Meðlimir nýrra fagráða sjúkrahúsa verða valdir af forstjórum þeirra, en ekki lýðræðislega kosnir eins og áður. Þetta kemur fram í drögum að nýrri reglugerð sem birt hefur verið á samráðsgátt stjórnvalda.
Læknaráð og hjúkrunarráð á heilbrigðisstofnunum, þar á meðal Landspítalanum, voru lögð niður með lögum þegar frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um heilbrigðisþjónustu var samþykkt á lokadögum Alþingis í júní. Formaður læknaráðs, Anna Margrét Halldórsdóttir, hefur gagnrýnt breytinguna og sagt að forstjóri verði „býsna einráður“ og að aðhald minnki við breytinguna. Læknaráð hefur verið mjög gagnrýnið á Svandísi í hennar ráðherratíð, meðal annars hvað varðar stöðuna á bráðamóttöku Landspítalans.
Samkvæmt drögum að reglugerðinni, sem birt voru í gær, munu forstjórar heilbrigðisstofnana skipa fagráð sem í sitja að minnsta kosti einn fulltrúi lækna, einn fulltrúi hjúkrunarfræðinga og einn fulltrúi annarra heilbrigðisstétta sem eru í föstu starfi innan heilbrigðisstofnunarinnar. Eins og áður ber forstjóra að leita álits fagráðs um mikilvægar ákvarðanir sem varða heilbrigðisþjónustu og skipulag heilbrigðisstofnunarinnar en er þó ekki bundinn af álitinu.
Hingað til hafa stjórnir lækna- og hjúkrunarráða verið kosnar á aðalfundum þeirra. Þá mun forstjóri þurfa að staðfesta starfsreglur sem ráðin setja sér, en ekkert slíkt hefur komið fram í starfsreglum ráðanna sem lögð hafa verið niður. Auk þess er skipan fagráðanna tímabundin til þriggja ára, en ekki tveggja eins og hefur verið í tilviki læknaráðs Landspítalans.
Drögin að reglugerðinni verða til umsagnar til 8. ágúst og hafa breytingarnar því ekki tekið gildi.
Athugasemdir