Heimsfaraldur COVID veirunnar hefur haft víðtæk áhrif á samfélagið allt. Margir eiga um sárt að binda vegna faraldursins og efnahagsleg áhrif eru skelfileg fyrir marga. Áhrif faraldursins eru þó ekki að öllu leyti neikvæð og meðal annars hafa áhrifin verið mikil á loftslagsmálin. Í borgum víða um heim sést nú í bláan himininn og fjöll og byggingar sem hafa verið ósýnileg vegna loftmengunar frá umferð og iðnaði kom nú í ljós aftur. Það hefur opnað augu margra að sjá svart á hvítu hversu mikil áhrif lífshættir okkar hafa á umhverfið og margir vilja ekki snúa aftur til fyrra ástands. Það má spyrja sig hvort við getum lifað betra og heilbrigðara lífi eftir veiruna en samt haldið viðunandi lífsgæðum og öryggi?
Eftir samkomubann hafa margir uppgötvað gildi hreyfingar í nærumhverfi sínu og fólk hefur tekið fram reiðhjólin úr geymslum og bílskúrum og farið í hjólaferð með fjölskyldunni. Á stígum og gangstéttum má sjá fjölda fólks sem gengur, hleypur og hjólar Þetta sést greinilega í talningum á stígum á vegum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en þar varð mikil aukning gangandi og hjólandi á útivistarstígum eftir samgöngubannið, samanber 1. mynd.
Breytingar eru mögulegar
Þegar samfélagið verður fyrir áfalli er gott að staldra við og hugsa sinn gang. Síðast þegar Ísland lenti í svona áfalli í Hruninu 2008 horfðist þjóðin í augu við skakkt gildismat og margir breyttu lífsháttum og gildismati til frambúðar. Það sást meðal annars vel í breyttum ferðamátum sem tóku stakkaskiptum hjá talsverðum fjölda fólks samanber 2. mynd, sem sýnir aukningu hjólreiða í Reykjavík eftir hrun. Sú breyting í ferðavenjum hefur haldist að mestu og sýnir að breytingar eru mögulegar. Á þessum árum hefur líka verið gerð gangskör að lagningu göngu- og hjólastíga og það hefur skapað skilyrði fyrir aukinni hreyfingu almennings.
„Eftir veiruna sjá kannski margir að virk hreyfing með því að ganga, hjóla eða hlaupa getur verið samgöngumáti“
Það er samt svo að í flestum tilfellum snýst breyting í ferðavenjum um hugarfar, sálarlíf, menningu og þjóðfélagsskipan. Veiran hefur þau áhrif að hrista upp í lífsháttum. Fólk hefur meiri tíma, lífstakturinn er öðruvísi og fjarvinna er allt í einu möguleg. Allt ýtir þetta undir að fók endurhugsi líf sítt og breyti jafnvel forgangsröðun. Eftir veiruna sjá kannski margir að virk hreyfing með því að ganga, hjóla eða hlaupa getur verið samgöngumáti í og úr vinnu, skóla og til að sækja þjónustu. Ef sú verður raunin getum við við horft bjartsýn fram á veginn og svarað spurningunni hér að framan játandi. Já, við getum að þessu leyti lifað betra og heilbrigðara lífi eftir veiruna og sú breyting mun bæta lífsgæði okkar og auka öryggi.
Meðan veiran herjar er virk hreyfing sennilega besta leiðin til að fara um. Menn fá nauðsynlega hreyfingu og tengingu við umhverfi sitt jafnvel þótt sundlaugin og ræktin sé lokuð. Ganga, hlaup og hjólreiðar með fjölskyldu, vinum eða kunningjum í minni hópum er alls ekki á skjön við samkomubannið meðan menn virða 2 metra regluna.
Æskilegt er líka að yfirvöld geri ráð fyrir aukinni umferð hjólandi og gangandi í framtíðinni og skipuleggi umhverfið okkar með það í huga. Aukin umferð á stígunum sýnir fram á nauðsyn þess að umferð gangandi og hjólandi á stígum verði aðskilin mun víðar. Það væri ekki úr vegi að flýta fyrirhuguðum framkvæmdum við stígana því það gæti komið sér vel í atvinnuleysinu.
Athugasemdir