Á dögunum sýndi Ríkisútvarpið þáttinn Aldamótaböndin, þar sem rætt var við persónur og leikendur vinsælustu sveitaballahljómsveita landsins um síðustu aldamót. Ég fór sjálfur á böll með öllum þessum hljómsveitum fyrir og um aldamótin. Það fygldi eiginlega búsetu á landsbyggðinni. Mekka sveitaballanna, Miðgarður í Varmahlíð, var í fimm kílómetra fjarlægð frá heimili mínu.
Það verður hins vegar að játast að ég fílaði ekkert af þessu. Þessar hljómsveitir, Á móti sól, Buttercup og hvað þær allar hétu, spiluðu poppmúsík fyrir bolinn og ég þóttist of góður fyrir svoleiðis nokkuð. Ég var samt ekkert of góður til að öskursyngja „Ertu þá farin?“, hið alræmda lag Skítamórals, á balli í Miðgarði. Raunar hef ég þó líklega verið búinn að smakka það örlítið, sem gæti skýrt slíka læmingjahegðun.
En þetta var ekki mín músík og satt að segja hafði ég verulega fordóma í garð þessara hljómsveita. Það var ekkert töff við þær, þetta var ekki rokk og þetta var ekki einu sinni gáfumannapopp. Þær íslensku hljómsveitir sem ég hlustaði á á þessum árum, eins og Botnleðja, Maus og Ensími, komu hins vegar því sem næst aldrei út á land. Svo ég sat uppi með Land og syni í Sjallanum eða Sóldögg í Ýdölum. Ekki misskilja mig, það var bullandi stemning á þessum böllum, slagsmál og kelerí og hver veit hvað, en ég gaf ekki mikið fyrir músíkina.
En fyrir tveimur árum fór ég eina kvöldstund á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, sem er auðvitað eins konar nirvana sveitaballahljómsveitanna. Þar tróð hljómsveitin Írafár upp með Birgittu Haukdal í broddi fylkingar. Þá kom óvart í ljós að ég kunni auðvitað öll lögin og söng með, fullur innlifunar og gleði, án þess að hafa fengið mér nokkuð í tána. Og skammaðist mín ekkert fyrir. Ég þakka samt fyrir að ekki voru til snjallsímar árið 1999, ég gæti ekki lifað með því að til væri upptaka af mér að syngja Skítamóralslag. Einhver prinsipp verða menn að hafa.
Athugasemdir