Efnahagskreppan sem COVID-19 kórónafaraldurinn hefur valdið hefur enn ekki lagst af fullum þunga á fyrirtæki í landinu, að því marki að þau séu unnvörpum farin í þrot, þó þegar hafi nokkur fjöldi fyrirtækja lagt upp laupana. Það er þó að mati forsvarsfólks atvinnugreinanna aðeins tímaspursmál hvenær gjaldþrotahrina muni ganga yfir fyrirtæki í ferðaþjónustu, í veitingageiranum og í verslun.
„Það er útilokað að öll fyrirtæki í ferðaþjónustu lifi af þessar hremmingar og það sama á við um stærstan hluta verslana í miðborginni, og eins fyrirtækja sem hafa stólað á ferðamenn. Það er útilokað að þau lifi þetta öll af,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.
Fyrirtæki hafa brugðist við ástandinu með uppsögnum og með því að nýta hlutabótaúrræði ríkisstjórnarinnar. Atvinnuleysi í marsmánuði mældist 9,2 prósent, en hafði verið 5 prósent í febrúar. Atvinnuleysi fór vaxandi eftir því sem á mars leið, einkum eftir að lög um hlutabótaleið tóku gildi. …
Athugasemdir