Þingmaður Samfylkingarinnar óskar eftir því að sendiherra Bandaríkjanna noti ekki íslenska fánann í umfjöllun sinni um baráttuna gegn Covid-19 faraldrinum.
Jeffrey Ross Gunter, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti skipaði sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi árið 2018, skrifaði á Twitter í gærkvöldi: „Við erum sameinuð í að sigra Ósýnilega Kína Vírusinn!“
Birti hann fána Íslands og Bandaríkjanna hlið við hlið. Þá vísaði einnig í færslu forsetans með mynd af honum með andlitsgrímu og textanum: „Enginn er meiri ættjarðarvinur en ég, uppáhalds forsetinn ykkar!“
Egill Helgason fjölmiðlamaður fjallar um færsluna á Facebook síðu sinni. „Þessi sendiherra, sem er ekki diplómati heldur borgaði ríkulega í kosningasjóð Trumps, ætti að skilja að hér á Íslandi höfum við ekki talað um Kínavírus,“ skrifar Egill. „Það er líka ansi mikill munur á því hvernig við og Bandaríkjamenn höfum höndlað vírusinn. Hér hafa vísindamenn ráðið ferðinni. Í Bandaríkjunum sæta vísindamenn árásum.“
Gunter er húðsjúkdómalæknir og hefur verið virkur í starfi Repúblikanaflokksins, meðal annars sem leiðtogi samtaka gyðinga í flokknum. Hann hefur stutt marga frambjóðendur flokksins fjárhagslega, meðal annars Trump, John McCain og Liz Cheney. Hefur hann frá árinu 2015 greitt að minnsta kosti 38.800 dollara til flokksins eða frambjóðenda hans, eða andvirði 5,4 milljóna króna.
Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, skrifar um málið á Facebook síðu sinni. „Að sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi leyfi sér að vísa í íslenska fánann í sömu andrá og hann skrifar að „við“ séum „sameinuð“ gegn „invisible China virus“ er rasískt og heimskulegt rugl. Ég vil því óska eftir að þessi sendiherra noti ekki íslenska fánann í þessum tilgangi.“
Athugasemdir