búið að sýna fram á að þótt maður hafi heimsótt mikil óperuhús veitir það enga vissu fyrir því að hann kunni að syngja.
Athugasemdir