Fyrirtæki sem fá styrk frá ríkinu vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti munu geta greitt hluthöfum út arð strax á næsta ári samkvæmt frumvarpi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.
Þetta er á meðal þess sem embætti ríkisskattstjóra bendir á í umsögn sinni um frumvarpið. „Vert er að benda á að ákvæði þessa frumvarps um bann við arðgreiðslum eru ekki sambærileg við ákvæði í lögum nr. 25/2020 að því er tekur til stuðningslána, en þar er m.a. gert ráð fyrir því að arður verði ekki greiddur að lágmarki í 30 mánuði, þ.e. á lánstímanum. Í því úrræði sem hér er til umfjöllunar getur komið til arðgreiðslu strax á næsta ári,“ segir í umsögninni.
Skilyrði laganna um bann við arðgreiðslum og kaupum á eigin hlutafé gilda allt þar til fjárstuðningur hefur að fullu verið tekjufærður. Ber atvinnurekenda að telja fjárstuðning vegna launakostnaðar á uppsagnarfresti til tekna í skattskilum sínum fyrir það rekstrarár þegar stuðningurinn er veittur og allt þar til tap þess árs og yfirfæranlegt tap frá fyrri árum hefur að fullu verið jafnað. Hér er um að ræða skuldbindingu sem getur mest varað í mest sjö ár, en einnig geta fyrirtæki losað sig undan skuldbindingunni með því að endurgreiða ríkissjóði þann hluta fjárstuðnings sem hefur ekki verið tekjufærður.
Bent er á það í greinargerð frumvarpsins að íslenska leiðin, að niðurgreiða uppsagnarkostnað fyrirtækja, sé frábrugðin þeim aðgerðum sem ráðist hefur verið í á hinum Norðurlöndunum. „Annars staðar á Norðurlöndunum er annarri útfærslu beitt til þess að gera fyrirtækjum kleift að draga úr starfsemi sinni ef tilefni er til, án þess að það hafi áhrif á gjaldfærni þeirra og ráðningarsamband við starfsfólk en lögð er til hér,“ segir í greinargerðinni. „Sem dæmi má nefna að í kjarasamningum, t.d. í Noregi og Danmörku, hafa fyrirtæki heimild til þess að setja starfsfólk í tímabundið, launalaust leyfi og fær það starfsfólk atvinnuleysisbætur á meðan leyfið varir. Starfsfólk sem fer í launalaust leyfi á þessum forsendum heldur ráðningarsambandi við fyrirtækið og á rétt til áframhaldandi starfa að leyfinu loknu.“
Athugasemdir