Ég var um daginn að ljúka við námskeið sem ég var með hjá Endurmenntun Háskóla Íslands um Skaftárelda 1783 og móðuharðindin í kjölfarið. Námskeiðið byrjaði í mars og fyrsta kvöldið snemma í mánuðinum talaði ég um íslenskt samfélag á 18. öld og Þorvaldur Þórðarson prófessor kom og fræddi okkur um sjálft gosið í Lakagígum.
Hann er einn helsti sérfræðingur í heimi í því og þvíumlíkum gosum.
Síðan urðum við hins vegar að gera hlé á námskeiðinu þar sem kórónuveirufárið var þá að skella á og síðan COVID-kófið.
Eitthvað pirrandi
Tveim mánuðum seinna tókst loks að ljúka því og þá með viðeigandi varúðarráðstöfunum og hluti námskeiðsgesta var á netinu en ekki í fremur eyðilegum salnum úti á Högum þar sem EHÍ er til húsa.
Nú var ég vissulega þokkalega vel að mér um þessa atburði fyrirfram, ella hefði ég náttúrlega ekki treyst mér til að stýra slíku námskeiði. En ég varð líka margs vísari þegar ég fór að lesa mér kerfisbundið til fyrir námskeiðið, og er þegar búinn að ákveða að taka saman bók um þetta stórmerkilega efni.
En þegar ég fór sem sagt að grúska í þessu öllu saman fór eitthvað að pirra mig sem ég áttaði mig ekki strax á hvað væri. Eitthvað í sambandi við lýsingar á þessum hörmungum öllum.
Það var reyndar fleira en eitt.
Aðeins meira?
Í fyrsta lagi kom mér á óvart hversu lítið hefur í raun verið skrifað um þessar hörmungar allar í heild og sér í lagi hve takmarkað sagnfræðingar vorir hafa gegnum tíðina reynt að setja sig í spor þeirra einstaklinga sem lentu í þessum ósköpum. Það hvarflar að manni að höfundar hafi sumir meiri áhuga á bréfaskriftum embættismanna en hvað gerðist á vettvangi þegar nærri einn fjórði hluti þjóðarinnar dó.
Í 430 síðna bók um 18. öldina í ritröðinni Saga Íslands eru 15 síður um sjálfa Skaftárelda og móðuharðindin. Fínt stöff, það sem það er, en hefði það ekki átt að vera aðeins stærra hlutfall bókarinnar?
En svo var annað, orsakir hörmunganna. Skaftáreldar-móðuharðindi-heyskapur bregst-búfénaður deyr-hungursneyð-22 prósent landsmanna deyja. Þetta virkaði einfalt og eðlilegt, en það var eitthvað ögn óþægilegt við þetta. Það var loks þegar ég las fína grein eftir Guðmund Hálfdanarson sagnfræðing í ágætu heimildariti (sem kom út þegar árið 1984) um Skaftárelda sem ég náði að orða það í huganum.
Afleiðing náttúruhamfara?
Guðmundur vakti athygli á hvernig um orsakasamhengið hafði gjarnan verið skrifað fram að því. Einar Laxness skrifaði til dæmis í uppsláttarriti sínu um Íslandssögu að grasbrestur hefði orðið, heyfengur lítill og skepnudauði, en bætti svo við: „Af þessu leiddi mikinn mannfelli ...“
Guðmundur nefnir fleiri dæmi í grein sinni um að menn skrifi hikstalaust og fyrirvaralaust að hungursneyðin og mannfellirinn hafi verið bein afleiðing náttúruhamfaranna.
En var það svo?
Eins og bæði Guðmundur og líka Gísli heitinn Gunnarsson skrifa um í þessari ágætu bók voru ástæðurnar mun flóknari en svo að það sé hægt að draga svo einfalda ályktun eins og Einar og fleiri gerðu. Og reyndar komu strax á tímum goss og hörmunga upp raddir sem fullyrtu að ástæður mannfellisins væru alls ekki hamfarir náttúrunnar.
„Ei heldur vanbrúkun tóbaks og brennivíns“
Skúli Magnússon fógeti skrifaði strax við upphaf harðindanna að fátækt og framtaksleysi á Íslandi – sem stafaði umfram allt af verslunareinokuninni – væru aðalástæðurnar, en „[h]vorki jarðeldar, jarðskjálftar, skriðuföll né landbrot, ei heldur drepsóttir, vetrarharðindi né hafís [...] ei heldur vanbrúkun tóbaks og brennivíns og skrúðklæða burður, ei heldur leti með hirðuleysi framar en hvað örbirgðinni ávallt fylgir“.
Og mætur prófessor í Kaupmannahöfn, Eggers að nafni, skrifaði 1786, eftir að hafa rannsakað hag Íslands við lok hörmunganna: „Það verður hverjum manni augljóst, að sú hungursneyð, með öllum hennar hryggilegu afleiðingum, sem er komin upp í þessu landi, svo auðugt sem það er af náttúrunni [...] er einungis komin af klaufalegri tilhögun í stjórn landsins, og af engu orði.“
Blind náttúruöfl
Af ENGU öðru. Þar er sterkt kveðið að orði. Skúli og Eggers eiga vel að merkja bæði við stjórnvöld innanlands og í Danmörku, og raunar frekar á Íslandi ef eitthvað er, en á tímum sjálfstæðisbaráttunnar þótti hæfa að kenna Dönum einum um allt illt og þá hvarf nær alveg úr sögubókum gagnrýni á stjórnvöld innanlands. Þegar fór svo að draga örlítið úr heiftinni í garð Dana, þá var farið að kenna blindum náttúruöflunum um, og þá varð til sú söguskoðun sem vart verður hjá Einari Laxness.
Náttúruhamfarir, þess vegna varð hungursneyð.
Þótt almennileg stjórnvöld hefðu getað og hefðu átt að koma í veg fyrir skelfingarnar.
Mér er ekki að fullu ljóst hvort þessar hugleiðingar um orsakir mannfellisins 1784–1786 hafa gildi við okkar aðstæður. Nema kannski sem almenn hugleiðing um að líta í eigin barm?
Athugasemdir