Um þessar mundir á sér stað löngu tímabært uppgjör vegna kerfisbundins lögregluofbeldis gegn blökkumönnum vestanhafs. Borgarar flykkjast út á götur stórborga í Bandaríkjunum og mótmæla undir myllumerkinu #blacklivesmatter eftir að enn annar varnarlaus blökkumaður hefur verið drepinn af laganna þjónum. Í þetta sinn var það blökkumaðurinn George Floyd sem kvaðst ekki geta andað áður en lífið var murkað úr honum. Þessi saga er ekki ný af nálinni, en fyrir fjórum árum voru þetta hin hinstu orð blökkumannsins Eric Garners.
Viðbrögðin á heimsvísu hafa ekki leynt sér. Mótmæli og samstöðufundir hafa sprottið upp víðs vegar, meðal annars hér á Íslandi. Á sama tíma og stuðningsraddir mannréttindabaráttu blökkumanna berast víða að þá er sömuleiðis ekki langt í afturhaldssamar efasemdaraddir. Frægasta dæmið um hið síðarnefnda er Facebook-færsla Elliða Vignissonar, bæjarstjóra Ölfuss, þar sem hann kemur lögreglunni til varnar. „Um allan heim mótmælir fólk nú ofbeldi lögreglu í USA í garð almennings“, skrifaði Elliði. „Hér á Íslandi glímum við við ofbeldi almennings gagnvart lögreglu. #gerumbetur“
Elliði er með meira en tveggja áratuga reynslu sem eitt helsta andlit Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi. Tengsl Sjálfstæðisflokksins og lögreglu eru vel þekkt og hefur Elliði eytt miklu púðri í að verja hana gegn gagnrýni. Auk flokkstengsla á Elliði persónuleg tengsl við lögreglu, en bróðir hans, Svavar, er einmitt lögregluþjónn.
Skilaboðin eru einföld. Lögregluofbeldi á svörtu fólki gerist annars staðar en á Íslandi og vernda þarf lögregluna okkar. En þetta er bersýnilega rangt. Lögreglan á Íslandi hefur ekki aðeins beitt blökkumann ofbeldi, heldur skar hún svartan flóttamann með eggvopni er hann var fjötraður og í fangaklefa.
Skorinn í fangaklefa
Þann 10. september 2014 var 35 ára flóttamaður frá Líberíu að nafni Chaplas Menka stöðvaður af lögreglu við tínslu á flöskum og dósum í miðbæ Reykjavíkur. Útlendingastofnun hafði beðið lögreglu um að afhenda honum bréf þess efnis að dvalarleyfi hans væri útrunnið, en eftir afhendingu þess hafa einstaklingar almennt 5 til 30 daga til að yfirgefa land áður en kallað er eftir brottflutningi. Þrátt fyrir að vera með hæli á Ítalíu segir Chaplas að hann byggi við mun sterkara tengslanet hér á landi og dvaldi hér því eins lengi og hann gat.
Útlendingastofnun hefur gefið út að afhending slíkra bréfa sé aðeins formsatriði og alls ekki ástæða til handtöku. Engu að síður ákvað lögreglan að eigin frumkvæði að handtaka Chaplas eftir að honum hafði verið afhent umrætt bréf. Hann brást illa við og segir lögregluna ekki hafa sagt honum af hverju hann var handtekinn. Lögreglan segist hafa gert honum grein fyrir því að hún hafi leitað að honum frá júlí fyrir að dvelja ólöglega á landinu. Lögmaður Chaplas segist aldrei hafa verið formlega gefin ástæða fyrir handtöku, en það er mannréttindabrot.
Chaplas var fjötraður með plastbenslum. Bæði hann og lögreglan eru á sama máli að hann hafi tvívegis beðið um að fá að tala við lögmann, en þeirri ósk var ekki sinnt. Þess í stað hlaut hann fjögur stungusár á hægri fótlegg af eggvopni sem lögregluþjónn mundaði til að fjarlægja plastbenslin. Þrjú þeirra voru grunn, en eitt þeirra var það djúpt að kálfvöðvi hans rifnaði. Honum blæddi mikið og þurfti að komast undir hendur lækna þar sem hann fékk þrettán spor. Eftir það var hann aftur færður í fangageymslu þar sem hann beið alblóðugur á nærbuxum og bol í köldum klefa. Vinkona hans sem sótti hann staðfesti að hann hafi verið algjörlega niðurbrotinn eftir þetta atvik.
Lögregla játar sök
Lögreglan hefur játað þessa atburðarás og segist axla fulla ábyrgð á þeim mistökum sem gerðust. Talað var um að þetta hefði verið stórfellt niðurbrot í samskiptum milli lögregluþjóna og Chaplas og að rangt tól hafi verið notað til að fjarlægja plastbensli. Minnisblað á að hafa verið sent á alla lögregluþjóna með leiðbeiningum um rétta leið til að fjarlægja plastbensli, en afleiðingarnar voru ekki aðrar. Enginn lögregluþjónn fékk áminningu og engum var vikið úr starfi. Lögreglan sagðist á sínum tíma vera að vinna með lögmanni Chaplas við að finna viðeigandi bætur fyrir það sem hún kallaði slys, en ekki hefur verið staðfest að Chaplas hafi fengið neinar bætur.
Kannski var ég fullfljótur að saka Elliða um sögulega endurskoðun. Það gæti vel verið að hann hafi hreinlega ekki vitað af þessari atburðarás þar sem það vakti ekki mikla athygli. Málið rataði í kvöldfréttir Stöðvar 2 þann 23. september þar sem sýnt var stutt viðtal við Chaplas og lögmann hans. Degi síðar flutti Vísir frétt með viðbrögðum lögreglu. Þar var haft eftir henni að stungusárið hafi verið „óhapp“, að hnífurinn „féll á fót mannsins“. Síðar í sömu frétt er sagt að hnífurinn hafi ekki dottið, heldir „rekist“ í Chaplas.
Ástæða þess að ég veit meira um málsatvik er af því ég hitti Chaplas, tók ítarlegt viðtal við hann og lögmann hans, og sóttist eftir frekari svörum frá lögreglu. Því veit ég að tvo mánuði eftir stunguárásina var Chaplas enn haltrandi og í miklum sársauka. Vinir sögðu að hann hefði einangrast, orðið hræddur við ókunnuga og ekki getað aflað sér fjár. Hann var algjörlega upp á aðra kominn til að komast sinna leiða, til að hitta lækni og lögmann.
Var fluttur úr landi með valdi
Þessi áður glaðlyndi maður var orðinn að vofu í kerfinu. Málið þaut framhjá almenningi, en Chaplas sagði að eftir útgáfu greinarinnar hafi fólk enn þá ekki trúað frásögn hans, að lögreglan hefði lemstrað hann í fangaklefa. Einu frekari fréttirnar sem voru fluttar af málinu hjá stóru fjölmiðlum landsins voru í janúar 2015 að kæra Chaplas á hendur lögreglunni væri til skoðunar hjá sérstökum saksóknara.
Mánuði síðar heyrði ég af Chaplas fyrir utan Alþingishúsið. Honum var kalt, hann átti engan pening og hafði misst húsnæðið sitt. Hann haltraði enn, og andlegu ástandi hans hafði farið hrakandi; hann hafði fjarlægst vini og rekið lögmann sinn. Sem örþrifaráð reyndi hann að hindra aðgang valdamanna að byggingunni í þeirri von að fá viðurkenningu og efnislega meðferð á máli sínu. Hann var hunsaður og á endanum handtekinn af lögreglu og vísað úr landi.
Ég sendi fyrirspurn á ríkissaksóknara sem staðfesti að kæra hans hefði verið felld niður í júlí 2015. Rannsókn hafði ekki leitt í ljós að um annað en gáleysisverk væri að ræða af hendi lögreglu, en áverkar Chaplas voru ekki taldir nógu alvarlegir til að kært væri fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi. Ríkissaksóknari gerði alvarlegar athugasemdir við hvernig staðið hefði verið að máli Chaplas, en málið endaði þar.
Ein helsta og háværasta krafa blökkumanna og annarra minnihlutahópa víðs vegar úr heiminum er að hlusta og trúa þeim sem segja frá ofbeldi og mismunun og styðja þá í réttindabaráttu sinni. Ef læra má eitthvað af sögu Chaplas Menka, þá er það að Íslendingar eiga töluvert í land í þeim efnum.
Athugasemdir