„Ég ætla ekki að skrímslavæða hann. Hann eins og aðrir gerendur eru mennskir og það á ekki taka af þeim ábyrgðina af gjörðum þeirra. Hann vissi og veit nákvæmlega hvað hann gerði,“ segir Ingunn Valgerður Henriksen, Inga, en sambýlismaður hennar er ákærður fyrir að beita hana alvarlegu heimilsofbeldi 17. apríl síðastliðinn.
Samkvæmt ákæru átti ofbeldið sér stað á heimil þeirra í Helsingjaborg í Svíþjóð, fyrir framan fjögur börn Ingu sem einnig urðu fyrir ofbeldi af hálfu sambýlismanns hennar. Inga segir ofbeldið hafa verið svo alvarlegt að hún missti meðvitund í tvígang og þegar lögregla kom á staðinn handtók hún manninn sem var úrskurðaður í þriggja sólarhringa gæsluvarðhald, í einangrun. Saksóknari úrskurðaði manninn í nálgunarbann og hefur verið gefin út ákæra á hendur honum fyrir líkamsárás á hendur Ingu og tveimur barna hennar. „Mér líður ekki vel, mig langar bara að komast heim í netið mitt,“ segir Inga sem stefnir á að komast heim til Íslands í byrjun júní en þegar heim er komið ríkir algjör óvissa um hvaða aðstoð henni býðst til að koma fótunum undir sig.
Segist hafa rotast
Lýsingarnar á ofbeldinu eru ógnvekjandi en Inga skrifaði Facebook-færslu þar sem hún sagði sögu sína og skilaði skömminni. Hún lýsir því hvernig sambýlismaður hennar hafi komið heim úr vinnu, angandi af áfengislykt. Hann hafi þegar haft allt á hornum sér, öskrað á börnin, meitt nítján mánaða gamalt barn þeirra með því að kippa í hendi þess svo það hafi farið að hágráta. Hegðunin hafi færst í aukana, hann hafi ausið fúkyrðum yfir Ingu og börnin, skellt hurðum þannig að þær hafi skemmst og harðneitað öllum beiðnum Ingu um að fara út af heimilinu til að ná áttum. Hann hafi þá ógnað þeim, fyrst Ingu og síðan börnum hennar, sem hafi endað með því að hann hafi tekið Ingu upp og grýtt henni í gólfið þar sem hún rotaðist.
„Börnin horfðu á hann kýla mig í vegginn með þeim afleiðingum að hausinn fór í vegginn, ég datt út og fékk flogakast og pissaði á mig“
„L fríkar út og ég heyri öskrin hennar í fjarlægð. Hann segir henni að halda kjafti og reynir að hrinda henni. Hún hleypur inn í herbergi. Ég man ekki hvernig ég komst fyrir framan herbergi barnanna þar sem hann heldur hnefanum á lofti og segir börnunum að halda sig inni í herbergi og halda kjafti. Ég bið hann um að fara út, hann ýtir mér til hliðar og ég urra að honum að snerta ekki börnin mín.“
Við þetta gekk sambýlismaður Ingu aftur í skrokk á henni, segir hún. „Börnin horfðu á hann kýla mig í vegginn með þeim afleiðingum að hausinn fór í vegginn, ég datt út og fékk flogakast og pissaði á mig.“
Hélt því fram að Inga hefði dottið.
Inga lýsir því að þegar hún rankaði við sér hafi hún séð sambýlismann sinn grípa í peysu dóttur hennar og grýta henni í gólfið, á systur sína. Börnin hafi öll öskrað á hjálp hvert í kapp við annað og beðið um að hringt yrði á lögregluna því maðurinn væri að drepa móður þeirra. Dóttir Ingu hljóp svo fram á gang til að sækja hjálp og nágrannar þeirra brugðust við og ruddust inn í íbúðina, Ingu og börnunum til bjargar. Hann hafi þá haldið því fram að allt væri þetta misskilningur og að Inga hefði einfaldlega bara dottið. Lögreglan hafi hins vegar komið á svæðið og fært manninn burt í járnum.
Inga segir að maðurinn hafi hins vegar alveg vitað hvað hann væri að gera. „Venjuleg manneskja sem reiðist reynir að koma sér út úr aðstæðunum, til að ná ró og ræða síðan málin eftir að ró er náð. Ég bauð honum það ítrekað, aftur og aftur en hann tók því ekki. Ég var á fundi hjá áfallateymi hér úti í Helsingjaborg fyrr í dag og þar var mér bent á að hann var við stjórnvölinn allan tímann. Þó okkur, mér og börnunum, hafi liðið eins og hann væri í einhverju annarlegu ástandi þá varð hann alveg pollrólegur um leið og nágranninn kom inn.“
Vísað af heimilinu og úrskurðaður í nálgunarbann
Sambýlismaður Ingu var úrskurðaður í nálgunarbann gagnvart henni 20. apríl síðastliðinn sem gildir til 16. júní næstkomandi. Þá var honum vísað af sameiginlegu heimili þeirra. Samkvæmt úrskurðinum er honum óheimilt að hitta Ingu, að setja sig í samband við hana eða elta hana með nokkrum hætti.
Í úrskurðinum segir að vegna aðstæðna sé hætta á að sambýlismaður Ingu muni brjóta gegn lífi hennar, heilsu, frelsi eða friðhelgi. Yfirstandandi rannsókn á ofbeldisbroti sambýlismanns Ingu skýtur stoðum undir kröfu um nálgunarbannið, segir í úrskurðinum. Rannsóknin sýnir fram á að sambýlismaður hennar hafi beitt Ingu ofbeldi að börnum hennar viðstöddum, segir enn fremur í úrskurðinum.
Stigvaxandi ógnanir
Inga segir að maðurinn sinn hafi ekki áður lagt hendur á sig en síðustu mánuði hafi hegðun hans farið stigversnandi í garð hennar og barnanna. Hann hafi verið skapstór, jafnvel kastað hlutum og í febrúar hafi hann ráðist á son Ingu, skellt honum upp að vegg og á gólfið. „Síðan þá hefur hann sýnt af sér ógnandi hegðun ítrekað, lamið hnefanum í borðið, öskrað á mig, staðið yfir mér og potað fingrum í andlitið á mér.“
Inga segist kannast við slíka hegðun en þegar hún kynntist manni sínum var hún að hafði hún áður verið í ofbeldissambandi. Fyrrverandi maki hennar hafði beitt hana andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. „Þegar ég kynntist manninum mínum þá var ég á viðkvæmum stað vegna samskipta við þann mann. Sambýlismaðurinn minn stóð mjög þétt við bakið á mér, hann var mjög sjarmerandi, vel máli farinn og áhugasamur um mig og lífið almennt. Það var svo mikil stoð að honum að ég hunsaði öll viðvörunarmerki.“
„Ef við hefðum búið heima á Íslandi hefði ég hent honum út“
Spurð hvort að það, þegar litið væri í baksýnisspegilinn, hafi verið rauð flögg á lofti frá upphafi varðandi hegðun hans játar Inga því. „Hann var alltaf mjög fljótur upp. Áður en við fluttum hingað út hafði hann tekið í börnin mín, beitt líkamlegu afli, og ég hafði átt samræður við hann um að svona væri ótækt, þetta gengi ekki. En hann hefur beitt ákveðinni óttastjórnun alla tíð, ekki síst í garð barnanna.“
Fannst hún í erfiðri stöðu
Fjölskyldan flutti út til Svíþjóðar fyrir tæpu ári síðan til að upplifa eitthvað nýtt, það var heillandi að flytja úr landi. Inga ætlaði sér að klára fæðingarorlof úti í Helsingjaborg og hefja nám í afbrotafræði í háskólanum þar í haust en maðurinn hennar var kominn með vinnu úti. Inga segir að hún hafi átt ákveðið öryggisnet úti í Svíþjóð, meðal annars býr vinkona hennar ásamt fjölskyldu sinni í um 40 mínútna fjarlægð. Engu að síður segir Inga að henni hafi liðið eins og hún væri í erfiðri stöðu þarna úti til að bregðast við ógnandi og óeðlilegri hegðun sambýlismanns hennar. „Ef við hefðum búið heima á Íslandi hefði ég hent honum út, ég hefði verið búin að henda honum út. Mér fannst tilhugsunin um að henda honum út í ekki neitt hérna úti óþægileg enda átti hann ekki öryggisnet hér úti.“
Inga segir að búið hafi verið að ákveða að fjölskyldan flytti heim til Íslands í sumar, manninum hennar hafi ekki liðið vel úti í Svíþjóð og því hafi staðið til að þau kæmu heim til Íslands í júní. Í lok október á síðasta ári segir Inga að maðurinn hafi brugðist trausti hennar. „Ég held að eftir það þá hafi sambandið verið tilfinningalega bara búið. Ég var að reyna að gefa séns, sýna umburðarlyndi, skilning og tillitssemi en hann vildi ekki leita sér neinnar aðstoðar hér úti. Hann bar alltaf fyrir sig tungumálaerfiðleika en það er hægt að hafa samband við sálfræðinga á Íslandi ef vilji er fyrir hendi. Mér leið eins og hann væri að setja okkar samband í bið þar til að við kæmum til Íslands, þá myndi hann leita sér aðstoðar, en á meðan óx bara þessa erfiða og ógnandi hegðun og varð verri og verri.“
„Ég vaknaði grátandi í morgun og er búin að gráta í allan dag, fram að þessu viðtali“
Inga bíður nú eftir því að komast heim til Íslands og stefnir að því að fljúga hingað 6. júní. Hún er þegar komin með íbúð hér á landi en er í óvissu um félagslega aðstoð. Hún hefur nú fyrir fjórum börnum og sjálfri sér að sjá en á meðan lögheimili hennar er skráð úti í Svíþjóð kemst hún ekkert áfram í íslenska kerfinu, ekki hvað varðar fjárhagsaðstoð, auknar húsnæðisbætur eða annað. Ef hún hins vegar flytur lögheimili sitt frá Svíþjóð þá missir hún þá aðstoð sem hún hefur notið þar til að vinna úr ofbeldinu. Hún er því kvíðin fyrir því hvað er framundan. „Ég þarf á stuðningi heima að halda til að koma undir mig fótunum að nýju. Ég get ekki farið vinna, ef ég fæ vinnu, fyrr en litla stelpan mín fær leikskólapláss. Þetta er ansi snúið og ég veit ekki alveg hvernig þetta bjargast. Ég get til dæmis ekki fengið gáminn fluttan heim, ég þarf að leita á náðir mömmu til þess og finnst það ansi erfitt. Svo þurfum við að fara í sóttkví þegar við komum heim þannig að það hægir líka á öllu ferlinu. Mér líður eins og kerfið þurfi að bregðast hraðar við heima á Íslandi. Ég hafði samband við Bjarkarhlíð, sem benti mér á þjónustumiðstöðvar borgarinnar en þar er ekkert hægt að gera fyrr en ég er komin með lögheimili heima. Ef ég hins vegar færi lögheimilið heim þá missi ég stuðning hér í Svíþjóð. Ég held að álagið sem að fylgir þessu öllu sé hættulegt andlegu hliðinni og það verði að meta það. Þetta er engin normal staða að vera í.“
Inga segir að sú aðstoð sem hún og börnin hennar hafi notið í Svíþjóð sem þolendur heimilisofbeldis, hafi verið til mikillar fyrirmyndar og vel haldið utan um hana. Spurð hvernig henni líði segist hún varla vita það. „Ég er alls konar. Ég vaknaði grátandi í morgun og er búin að gráta í allan dag, fram að þessu viðtali. Mér finnst erfitt að þurfa að halda haus fyrir framan börnin fjögur og þurfa að keyra þessi mál öll áfram. Mér líður ekki vel, mig langar bara að komast heim í netið mitt.“
Athugasemdir