Brynjar Sindri Sigurðsson, bóndi í Miðhúsum í Blönduhlíð í Skagafirði, vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið í gærkvöldi þegar að stefnuvottur sýslumannsins á Norðurlandi vestra renndi í hlað hjá honum og afhenti Brynjari greiðsluáskorun vegna ógreiddra dagsekta til ríkissjóðs. Dagsektirnar voru tilkomnar vegna þess að ekki hefði verið skilað upplýsingum um raunverulegan eiganda sameignarfélags.
Eftir að stefnuvottur var horfinn á braut stóð Brynjar eftir á hlaðinu, með kröfu um að greiða 340 þúsund krónur, og klóraði sér í kollinum yfir því að hann ætti að bera ábyrgð á að koma slíkum upplýsingum á framfæri um félag sem hann hefði fyrst gert tilraun til að slíta árið 2003, hefði ítrekað gert eftir það, síðast fyrir tveimur árum og aldrei fengið neinar tilkynningar um að hann bæri ábyrgð á að skila gögnum um raunverulega eigendur þess.
Forsaga málsins er sú að árið 2001 stofnaði Brynjar ásamt Guðrúnu Helgu Jónsdóttur konu sinni og þriðja manni semeignarfélagið JGB-Hljóð sf. á Siglufirði þar sem þau voru þá búsett. „Þetta félag var stofnað í kringum hljómsveit, eða eiginlega var það hljóðkerfaleiga. Við keyptum eitthvað agalegt kerfi því það var ekkert til á Siglufirði á þeim tíma sem hægt var að nota. Við áttum þetta saman þrjú, J-ið stóð fyrir Jóhann, G-ið fyrir Guðrúnu og ég heiti Brynjar. Félagið var starfandi til 2003 þegar ég og Guðrún konan mín fluttum frá Siglufirði.“
„Það var haft samband á Siglufjörð og við alla nema Guð almáttugan held ég til að leggja félagið niður“
Brynjar segir að þegar þau Guðrún hafi flutt frá Siglufirði hafi græjur félagsins verið seldar og tilraunir hafi hafist við að leggja niður félagið. „Ég talaði við sýslumanninn á Siglufirði strax þarna og gerði það sem mér var sagt að gera þar til að slíta félaginu. Mér var sagt að ég þyrfti bara að fylla út staðlað form til að slíta þessu og það var gert. Síðan hefur hins vegar alltaf eitthvað verið að poppa upp sem tengist þessu aflagða félagi. Yfirleitt hefur það verið áætlaðir skattar, virðisaukaskattur og svona. Ég hef þurft að eyða drjúgum tíma við að leiðrétta þessar kröfur, og það hefur nú alltaf tekist, nema þegar kemur að útvarpsgjaldinu. Einhvern tíma þurfti ég að greiða heilan helling af útvarpsgjaldinu, sem ég gerði, því mér var sagt að annars myndi aldrei takast að drepa þetta félag. Ég bara gerði það og reyndi þá enn einu sinni að fá þessu félagi slitið. Það gekk hins vegar ekki, ekki frekar en fyrri daginn.“
Stefnuvottur á sjúskaðri Toyotu
Fyrir um það bil tveimur árum síðan fékk Brynjar enn einn ganginn tilkynningar um að JGB-Hljóð ætti að standa skil á ýmsum opinberum gjöldum, og þótti honum nú orðið nóg um enda fimmtán ár síðan félagið hætti starfsemi og hann taldi sig hafa slitið því. „Þá fékk ég mér lögmann og við fórum og hittum sýslumanninn á Sauðárkróki. Niðurstaða þess fundar var sú að nú yrði þetta sameignarfélag loks aflagt. Það var haft samband á Siglufjörð og við alla nema Guð almáttugan held ég til að leggja félagið niður. Ég hélt að það hefði nú loks gengið en það hefur greinilega ekki gert það.“
Brynjar hafði engar póstsendingar fengið eða nokkrar aðrar tilkynningar er varða félagið, og engar kröfur um að skrá skyldi raunverulega eigendur þess, fyrr en í gærkvöldi þegar að stefnuvottur „á sjúskaðri Toyotu“ birtist í hlaðinu í Miðhúsum. „Ég var vinsamlegast beðinn um að kvitta fyrir móttöku á þessu skjali. Þetta lítur út fyrir mér núna þannig að þarna fyrir tveimur árum hafi tekist að af tengja nöfnin okkar frá þessu félagi, en það er einhvern veginn enn á lífi þrátt fyrir það. Félagið er bara skráð núna sem JGB-Hljóð, með eigin kennitölu og heimilisfang á Siglufirði. Mitt nafn kemur þarna aldrei fram, á þessari kröfu. Samt er þetta keyrt heim í Miðhús. Ég átti að taka við þessu en ekki Guðrún konan mín, sem þó átti þetta á sínum tíma með mér.“
Sautján ár án árangurs
Brynjar kvittaði fyrir móttökuna og stendur því eftir með kröfu um að borga 344 þúsund krónur, fyrir að hafa ekki gert grein fyrir raunverulegum eiganda félags sem hann hefur nú reynt að láta leggja niður í 17 ár, og vissi ekki betur heldur en að hefði loks tekist að afleggja fyrir tveimur árum. Í greiðsluáskoruninni er skorað á Brynjar að greiða dagsektina, sem svo er nefnd, innan 15 daga frá móttöku bréfsins. Að öðrum kosti megi hann búast við að krafist verði fjárnáms hjá honum. En hvað ætlar hann að gera í málinu? „Ég ætla nú að reyna að ná í lögmanninn aftur og biðja hann um að fara og tala við starfsmenn sýslumanns. Ég ætla helst ekki að gera neitt, nema að borga honum, vegna þess að ég get ekkert gert í þessu. Það eru sautján ár sem sanna það að ég get ekkert gert í þessu máli.“
„Ég sit eftir með Svarta-Pétur og neyðist til að finna út úr því hvernig ég get skilað skömminni, einhvern veginn“
Brynjar þarf því enn á ný að taka á sig fyrirhöfn og kostnað til að verjast þessu áreiti hins lífseiga félags. Hann segir óbærilegt að fá í höfuðið enn og aftur kröfur vegna félags sem sé í engum rekstri, sem engum skuldi neitt, sem ekkert eigi og margsinnis hafi verið reynt að afleggja.
„Þetta er auðvitað óþolandi, og ég bara trúi ekki að það sé ekki hægt að slökkva á þessu í kerfinu. Ef ég geri nú það sem ég er beðinn um núna, að gera grein fyrir því hverjir eru raunverulegir eigendur þessa félags, hvað gerist þá? Er ég þá enn á ný búin að vekja upp þetta sameignarfélag sem ég er búinn að reyna að slökkva á svo árum skiptir? Ég læt þetta svo sem ekki taka mig niður en ég er nú orðinn frekar þreyttur á að eiga við þetta opinbera kerfi. Þetta kostar allt, er leiðinlegt og virðist aldrei skila neinum árangri. Svo er þessi krafa um að gera grein fyrir raunverulegum eigendum þessa félags að mínu viti líka fullkomlega tilgangslaus. Það var alltaf ljóst hverjir stóðu að baki því, og ekki virðist það vera flókið að finna út úr því, í það minnsta tókst þeim að finna mig til að afhenda mér kröfubréfið. Ég sit eftir með Svarta-Pétur og neyðist til að finna út úr því hvernig ég get skilað skömminni, einhvern veginn.“
Athugasemdir