Íbúar hússins á Bræðraborgarstíg 1, sem brann 25. júní síðastliðinn, hafa fengið rukkun fyrir leigu vegna júlímánaðar.
Magdalena Kwiatkowska, verkefnisstjóri fræðslumála hjá Eflingu, segir í samtali við Stundina að einn íbúa hússins hafi leitað til hennar af ótta við að verða fyrir vanskilakostnaði ef hann greiddi ekki leiguna, en húsið er óíbúðarhæft þar sem það er brunarústir. Hringt var í hann á dögunum og hann varaður við dráttarvöxtunum sem legðust á húsaleiguna ef hann greiddi hana ekki fyrir eindaga.
„Hann sagði að það hafi verið hringt í hann og sagt: „Þú veist að það bætist við 100 krónur á hverjum degi sem þú borgar ekki.“ Ég sagði honum að borga þetta alls ekki, en ég heyrði að allir leigjendurnir hafi fengið þessa rukkun. Ég vona að enginn þeirra hafi borgað,“ segir Magdalena.
Hún segist ekki vita til þess að leigjendurnir hafi verið með leigusamning, en það hafi engu að síður verið krafið um tveggja mánaða tryggingu. „Ég veit að það voru nokkrir sem voru búnir að borga trygginguna með peningum og aðrir lögðu hana inn á bankareikning. En ekkert þeirra hefur fengið hana aftur eftir brunann.“
Stundin hefur ekki fengið endanlega staðfest hver stóð fyrir innheimtusímtalinu, hvort það hafi verið innheimtuþjónusta, eða fulltrúi HD verks, félagsins sem á húsið. Eigandi og forsvarsmaður þess félags, Kristinn Jón Gíslason, svaraði ekki Stundinni vegna fréttarinnar. Í samtali við Stundina á föstudag sagði hann hentugra að leigja útlendingum en Íslendingum. „Ég var bara að leigja sjálfur út herbergin. Og leigi yfirleitt útlendingum af því að ég hef ekki áhuga á því að leigja Íslendingum. Útlendingarnir borga en ekki Íslendingarnir.“
Þrír létust í brunanum. Þar á meðal var ungt par frá Póllandi. Þau voru hér á landi til að safna fyrir brúðkaupi sínu.
Dauðagildra fyrir unga parið
„Þetta var dauðagildra fyrir þetta unga par sem kom hingað til að vinna til að safna peningum fyrir brúðkaupið. Það fór aldrei heim aftur,“ sagði Magdalena í gærkvöldi í þættinum Rauða borðinu, sem sendur er út á Facebook í umsjón Gunnars Smára Egilssonar. Magdalena hefur tekið virkan þátt fyrir hönd Eflingar í að aðstoða aðstandendur þeirra sem létust í eldsvoðanum, svo og þá sem komust lífs af.
Í samtali við Stundina segir Magdalena að það sem átti að vera besti og færasti vinnumarkaður í heimi hafi verið þeim martröð. „Þau komu hingað fyrir sjö eða átta mánuðum og voru að safna peningum til að borga fyrir brúðkaupið,“ segir hún. Þau unnu bæði láglaunavinnu og því reyndu þau að finna sér sem ódýrastan húsakost. „Þau vildu ekki borga meira en 80-90.000 krónur í leigu, en þetta herbergi í þessu húsi var það eina sem stóð þeim til boða á því verði.“
Leigjendur þurftu að deila einu klósetti
Magdalena segir að fyrir brunann hafi aðstæður í húsinu verið hörmulegar, en 13 leigjendur hafi allir þurft að deila einu salerni og einni sturtu. „Það var eitt klósett og það þurfti að skrifa niður fyrir fram hver fer í sturtu og hvenær. Maðurinn sem lést gat til dæmis bara farið í sturtu klukkan tíu á kvöldin.“
Magdalena segir að leigjendurnir hafi ítrekað óskað eftir því annað klósett yrði byggt en að þeirri beiðni hafi ekki verið ansað.
„Maðurinn sem lést gat til dæmis bara farið í sturtu klukkan tíu á kvöldin.“
Bauðst gluggalaus kjallaraíbúð
Í Rauða borðinu sagði Magdalena að það væri mjög algengt fyrir Eflingu að heyra af launaþjófnaði, misnotkun og valdbeitingu. „Þetta kemur fyrir daglega, sérstaklega í pólska samfélaginu,“ sagði hún.
Daginn eftir brunann segir hún að margir Íslendingar hafi haft samband við stéttarfélagið til að bjóða fólkinu ódýran húsakost. „En það sem var í boði var ekkert betra en það sem þau voru með áður fyrr.“ Nefndi hún að eitt húsnæðið hafi verið gluggalaus kjallaraíbúð sem Íslendingar létu ekki bjóða sér. „Hvernig manneskja ert þú að hringja í Eflingu að bjóða fólki svona húnæði?“ sagði Magdalena í þættinum.
Hún sagði að Efling væri á fullu að aðstoða fólkið sem bjó í húsinu. „Við erum að skoða hvað er hægt að bjóða þeim, eins og dánarbætur, sjúkrasjóð og slíkt.“
Slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu segir að eldurinn hafi breiðst út svo fljótt því húsið hafi verið einangrað með sagi. Hann taldi að eigendur hefðu ekki uppfyllt skyldur sínar.
Auk einstaklinganna þriggja sem létust særðust þrír til viðbótar. Einn karlmaður á sjötugsaldri er í haldi lögreglu, grunaður um íkveikju, og var úrskurðaður fyrr í dag í sjö daga áframhaldandi gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna.
Alþýðusamband Íslands hefur kallað eftir ítarlegri rannsókn á málinu.
Athugasemdir