Steve Bannon, fyrrverandi kosningaráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, hefur verið handtekinn og ákærður fyrir fjársvik af saksóknara í New York. Samkvæmt ákærunni er Bannon sagður hafa svikið fé út úr mörg hundruð þúsund stuðningsmönnum Trumps þegar hann stýrði fjársöfnun á vegum framboðsins. Alls söfnuðust meira en 25 milljónir dollara í þeirri sönun, sem jafngildir tæplega þremur og hálfum milljarði íslenskra króna. Áttu framlögin að renna óskipt til þess að reisa múr á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.
Þrír samstarfsmenn Bannons eru nefndir í ákærunni. Meðal þeirra er Timothy Shea, starfandi yfirmaður bandarísku fíkniefnalögreglunnar (DEA) sem Trump tilnefndi í vor til að stýra embættinu. Í ákærunni á hendur Bannon segir að hann hafi dregið sér um eina milljón dollara úr sjóðnum sem hann notaði að mestu til að standa straum af persónulegum útgjöldum. Samstarfsmenn hans er sagðir hafa tekið þátt í þessu og sjálfir dregið sér minnst 350 þúsund dollara til viðbótar. Þeir hafi fært peningana inn á eigin reikninga í gegnum skúffufyrirtæki sem var skráð sem góðgerðarstofnun og greiddi því ekki skatt.
Samkvæmt upplýsingum frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu var rannsókn málsins hafin af rannsóknardeild póstþjónustunnar eða United States Postal Inspection Service (USPIS). Trump forseti hefur undanfarið legið undir ámæli fyrir að minnka fjárveitingar til póstþjónustunnar í þeim tilgangi að hafa áhrif á getu hennar til að flytja utankjörfundaratkvæði í Covid faraldrinum. Kosið verður til forseta í byrjun nóvember og kannanir sýna að Joe Biden, frambjóðandi Demókrata, virðist hafa forskot á Trump í mörgum þeim ríkjum sem mestu máli skipta.
Athugasemdir