Skóla- og frístundasvið greiðir þrjár krónur fyrir auglýsingar í íslenskum miðlum fyrir hverja eina sem greidd er til Google. Átta milljónum hefur verið eytt í atvinnuauglýsingar í íslenskum miðlum það sem af er ári samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg.
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn og einn eigenda Morgunblaðsins, gagnrýndi á dögunum að borgin skyldi auglýsa laus störf og það á vefsíðu CNN, en auglýsingin er keypt hjá Google Ads sem birtir auglýsingar á ýmsum síðum sem neytendur á ákveðnu landsvæði heimsækja.
„Á sama tíma og fyrirtækin í borginni þurfa að segja upp fjölda starfsmanna er borgin sjálf að auglýsa eftir starfsmönnum,“ skrifar Eyþór. „Það vekur ekki síður athygli að verið er að kaupa auglýsingarnar meðal annars til birtingar á erlendri fréttaveitu. Hefði ekki verið nær að verja skattfénu í innlenda fréttamiðla? Fjárfestum innanlands. Verjum störfin.“
Sigrún Björnsdóttir hjá upplýsingasviði Reykjavíkurborgar segir að auglýsingaherferð skóla- og frístundasviðs, sem ber heitið Framtíð landsins, muni kosta um 4 milljónir króna frá byrjun júní til loka september. „Um 23% þeirrar upphæðar fer í Google-auglýsingar og 77% til íslenskra miðla,“ segir hún. „Þar að auki hefur skóla- og frístundasvið frá ársbyrjun 2020 greitt um 8 milljónir í atvinnuauglýsingar í íslenskum miðlum.“
Þau störf sem skóla- og frístundasvið auglýsir um þessar mundir samkvæmt vef Reykjavíkurborgar eru störf kennara, stuðningsfulltrúa, frístundaleiðbeinenda og skólaliða. „Stefna sviðsins er að birta auglýsingar þar sem það nær til þeirra sem líklegir eru til að sækja um störf hjá sviðinu,“ segir Sigrún. „Auglýst er í þeim miðlum sem markaðsrannsóknir sýna að þeir markhópar sem sviðið vill ná til fylgist með. Unnið er að þessari auglýsingaherferð í samstarfi við auglýsingastofu.“
Athugasemdir