Ég fór með níu ára son minn í sauðburð um daginn. Síðasti séns að faðma rollurnar að okkur, við erum nefnilega að fara að opna Ísland aftur fyrir fársjúkum útlendingum og verðum að sjá litlu lömbin áður en við deyjum kvalafullum dauðdaga.
Við ókum norður í átt að Akureyri, Snæfellsjökull sveif eins og fljúgandi furðuhlutur yfir nesinu í blíðunni. Það vill svo skemmtilega til að þegar horft er á Ísland utan úr geimnum þá lítur eyjan okkar út eins og afvelta sauðkind sem reynir að bjarga sér, liggjandi á hlið í miðju Atlantshafinu. Ég er er að ala upp dreng á tuttugustu og fyrstu öld um leið og ég ek með hann aftur í tímann, aftur á nítjándu öld. Þaðan sem við komum, feðraveldið sjálft og heilög sauðkindin.
TikTok-kynslóðin
Sonur minn er af TikTok-kynslóðinni. Engin fyrri kynslóða hefur haft jafn mikinn og greiðan aðgang að upplýsingum. Hann flettir upp í Wikipediu og TikTok til skiptis og lætur rigna yfir mig spurningum. Af hverju varð ekkert af heimsendi árið 2012? Var hætt við það? Hvort ég hafi búist við heimsendi á þeim tímapunkti?
Það þýðir auðvitað ekkert fyrir mig að ætla að ala upp svona snilling einsamall, til þess þarf heilt samfélag. Móðirin, systirin, amman, afinn, frænkurnar, frændurnir. Síðast en ekki síst íslenska þjóðin. Ég er að meina okkur öll, eins og við birtumst níu ára dreng í fjölmiðlum.
Og þess vegna skrúfaði ég Ríkisútvarpið í botn þegar við skriðum upp úr Hvalfjarðargöngunum. Á RÚV var glaðbeitt par að hrútskýra hvernig munur milli landshluta væri að hverfa, Íslendingar allir að verða eins. Þetta kæmi í veg fyrir fjöldamorð, hér yrði ekki annað Ruanda. Hvað er ég að hlusta á? tautaði ég upphátt, en litli mister TikTok heyrði ekki í mér, hann rýndi í spádómskúlu og fylgdist með sænskum jútúbara drulla yfir sjö ára stelpu sem var að syngja fyrir panelinn í „Bretland hefur hæfileika“. Smá kontrast þarna, hugsaði ég. Ótrúlega ólíkir heimar sem lítill Kiwi-klipptur mister TikTok tekur inn og meltir í sífellu.
Rétthugsandi regnbogasamfélag
Mister TikTok er sprottinn úr rétthugsandi regnbogasamfélagi Vesturlanda. Þýskir mussuhippar, lesbískar frænkur og taugaveiklaðir foreldrar kepptust við að dekra hann í hel meðan hann óx úr grasi. En núna er hann allt í einu að hverfa inn í þennan TikTok-heim með jafnöldrum sínum, hann svolgrar í sig Jútúb-myndbönd með hómófóbískum sænskum unglingum sem gætu hæglega stokkið út úr skápnum sem alt-ræt nasistar um það leyti sem við sveigjum framhjá álverinu á Grundartanga.
Mister TikTok og vinir hans eru allt í einu farnir að tala um homma og lesbíur í sömu merkingu og aumingja en á sama tíma elskar hann Patrek Jamie og krúið hans út af lífinu. Ég skil ekki neitt. En kannski er það heldur ekki feðraveldisins að skilja allt heldur leyfa þessum graut að malla í friði. Hver kynslóð hlýtur sjálf að komast að niðurstöðu á endanum.
Þannig að ég hækka meira í Gufunni, kannski mun aukaskammtur af heilavítamíni hjálpa mínum manni að komast að niðurstöðu aðeins fyrr.
RÚV er að selja Júróvisjón þótt það sé löngu búið að hætta við keppnina, enda fuðruðu allir meðlimir ABBA og Johhny Logan upp í helvíti COVID-19. RÚV tekst að gera Júróvisjón óspennandi, í fyrsta sinn, í huga níu ára drengs.
Við hefðum unnið hvort eð er! hnussar hann úr aftursætinu. Ég verð bara pirraður ef ég á að horfa á þetta!
Hljóðveggurinn
Ég hækka meira. Ég ætla að seiða TikTok-djöfulinn úr barninu, þagga niður í sænskum jútúb-djöfli. Við nálgumst Borgarnes og sveittir puttar leita að útvarpssstöðvum í örvæntingu.
Á endanum hrærast allar rásirnar saman í einn allsherjar hljóðvegg; hvítt suð, mynstur, nið, ym, andhljóð … Hljóðið er jafnt og tilbreytingarlítið og undarlega seðjandi. Maður tekur varla eftir því fyrr en það hættir.
Forfeður okkar sátu við fossa landsins og gátu varla talað saman nema værðarlegur niður heyrðist úr seytlandi vatni í bakgrunni, sami niður berst okkur úr fjölmiðlum í dag.
Við leggjum við hlustir og tökum að greina setningar á stangli: Þú veist hvaðan það kemur … við hefðum hvort eð er unnið þessa keppni … við vorum best í að ráða við vírusinn … eigum besta mjólkursúkkulaði í heimi … Íslendingar eru bara snjallari …
Niðurinn úr útvarpinu er að segja að Ísland sé best í heimi og við feðgar norræn ofurmenni.
Þetta eru svo sannarlega notaleg og jákvæð skilaboð. Hver vill ekki vera bestur í heimi?
Ég segi þetta auðvitað ekki upphátt við Mister TikTok. Það er algjör óþarfi, skilaboðin úr hljóðveggnum eru svo augljós. Hvað þarf að segja meira?
Sveitabærinn
Við nálgumst Reykholtsdal, hingað var ég sendur í sveit þegar ég var jafngamall og sonur minn er núna. Þegar ég kom fyrst voru hjónin á bænum rétt skriðin yfir þrítugt og áttu tvær litlar stelpur sem ég passaði fyrsta sumarið, auk þess sem ég rak kýrnar og mokaði flórinn. Þau eru löngu hætt að vera með beljur en að öðru leyti hefur furðu lítið breyst. Litlu stelpurnar sem ég passaði eru orðnar mæður og allt er morandi í börnum og barnabörnum. Sum á kafi í búskapnum meðan önnur elda matinn og spila listavel á gítar. Mister TikTok kynnist barnabarni úr sínum árgangi, stríðinn fjárhundur eltir þau út í móa og nartar í þau. Barnið gleymir TikTok og Jútúb í smá stund.
Fólkið á bænum segir að hann sé líkur mér eins og ég var. Hann er auðvitað snoðaður og í jakka spænska landsliðsins, en ég var með hár niður á axlir í bættum flauelsbuxum með skátahníf í beltissylgjunni. Rolling Stones-kynslóðin mætir TikTok. Brian Jones mætir Gylfa Sigurðssyni.
Kærleiksrík handtök
Eftir hádegismatinn er farið að marka og blóðið drýpur af sneiddum lambseyrum. Eitt lambið deyr í fæðingu og bóndinn venur annað undir mömmuna.
Hérna er lífið og dauðinn miklu nær okkur en venjulega.
Ég tek eftir því að kindurnar fá meiri þjónustu en þegar ég var krakki. Þær fá til dæmis sérstaka fótsnyrtingu. Kind er skellt aftur á bak upp í nokkurs konar strandstól úr vír. Sauðurinn jarmar meðan bóndinn nostrar við að klippa til á honum klaufirnar. Hann er kominn í handsnyrtingu eins og fínustu túristarnir á lúxushótelinu við Bláa lónið.
Það er eitthvað áhugavert við þessi kærleiksríku en ákveðnu handtök bóndans við kindina sem lýsir okkur svo vel sem þjóð. Við komum vel fram við þessi dýr, reynum að láta þeim líða eins vel og hægt er, en þau enda auðvitað alltaf í sláturhúsinu á endanum.
Nýtum auðlindina!
Þetta leiðir hugann að ferðamönnum sem eru væntanlegir aftur til landsins, hvað úr hverju.
Ef Ísland er best í heimi og við feðgar norræn ofurmenni, af hverju göngum við þá ekki aðeins lengra og gjörnýtum túristana eins og við höfum öldum saman nýtt sauðkindina? Af hverju ekki að mjólka síðasta blóðdropann úr þeim? Hver saknar Bill og Jean í Brooklyn þegar þau koma ekki aftur úr fríinu?
Á öndverðri sextándu öld komst Axlar-Björn upp með það í mörg ár að drepa ferðamenn í hagnaðarskyni. Túristar sem lögðu leið sína hjá bænum Öxl á Snæfellsnesi voru einfaldlega rændir aleigunni og síðan drepnir. Maður spyr sig líka hvað þeir voru að þvælast þetta, ég stórefast um að það hafi verið búið að opna mannsæmandi klósett á Arnarstapa á þessum tíma. Þið getið auðvitað gleymt upplýsingamiðstöðinni á Malarrifi.
Sumir segja að Axlar-Björn hafi grafið líkin í heygarði eða fjósi en aðrir að hann hafi komið líkunum fyrir í tjörn einni skammt frá bænum. Þetta var í stuttu máli orðinn huggulegur iðnaður hjá manninum. Af hverju getum við ekki gert það sama nú á tímum, kannski í aðeins stærri skala?
Ferðamenn eru jú að mörgu leyti eins og sauðkindur nútímans.
Ferðamenn eru jú að mörgu leyti eins og sauðkindur nútímans. Alveg eins og túristinn hefur blessuð sauðkindin reynt að éta landið upp til agna síðan hún kom hingað fyrst, þá sérstaklega síðustu tvö hundruð ár eftir að við fórum að hleypa henni almennilega inn í afréttir. Sauðkindin fer eins langt og við hleypum henni, hún les ekki á skilti og skilur ekkert í íslensku. Jarmar bara einhverja vitleysu á útlensku eða hleypur í burtu þegar yrt er á hana.
Sauðkindum fækkaði á síðustu árum meðan túristum fjölgaði í jöfnu hlutfalli. Það er einhver samsvörun þarna, einhver ryþmi.
Þegar kínverska parið varð úti á Sólheimasandi í janúar þá var það áfall fyrir mig. Ég keyrði fram hjá bílastæðinu við þjóðveginn oft í viku og hafði margoft varað ferðamenn við því að vera að þvælast inn á sandinn.
Þegar líkin fundust varð ég miður mín. En svo las ég athugasemd sem varð til þess að ég saug upp í nefið, þurrkaði augun og rétti úr mér bak við stýrið.
Hvað viljið þið gera? skrifaði einhver á fésinu. Fara á miðilsfund? Það er algjör óþarfi að búa til eitthvert drama, þau tóku alranga ákvörðun og urðu úti, blessuð sé minning þeirra.
Og þarna rammast hún svo fallega inn, gamla góða hugsun feðraveldisins. Við erum miskunnsamir en um leið harðir af okkur, vér ofurmennin.
En, pabbi? spyr Mister TikTok þegar við komum loksins heim úr sveitinni.
Hvenær verður heimsendir?
Athugasemdir