Hlekkur þessi er á þraut gærdagsins.
***
Aukaspurningar:
Sú fyrri:
Á myndinni hér að ofan má sjá teiknimyndahetjuna Dodda ásamt ónefndri persónu. Hver skrifaði textann í hinum upphaflegu sögum um Dodda?
***
Aðalspurningar:
1. Í Biblíusögunum segir frá því að Davíð nokkur hafi verið mikilfenglegasti kóngur Ísraelsmanna til forna. Hann sló í gegn ungur að árum þegar hann sigraði risann Golíat. En í þjónustu hverra var Golíat?
2. Eftir langan feril sem kóngur dó Davíð, eins og lög gera ráð fyrir. Þá tók við völdum í Ísraelsríki sonur hans og varð frægð hans litlu minni en Davíðs. Hvað hét sonurinn?
3. Árið 1990 sendi bandaríska geimferðastofnunin NASA stjörnusjónauka út í geiminn, sem olli byltingu í stjörnuathugunum. Reglulega síðustu 30 árin hafa borist frá sjónaukanum nýjar og merkilegar myndir sem auka á þekkingu okkar á alheiminum. Búist er við að sjónaukinn geti enst í 10-20 ár enn. Hvað kallast hann?
4. Í hvaða borg gerast sögur Elenu Ferrante um framúrskarandi vinkonu?
5. Hvað hét síðasta plata Bítlanna, sem út kom eftir að þeir voru í raun hættir störfum?
6. Gadus morhua heitir á latínu fiskur einn, sem heitir á hollensku kabeljauw, á kúrdísku cinsek masî, á ungversku tőkehal og á hindí कॉड. Hvað heitir gadus morhua á íslensku?
7. Halldór Helgason er einn af kunnustu íþróttamönnum á Íslandi og hefur verið síðustu árin. Hann er að vísu ótrúlega lítið þekktur hér á landi en erlendis fylgjast margir með honum og hafa gert síðan hann sló ærlega í gegn á alþjóðlegu móti árið 2010. Hver er hans íþróttagrein?
8. Hvað heitir rússneski stjórnarandstæðingurinn sem veiktist hastarlega fyrir örfáum vikum og sagt er að rússnesk stjórnvöld hafi látið eitra fyrir honum? Hér dugar eftirnafn.
9. Forseti bandarísku fulltrúadeildarinnar var um daginn staðinn að grímulausum hárþvotti. Hvað heitir þessi forseti? Hér dugar líka eftirnafn.
10. Árið 1553 dó á Englandi Játvarður kóngur 7. sem var aðeins 15 ára, sonur Hinriks 8. Hinn ungi Játvarður átti tvær eldri systur en leitaðist á banabeðinu við að útiloka þær frá hásætinu, með því að útnefna sem erfingja sinn frænku sína, sem var dótturdóttir föðursystur hans. Þessi frænka, sem var 16 ára gömul, varð því drottning yfir Englandi. En aðeins níu dögum síðar veltu stuðningsmenn Maríu systur Játvarðar ungu stúlkunni frá völdum og hún var hálshöggvin. Hún er stundum kölluð „níu daga drottningin“. Hvað hét hún?
***
Síðari aukaspurning:
Úr hvaða bíómynd eða bíómyndaröð er þetta skjáskot?
***
Svör við aðalspurningum:
1. Filistea.
2. Salómon.
3. Hubble.
4. Napólí.
5. Let It Be.
6. Þorskur.
7. Snjóbretti.
8. Navalny.
9. Nancy Pelosi.
10. Jane, á Englandi oft kölluð Lady Jane.
***
Svar við fyrri aukaspurningu:
Enid Blyton.
Svar við síðari aukaspurningu:
Hungurleikarnir, eða Hunger Games.
Hér má sjá Jennifer Lawrence í hlutverki sínu í einni myndanna.
***
Athugasemdir