Ljóst er að hlutastarfaleið ríkisstjórnarinnar hefur verið verið nýtt af fyrirtækjum sem ekki eiga í bráðum rekstrar- eða greiðsluvanda. Þetta er niðurstaða Ríkisendurskoðunar en stofnunin birti í dag úttekt sína á hlutabótaleiðinni. Þá er það mat stofnunarinnar að þegar í stað þurfi að tryggja virkt eftirlit með framkvæmdinni. Fram til þessa hefur áhersla Vinnumálastofnunar verið á að tryggja framkvæmd úrræðisins, umfram eftirlit. Tryggja þarf stofnunin geti haft eftirlit með því að þeir vinnuveitendur sem nýta sér hlutastarfaleiðina uppfylli skilyrði sem sett eru fram í nýju frumvarpi um framlengingu úrræðisins.
„Ríkisendurskoðun telur að fullt tilefni hafi verið fyrir stjórnvöld að endurskoða framkvæmd hlutastarfaleiðarinnar og bregðast við, enda sé þannig leitast við að úrræðið sé eingöngu nýtt af þeim aðilum sem því er ætlað að aðstoða,“ segir í úttektinni og bent er á að fyrirtæki hafi nýtt sér leiðina án þess að hafa þurft á því að halda.
Nýttu sér úrræðið þvert á vilja löggjafarvaldsins
Þá vekur það athygli Ríkisendurskoðunar að sveitarfélög og opinberir aðilar hafa nýtt sér hlutabótaleiðina, „þrátt fyrir að lögskýringargögn beri með sér að úrræðið hafi verið ætlað fyrirtækjum og starfsmönnum þeirra,“ eins og segir í úttektinni. Þar er einnig bent á að um all nokkuð frjálsræði hafi verið í túlkun laganna, og það þrátt fyrir að stjórnvöld hafi lagt áherslu á að hlutastarfaleiðin væri stuðningur við lífvænleg fyrirtæki sem misst hafi miklar tekjur. „Í hópi þeirra aðila sem hafa nýtt sér hlutastarfaleiðina eru fyrirtæki og fyrirtækjasamstæður sem búa að öflugum rekstri og traustum efnahag en ekki verður séð af lögunum og lögskýringargögnum að slíkt hafi verið ætlunin.“
Ríkisendurskoðun bendir þá enn fremur á að þó dæmi séu um að fyrirtæki hafi tilkynnt að þau hyggist endurgreiða frmalag Atvinnuleysistryggingasjóðs þá sé ekki ljóst hvort, og þá hvernig, sú endurgreiðsla eigi að eiga sér stað. Þrátt fyrir að fordæmalausar efnahagsaðstæður hafi kallað á skjót viðbrögð stjórnvalda þá sé brýnt að haft sé eftirlit með nýtingu ríkistjár, að staðinn sé vörður um hagsmuni ríkissjóðs og að útgreiðslur úr honum taki mið af vilja löggjafans.
Þann 15. maí höfðu 37 þúsund launamenn og 6.436 vinnuveitendur nýtt sér hlutabótaleiðina frá því hún var lögfest 20. mars. Í mars og apríl voru greiddar 11,6 milljarðar króna úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna úrræðisins og gerir Vinnumálastofnun ráð fyrir að útgreiðslur vegna hlutabóta geti numið 30,7 milljörðum króna á þessu ári. Eitt fyrirtæki sker sig úr í þessum efnum, Icelandair ehf. Í mars og apríl greiddi Atvinnuleysistryggingasjóður 926 milljónir króna í hlutabætur vegna starfsmanna fyrirtækisins. Heildargreiðsla vegna hlutabóta til starfsmanna móðurfélags flugfélagsins, Icelandair Group hf., nam 1.116 milljörðum króna vegna 3.318 starfsmanna.
Athugasemdir